26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

16. mál, fjárlög 1930

Einar Jónsson:

Þegar leg kvaddi mjer hljóðs í dag og gerði grein fyrir brtt. okkar Rangæinganna um styrk til dragferju á Hólsá, þá var aðeins helmingur þdm. viðstaddur. Jeg sje, að þeir eru að vísu fleiri nú, þó að mikið skorti á, að öll sæti sjeu fullskipuð. En af því að jeg er ekki viss um nema allir þeir sömu sjeu viðstaddir nú, ætla jeg ekki að endurtaka það, sem jeg sagði í dag, heldur bæta aðeins litlu við til árjettingar.

Eins og jeg tók fram í dag, þá er stór nauðsyn á því að fá nýja dragferju á Hólsá, og það er hjartans áhugamál þeirra manna, sem hennar munu njóta, að hv. þdm. styðji að því. Jeg vil þá um leið minna á, að þó að það sje ekki mikið, sem drýpur í fjárhirslu ríkisins úr Rangárvallasýslu, þá munu þó engar sýslur hafa við aðra eins erfiðleika að stríða af völdum náttúrunnar eins og hún. Sandfok, eldgos og jarðskjálftar hafa veitt henni þungar búsifjar, auk þess sem ýmsar ár og jökulvötn hafa lagt fögur landflæmi í auðn og aur, en jafnhliða eru árnar sumar versti farartálminn í samgöngum hjeraðsbúa. Allir, sem nokkuð þekkja til, eru sammála um, að skipaferðir með suðurströndinni komi Rangárvallasýslu ekki að neinu gagni. Fje það, sem Alþingi veitir árlega til strandferða, fer því fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, sem í Rangárvallasýslu búa. Samgönguleysið kreppir því alstaðar að, en þó eru þeir verst farnir, sem eru innikróaðir af ófærum sundvötnum á alla vegu og geta ekki frá heimilum sínum komist án þess að heim sje hjálpað.

Máske álíta sumir hv. þm., að þar sem ekki er um stærri unnhæð að ræða, þá mundu hlutaðeigendur einfærir um að kosta dragferjuna. En mjer er kunnugt um, að þeir eru ekki þann veg efnum búnir, að ætlast megi til, að þeir geti af sjálfsdáðum lagt í þennan kostnað einir.

Í þessu sambandi mætti minna á, að komið hefir til Alþingis krafa um brú á Þverá hjá Hemlu, og hún aðallega borin fram af þeim mönnum, sem mesta þörf hafa dragferjunnar. Áætlað er, að sú brú muni aldrei kosta undir 70–80 þús. kr. En jeg skal líka taka það fram, að jeg hefi ekki verið sammála hjeraðsbúum mínum um þessa kröfu og því ekki gert annað en að koma fram með erindi um dragferju í stað brúargerðar á þessum stað. Ef nú þessi litli styrkur yrði veittur viðkomandi mönnum til hjálpar, svo að ný dragferja komist á Hólsá, þá er að nokkru leyti bætt úr samgönguörðugleikum þeim, sem nú eru, og þá má einnig líta svo á, að þessar 7500 kr. komi í staðinn fyrir þær 70 –80 þús. kr., sem brúin á Þverá mundi kosta.

Eins og jeg tók fram í dag, þá var það vegna andstöðu hv. fjvn., að við flm. fórum dálítið aðra leið en vegamálastjóri hafði lagt til. Hans álit var, að hjeraðið ætti aðeins að bera kostnaðar, en vegna álits hv. fjvn. tókum við það ráð að helminga upphæðina, og því hljóðar brtt. um 7500 kr. styrk úr ríkissjóði.

Jeg ætla í þetta sinn að fylgja venju minni að vera ekki langorður, enda er leiðinlegt að flytja ræðu fyrir auðum stólum hv. þdm. Jeg mun því láta máli mínu lokið nú, en vænti, að hv. þdm. sjeu svo sanngjarnir, að þeir synji ekki hjeraðsbúum um þessa litlu upphæð, en telji sjálfsagt að hjálpa þessum mönnum, sem eru svo innikreptir af vötnum, að þeir komast ekki ferða sinna. Þar með er jeg ekki að segja, að þingið eigi að taka til greina allar þær kröfur, sem kunna að koma úr Rangárvallasýslu. En eins og jeg tók fram áðan, er Rangárvallasýsla ver sett en nokkurt annað sýslufjelag í landinu. (LH: Og Vestur-Skaftafellssýsla). Já, þar er líkt ástatt, jökulvötn og eyðisandar, sem margskonar farartálma valda.

Jeg sje, að hv. form. fjvn. (ÞorlJ) brosir. Hann vill kannske draga í efa, að jeg hafi lýst rjettilega nauðsyn þessa máls, en hann ætti þó frá fyrri ferðum sínum að reka minni til þeirra samgönguerfiðleika, sem Rangæingar hafa við að stríða.

Fyrir mitt leyti er jeg ekki feiminn við að láta menn sjá, að jeg greiði óhikað atkv. með öllu því, sem til samgöngubóta miðar, svo sem vegum, brúum og vitum, en hinsvegar er mjer miður vel við alla bitlinga til sjerstakra einstaklinga og mun halda minni venju án þess að blikna eða blána og greiða atkv. móti öllu slíku fargani.