26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

16. mál, fjárlög 1930

Þorleifur Jónsson:

Jeg á eina brtt. við þennan fyrri kafla fjárl., sem jeg vildi fara nokkrum orðum um, og er það XII. brtt. á þskj. 408.

Á þingmálafundum, sem haldnir voru í kjördæmi mínu áður en jeg lagði af stað til þings, komu fram áskoranir til Alþingis um að veita nokkurt fje til framlengingar þjóðveginum í Suðursveit og til þess að endurbæta veginn yfir Almannaskarð, svo að hann verði fær bifreiðum. Jeg sá mjer að vísu ekki fært að koma þessari till. fram í fjvn., af því að jeg vissi hug hennar í vegamálum, að hún vildi ekki leggja til, að meira fje yrði varið til vegagerðar en því, sem stóð í frv. stj., enda er það með mesta móti í þetta sinn. En þegar jeg sá við 2. umr., að hv. þdm. voru óhikaðir að smeygja inn í frv. nýjum till. um fjárframlög til vegagerða og fengu þær samþ., þá þóttist jeg ekki geta setið hjá með öllu, en verða að bera fram óskir míns kjördæmis um ofurlitla upphæð til vegagerðar, og því fremur fanst mjer, að jeg mætti ekki undan fella að gera tilraun um þetta, þar sem frv. ber með sjer, að í því er ekki ætlað neitt til vegagerðar í Austur-Skaftafellssýslu, enda lít jeg svo á, að hún eigi engu síður rjett til framlags úr ríkissjóði til framkvæmda heldur en aðrar sýslur landsins.

Jeg ætla þá að byrja með að gera dálitla grein fyrir Suðursveitarveginum. Hann var lagður fyrir allmörgum árum og liggur frá Kálfafellsstað að Smyrlabjörgum, en þar sem hann endaði að austanverðu taka við vatnaleirur, sem voru vel slarkandi þangað til í fyrra sumar, að stóráin Kolgríma breytti farvegi sínum og fjell yfir þessar leirur, svo að þær urðu með öllu ófærar. Nú verður því að fara annan veg, eða öllu heldur vegleysur, langt upp með ánni, til þess að komast á betri vöð, sem þar eru. Á þessum kafla eru blautlend mýrarsund, ófær vögnum og til mikils trafala annari umferð, þó að hægt sje að slarka það lausríðandi eða með ljetting á hestum. Sem sagt er þarna fullkominn óvegur og því bráð þörf að gera upphlaðinn veg á þessum kafla. Jeg skal að vísu játa, að jeg er ekki viss um, þó að upphæðinni sje skift til helminga, að þessar 5000 kr. nægi til framlengingar Suðursveitarveginum á þeim kafla, sem um er rætt. Því miður liggja engar upplýsingar eða áætlanir fyrir um það, hvað vegagerð þessi muni kosta. En vegamálastjóri hefir skýrt mjer frá, að hann hafi beðið vegavinnustjóra þar eystra að athuga þessa torfæru ásamt ýmsu fleiru og gefa skýrslu þar um. Jeg hefi verið að bíða, í von um að skýrsla þessi kæmi, en hún er ókomin enn, og fanst mjer þá, að jeg ekki geta beðið lengur með að koma þessari málaleitan á framfæri, enda er ekki neinum blöðum um það að fletta, að bráð nauðsyn er til að fá þennan vegarspotta gerðan. Jeg hafði farið þess á leit við vegamálastjóra, að hann veitti nokkurt fje af upphæð þeirri, sem ætluð er til þjóðvega á þessu ári, og að því yrði varið til umbóta þjóðveginum í A.-Skaftafellssýslu, en hann gat ekki gefið mjer neina fulla vissu um, að það væri hægt að svo stöddu. En ef stj. sæi sjer fært að bæta þennan veg af því fje, sem ætlað er til viðhalds þjóðvega, kæmi það auðvitað í sama stað niður.

Þá vil jeg geta þess, að á þessari stórá, Kolgrímu, er ágætt brúarstæði, þar sem hún fellur í gljúfrum uppi undir fjöllunum, og mundi sú brú verða mjög ódýr. Vegamálastjóri hefir athugað þetta brúarstæði fyrir nokkrum árum, án þess þó að framkvæma verulegar mælingar, en eftir því, sem hann hafði þá skrifað niður sjer til minnis, viðurkennir hann nú, að brúin hljóti að verða tiltölulega ódýr. En hann hefir lofað að láta rannsaka þetta við fyrsta tækifæri.

