26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

16. mál, fjárlög 1930

Einar Jónsson:

Þegar hv. þm. Barð. hóf mál sitt, vantaði 20 þm. í deildina. Vantar nú helming hv. deildarmanna, og þar sem hjer er um að ræða sanngjarnar kröfur Rangæinga, fer jeg ekki út í að ræða þær við helming dm. (ÓTh: En hjer eru allir bestu menn d. viðstaddir). Ef svo er, mun jeg freista að mæla nokkrum orðum með till. minni.

Þessi brtt. er undir XIV., við 13. gr. B. III., til nýrrar dragferju á Hólsá hjá Ártúnum í Rangárvallasýslu, helmingur kostnaðar, alt að 7500 kr. Þannig stendur á, að Landeyingar komast ekki leiðar sinnar nema þeim sje hjálpað til umbóta á samgöngum þeirra. Þeir eru umkringdir af vötnum á alla vegu. 12. mars var haldinn almennur fundur um þetta mál í Rangárvallasýslu, og var þá samþ. að fara þess á leit við hið háa Alþingi að fá styrk til þessarar dragferju.

Þegar þetta erindi komst í hendur okkar þm. kjördæmisins, sneri jeg mjer til hæstv. samgmrh. og bað hann liðsinnis. Hann brást vel við og sendi þegar daginn eftir mann austur, Jón Ísleifsson verkfræðing, til þess að athuga dragferjustæði. Bjóst hann við því, að kostnaður við dragferjuna yrði 13500 kr. Síðan hefi jeg átt tal við vegamálastjóra um þetta mál, og álítur hann sjálfsagt, að þingið styrki þessa samgöngubót, en hinsvegar býst hann við, að kostnaður muni verða um 15000 kr. Yrði sýslan að taka að sjer 1/3 kostnaðar og telja leið þessa til sýsluvega. Till. þessi lá fyrir hv. d. við 2. umr. fjárl., en var þá tekin aftur, sökum þess að hv. fjvn. var ekki búin að athuga uppdrætti verkfræðings, en gat að öðru leyti ekki fallist á till. Við höfum því lagt til nú, að Rangæingar leggi sjálfir til helming kostnaðar, en Alþingi veiti fje til sem því svarar. Þar sem öllum hv. þm. er ekki kunnugt um brjef vegamálastjóra, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa álit hans. Hann segir svo:

„Að tilhlutun þingmanna Rangárvallasýslu hefir verið gerð áætlun um dragferju á Hólsá undan Ártúnum, og er kostnaðurinn áætlaður 15000 kr. Gert er ráð fyrir, að ferja þessi sje svo stór, að hún geti borið eina bifreið hlaðna.

Bifreiðar komast nú af þjóðveginum hjá Ægissíðu eftir sýsluveginum niður með Rangá að ferjustaðnum, sem er rjett hjá Djúpósfyrirhleðslunni, en aðstaða er mjög örðug um flutninga yfir Hólsá á smáferjubátum. Hinsvegar má telja sæmilega fært bifreiðum víða um Vestur-Landeyjar, þegar komið er yfir ána. Tel jeg því, að allverulega megi bæta úr flutningsörðugleikum þeirrar sveitar með þessari dragferju.

Vil jeg mæla með tillögu þeirra þingmanna um, að tekin verði upp í fjárl. 1930 10 þús. kr. fjárveiting til dragferjunnar, gegn þeim skilyrðum, sem sett eru í tillögunni. Er tillag þetta úr ríkissjóði miðað við sömu hlutfallsgreiðslu og heimiluð er til brúargerða á sýsluvegum“.

Þetta eru sterk og ágæt meðmæli. Vegamálastjóri hefir lagt til, að við færum fram á 10 þús. kr. úr ríkissjóði, en við höfum fært þá upphæð niður í 7500 kr. í till. okkar. Mjer þykir leitt, að svo fáir hv. þdm. hafa getað heyrt hin ágætu meðmæli vegamálastjóra, því að vera kynni, að jeg yrði vændur um eigingirni, þar eð mín sýsla á í hlut. Jeg vænti þess, að menn sjái, hve sanngjörn þessi till. er og greiði henni því atkv. sitt, a. m. k. þeir hv. þdm., er viðstaddir eru, þar sem mjer er sagt, að það sjeu bestu menn hv. deildar.