26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

16. mál, fjárlög 1930

Hannes Jónsson:

Mjer hrýs hugur við því, satt að segja, að taka til máls undir þessum umr. Brtt. á þskj. 408 mundu, ef þær væru allar samþ., nema 450 þús. kr. hækkun, en það er náttúrlega öllum sjáanlegt, að slíkt er ómögulegt fyrir ríkissjóð; hann þolir það ekki. Allmargir af hv. þdm. hafa þegar talað fyrir sínum brtt., og eftir því sem þeim hafa fallið orð, þá er ekki hægt annað að álykta en að þeir styrkir sjeu alveg bráðnauðsynlegir og að endilega þurfi að samþ. þá. Jeg vil ekki segja, að jeg hafi sannfærst af öllu, sem sagt hefir verið, en það getur verið jafngott fyrir því, og svo þegar jeg fer að mæla fyrir minni brtt., sem jeg verð eins og aðrir hv. þm. að telja mjög mikilsvarðandi, þá skýtur upp þeirri hugsun hjá mjer: Hvar á að draga af? Einhversstaðar verður að gera það. Á það að vera á þeim lið, sem jeg er að flytja, eða öðrum? Jeg vildi heldur taka þann lið aftur, ef það væri víst, að það væri eitt af því, sem minna væri um vert. Jeg ætla nú samt sem áður að láta það liggja nokkuð á milli hluta að dæma um það, hvað af þessu sje nauðsynlegast, hvað af því þolir einhverja bið og hvað af því væri með öllu óþarft; eitthvað af því væri það líklega, sem færðist á þann liðinn.

Jeg hefi brtt. á þessum kafla fjárl.; það er X. brtt. á þskj. 408, og er nýr liður um tillag til Húnavatnssýsluvegar, 15000 kr. Þessi vegur er árið 1907 talinn einn af þeim vegum, sem nauðsynlegt sje að leggja svo fljótt, sem nokkur tök eru á, og er það eftir till. þáv. landsverkfræðings. Eftir till. núv. vegamálastjóra, árið 1925, er einmitt þessi vegur talinn meðal þeirra, sem nauðsynlegt sje að leggja eins fljótt og hægt væri. Jeg hefi nú fyrir framan mig skýrslu, sem vegamálastjóri lagði þá fram, og jeg sje, að ýmsa af þeim vegum, sem hann þá telur nauðsynlegt að gera, er nú búið að leggja, en á meðal þessara vega er þetta einn af þeim fáu, sem enn eru látnir sitja á hakanum. En þar eru líka nefndir fleiri vegir, sem vegamálastjóri telur í 2. flokki, sem minni ástæða sje til að leggja heldur en þá, sem hann telur í 1. flokki. Suma af þessum 2. flokks vegum er nú verið að leggja og áætlaðar upphæðir til þeirra í fjárl. fyrir 1930, ekki óverulegar upphæðir, en ennþá er vegurinn í Húnavatnssýslu látinn bíða, eftir till. hæstv. stj. og eftir till. hv. fjvn. Að sjálfsögðu veit jeg, að það ber ekki að saka sjerstaka stj. eða sjerstaka fjvn. fyrir þetta, því að þær byggja sínar till. á till. vegamálastjóra, en nú hefi jeg ekki heyrt nein skynsamleg rök fyrir því, að þetta sje rjett. Jeg held, að jeg hafi við 2. umr. fjárl. tekið það fram, að mjer virtist eðlilegra að leggja þennan kafla Norðurlandsvegar, sem liggur um mitt hjerað, áður en farið er að leggja stórfje í ýmsa heiðarvegi, eins og t. d. veginn yfir Holtavörðuheiði, enda var hann árið 1925 talinn í 2. flokki. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þessi vegur þarna norður í Húnavatnssýslu kemur að meiri almennum notum heldur en vegurinn yfir Holtavörðuheiði, og því aðeins getur hann orðið að liði, að þegar norður fyrir kemur, þá sje líka sæmilegur vegur. Jeg held, að það hafi verið árið 1925, sem vegamálastjóri telur það mjög nauðsynlegt, að vegurinn frá Hrútafjarðará að Þóroddsstöðum verði lagður mjög bráðlega. En til þessa vegar í Húnavatnssýslu er ekkert áætlað í fjárl., og þó vita þeir hv. þdm., sem þarna hafa farið um í bifreiðum á þeim tímum árs, þegar ekki eru miklir örðugleikar á að fara eftir betur gerðum vegum, að á þessum kafla vegarins eru þær torfærur, sem ekki er hægt að komast yfir á bifreiðum, þótt báðum megin við sje gott bílfæri, og þótt jafnvel á Holtavörðuheiði sje ágætt á stórum köflum. Þetta hljóta allir að skilja, að er mjög óheppilegt. Hitt greinir vitanlega ekki á milli, að þennan veg á að leggja og því verki lokið 1932. Þess vegna held jeg, að ekkert vit væri í því að leggja niður lagningu þessa vegar sumarið 1930. Þeir menn sem vinna árlega að vegabótum og heima eiga í sýslunni, mundu síður hverfa á braut í atvinnuleit, ef haldið væri áfram með veginn, enda eðlilegra, að þeir fái atvinnu í sinni eigin sýslu í staðinn fyrir að hrekja þá suður í Borgarfjörð eða norður í Skagafjörð, og ekki síst þar sem um þann veg er að ræða, sem allir eru sammála um, að hljóti að verða lagður á næstu árum.