Annars þykir mjer rjett að benda á, að ef vegur þessi verður gerður og Kolgríma brúuð, þá er líklegt, að það greiði svo fyrir samgöngum milli Mýra og Suðursveitar, að komast megi í bifreiðum alla leið vestur í Suðursveit, með því þó að ferja yfir allvatnsmikinn ós, sem er á leiðinni. Hjer er því ekki um neitt hjegómamál að ræða, heldur um nauðsynjamál, sem er áríðandi fyrir hjeraðið í heild. Og ef hægt væri að fá bílfæran veg frá Höfn vestur í Suðursveit með tiltölulega litlum kostnaði, er það ómetanlegt framfaramál fyrir þær sveitir, sem nú hafa við erfiðar og ófullnægjandi samgöngur að búa.

Um Almannaskarðsveginn er það að segja, að hjeraðsbúar leggja mikið kapp á, að hann sje gerður bílfær, ef unt er. Skarðið sjálft er ekki sjerlega hátt, rúml. 500 fet yfir sjávarmál, en efst í því er brekka, sem talsvert þyrfti að gera við, svo að hún yrði bílfær. Þó telja fróðir menn, að takast muni að gera það. Og ef þær vonir hjeraðsbúa rætast, að bifreiðavegur komist yfir Almannaskarð, þá mætti komast í bifreiðum alla leið vestan frá Hornafjarðarfljóti og austur að Jökulsá í Lóni með tiltölulega lítilli aðgerð á veginum í Lóni. En allir sjá, hvað það greiddi fyrir öllum samgöngum innan hjeraðs og ljetti af hinum erfiðu lestaferðum.

Í fyrra var veitt dálítil fjárhæð til þess að endurbæta Almannaskarðsveginn og voru þá lágfærð neðri sniðin, en brekkan efst er ákaflega brött og langsamlega ófær bifreiðum enn. Mun það vandaverk að koma bílvegi þar fyrir, svo að vel fari, og ekki á annara færi en verkfróðra manna að ákveða það, enda hefi jeg í því efni leitað til vegamálastjóra og hann heitið að senda þangað austur verkfræðing nú í sumar, til þess að athuga þetta betur. Það er eins með Almannaskarð og Suðursveitarveginn, að ef það álítst fært að gera þar bílfæran veg, þá er leitt, að það dragist til 1931, og hefi jeg miðað þessa litlu fjárhæð við það, að skarðið yrði lagað þegar á næsta sumri, 1930.

Eins og jeg hefi áður minst á, taldi jeg mjer skylt að bera till. fram um þessar vegabætur í A.-Skaftafellssýslu; bæði er, að hjer er um litla fjárhæð að ræða, málið nauðsynjamál fyrir hjeraðið og hefir eins mikinn rjett á sjer eins og flestar aðrar till., sem hv. þdm. hafa flutt við fjárl. Vil jeg þó engan veginn halda því fram, að flestar þær till. eigi ekki rjett á sjer, ef fjárhagur ríkissjóðs leyfir. Jeg vil um leið nota tækifærið og tjá hv. samgmn. þakkir mínar fyrir það, að hún hefir tekið till. mína til greina um bátaferðir innan sýslu, þótt hún treysti sjer ekki til að mæla með allri þeirri upphæð, sem jeg fór fram á. Í till. minni var gert ráð fyrir 3000 kr., en n. hefir fært það niður í 2500 kr. Jeg tel þennan styrk mjög til bóta, þó hann ekki sje hærri en þetta; sjerstaklega kemur hann hinum afskektustu sveitum, eins og öræfum, vel. Þessi hjeruð hafa lengi orðið útundan með samgöngubætur, og þó síst af því, að þeirra hafi ekki verið full þörf. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta að sinni, en vænti góðra undirtekta hv. dm. Þykist jeg ekki frekar þurfa að lýsa hinni knýjandi nauðsyn og aðkallandi þörf, sem liggur að baki þessarar till.