Auk þess vildi jeg benda á, að jeg tel óhyggilegt að miða við, að öll vegagerð á Holtavörðuheiði verði framkvæmd sunnanverðu frá, eins og mjer hefir skilist, að vegamálastjóri muni ætlast til. Norðan á heiðinni eru stór gil, sem þarfnast allmikillar viðgerðar hið bráðasta. En þá tel jeg vegagerðinni sje sæmilega ráðið, ef unnið er með það fyrir augum, að sem flestir hafi góð not af því, sem gert er. Jeg veit, að um það verður ekki deilt, að stórfje hlýtur að verða lagt í þennan veg á næstu árum. En að því finn jeg, að framkvæmdunum verði hagað þann veg, að vegurinn komi ekki að tilætluðum notum jafnóðum og hann er lagður. Þetta er sá kafli norðurvegarins, sem telja má illfæran, og á meðan ekki er við hann gert, koma þeir kaflar, sem annarsstaðar hafa verið lagðir, ekki þeim að notum, sem ferðast þurfa um þvera sýsluna.

Annar kafli, sem líka er slæmur, en þó slarkfær, er frá Múlavegi í Auðunnarstaðaháls. Og þriðji kaflinn, sem oft er örðugur yfirferðar í vætutíð, er um Víðidalinn. Þessa kafli, sem talað er sjerstaklega um í vegalögunum frá 1907 að nauðsynlegt sje að gera við, og ítrekað aftur 1925, hefir þó verið látinn óhreyfður síðan 1997 og ekkert við hann gert, að undirteknu því, að Gljúfurá hefir verið brúuð og vegurinn lítilsháttar ruddur frá brúnni. Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna Alþingi er að gefa út áætlanir um verklegar framkvæmdir, sem svo eru að engu hafðar, þegar til kastanna kemur.

Það mun engum blandast hugur um, sem um þennan veg hefir farið, að það er alllangur kafli, sem taka verður til nýbyggingar, eða frá Gljúfurá og vestur fyrir Enniskot. Að öðru leyti má notast við mela annarsstaðar í Víðidalnum, og er ekki nema sjálfsagt að láta slíka kafla bíða á meðan gert er við aðalfarartálmana, sem nú eru. Enda fer jeg ekki fram á, að teknir sjeu aðrir en allra verstu kaflarnir, sem gera það ómögulegt, að hægt sje að halda áfram norður, þegar góða veginum á Holtavörðuheiði sleppir. Við höfum ekkert að gera með það fólk, sem ekið hefir í bifreiðum sunnan yfir Holtavörðuheiði, ef svo verður að flytja það á hestum yfir þvera sýsluna.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja um þetta frekar, en ef ekki er talið fært að auka útgjöld ríkissjóðs vegna þessarar bráðnauðsynlegu viðgerðar Norðurlandsvegarins, þá er ekki annað fyr til vega, annaðhvort á Holtavörðuheiði eða þá annarsstaðar. Að ætla 70 þús. kr. í Holtavörðuveginn mun stafa af því, að vegamálastjóri telur hann nauðsynlegt samband við Norðurland. En þó að svo sje, þá kynni jeg þó betur við, að eitthvað væri dregið úr fjárframlagi til Holtavörðuheiðarvegarins, í stað þess að hirða ekkert um að gera bygðarvegina færa. Það er þegar búið að taka fram, að áætlað er að verja allmiklu fje til vegar norðan Holtavörðuheiðar, sem liggja á út á Borðeyri. Ef nauðsynlegt þykir að leggja þann veg, þá veit jeg satt best að segja ekki, hvaða rök lægju á bak við það, að engin þörf væri á vegi um Staðarhrepp hinum megin Hrútafjarðar. Því hvaða þýðingu hefir Borðeyrarvegurinn fyrir samgöngur norður um land? Ekki nokkra, eins og allir kunnugir menn geta best borið um.

Jeg held jeg láti þá nægja þetta, sem jeg hefi nú sagt, og læt þá hv. þdm. eftir að dæma um, hvort þessi vegagerð, sem brtt. mín ætlast til að unnin sje, eigi rjett á sjer eða ekki. Ef svo skyldi dæmast, að brtt. mín eigi engan rjett á sjer, þá veit jeg ekki, hvað margar brtt. á þessu þskj. ættu rjett á sjer til þess að ná samþ. hv. deildar. Annars mundi jeg kannske taka brtt. mína aftur og láta hana ekki koma til atkv., ef jeg sæi, að aðrir tækju aftur þær brtt., sem eru órjettmætari, eða öllu heldur rjettlausar með öllu.