26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg þarf fyrir hönd fjvn. að lýsa afstöðu hennar til brtt. frá einstökum þm., en jeg mun þó reyna að vera eins stuttorður og föng eru á. Jeg geri ráð fyrir að þetta hlutskifti mitt verði fremur óvinsælt, en um það tjáir ekki að fást.

Afstaða n. til flestra þessara brtt. er í stuttu máli sú, að hún treystir sjer ekki til að mæla með þeim. Jeg mun nú taka till. í þeirri röð, sem þær eru á þskj., en mjer þykir leitt, að ekki eru allir hv. flm. við til að heyra mál mitt, en eins og nú stendur á, er hjer frekar fátt manna í deildinni.

Þá kem jeg fyrst að brtt. I. á þskj. 408. Um þessa brtt. er það að segja, að n. hefir enga skýringu fengið á því, hvaða sjerstök þörf lægi hjer að baki, og sá n. því tæplega ástæðu til að hraða útgáfu þessarar bókar svo mjög. Hinsvegar dettur n. alls ekki í hug að efast um fróðleiksgildi þessarar bókar. En það er svo margt, sem er gott og gagnlegt, en sem verður að bíða betri tíma. N. taldi og þessu verki mjög sæmilegur sómi sýndur með 1000 kr. veitingu árlega, og leggur því eindregið á móti því, að meira sje veitt í þetta skifti. Hv. þm. N.-Þ. mælti skörulega fyrir brtt., eins og hans er vandi, en þó gat jeg ekki sjeð, að rök þau, er hann færði fyrir henni, væru veigamikil. Hann talaði meðal annars um, að erfitt væri að geyma þessi smáhefti og að þau vildu týnast, en jeg vil benda honum á, að stóru heftin geta líka og engu síður týnst, og er þá meiri skaði skeður.

Þá koma tvær næstu brtt., II. og III. á þskj. 408. Þær ganga út á að styrkja nokkra hreppa til læknisvitjana, eins og þegar hefir verið gert að undanförnu við fjölda hreppa. N. bárust engar skýringar viðvíkjandi þessu atriði, og þóttist hún ekki nægilega kunnug aðstöðu þessara hreppa og öðrum málavöxtum til þess að geta tekið ákveðna afstöðu til brtt., og ljet hún því þetta óbundið af sinni hálfu.

En þess má geta í þessu sambandi, eins og hv. frsm. síðari till. tók fram, að ekki er samræmi milli brtt. og heildarútkomu þessa liðs. Tæpast munu þó hv. flm. ætlast til þess, að hinir umbeðnu styrkir sjeu dregnir af styrkveitingum til hinna hreppanna.

Þá kemur IV. brtt. á þskj. 408, frá hv. 1. þm. Árn., um að sjúklingar, sem fái styrk til að kaupa gervilimi, fái hann því aðeins, að þeir kaupi þá innanlands. Um þessa till. er sama að segja og hinar, að n. bárust engar skýringar henni viðvíkjandi, og n. taldi sig ekki nógu kunnuga því, hvort þessir menn gætu altaf í öllum tilfellum fengið gervilimina hjer á landi. Nú ef svo væri ekki, þá sýnist óneitanlega hart að neita þeim, sem ekki ættu annars úrkostar en að leita til útlanda, um styrk til kaupanna. Hv. flm. sagði, að altaf væri hægt að fá slíka gervilimi smíðaða hjer á landi. En mjer skilst þessi möguleiki sje þó bundinn aðeins við einn mann, og ef svo er, þá er þessi fullyrðing nokkuð hæpin, því altaf getur það komið fyrir, að maðurinn forfallist, og væru þá sjúklingar samkv. brtt. með öllu útilokaðir frá styrkveitingu. Þetta ákvæði væri því mjög óheppilegt, enda fanst n. það ekki í samræmi við þann tilgang, sem liggur að baki þessum styrkveitingum. Leit n. svo á, að meiningin væri að hjálpa sjúklingum með þessum styrkveitingum, en ekki það, að veita þessum manni einskonar atvinnuhjálp, og vill halda fast við þann skilning. Leggur hún því eindregið móti brtt.

Þá Koma nokkrar sviplíkar till. á þskj. 408, V., VI. og VII. liður. Alt eru þetta sjúkrastyrkir til einstakra manna, sem n. leggur eindregið á móti. Við síðustu umr. fjárlagafrv. komust inn í frv. nokkrir sjúkrastyrkir, þrátt fyrir ákveðin mótmæli n. N. hefir ekki breytt um skoðun í þessum efnum. Hún telur þessa leið öldungis ófæra og í mesta máta viðsjárvert að leggja út á hana. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að ríkið geti veitt hverjum manni hjálp og styrk í vanheilsu eða veikindum. En ef draga á merkjalínu milli þess, hvenær slíkt sje rjett og hvenær ekki, þá telur hún það með öllu ómögulegt. Og það er satt að segja ærið óviðfeldið að hlusta á þessar ræður hv. þm., þegar þeir eru að tala fyrir þessum till. sínum og lýsa hinum bágu aðstæðum og erfiðu veikindum og vanheilsu þeirra, sem um styrk sækja. Engum dettur að vísu í hug að neita því, að þessir menn sjeu þurfandi hjálparinnar, en á það ber að líta í því sambandi, að telja mætti upp tugi eða hundruð manna, sem eins illa eða jafnvel ver væru settir, og sem því hefðu sama rjett til hjálpar af hálfu hins opinbera og væru hennar síst ómaklegri. En með því að veita þessum fáu mönnum styrk er um leið gengið á rjett hinna vesalinganna mörgu, sem engan slíkan styrk fá. Jeg endurtek það því og ítreka, að n. telur þessa leið alveg ófæra og hefði reynt að taka út þá sjúkrastyrki, sem komust inn við 2. umr., ef hún hefði sjeð það líklegt til nokkurs árangurs. Væntir hún þess, að hv. Ed. mun kippa þessu í lag, því allir hljóta að skilja, að hjer er um hreina vandræðaráðstöfun að ræða hvað snertir að ríkið geti á þennan hátt hjálpað öllum sjúklingum á landinu. Jeg mun svo ekki fara nánar inn á þessar einstöku till., en læt nægja að tala alment um efnið. N. mælir eindregið á móti öllum þessum till., alveg án tillits til þess, hverjar ástæður liggja að baki hverrar einstakrar till. Ef líta ætti á þær sem sjerstakar, gætu slíkar styrkveitingar verið rjettlætanlegar út af fyrir sig, en eins og jeg hefi tekið fram, þá mætti tilfæra hundruð slíkra tilfella, sem engu síður ættu rjett til styrktar. En það er þessi braut, sem fjárveitingarvaldið gengur inn á með þessum styrkjum, sem n. telur viðsjála í mesta lagi. Annars mun stoða lítt að tala um þetta hjer eins og sakir standa, en n. leggur eindregið á móti þessum þrem liðum á þskj. 408, af þeim ástæðum, sem jeg hefi þegar gert grein fyrir.

Þá kem jeg að lið VIII. á þskj. 408. Er það brtt. frá hv. þm. Dal. o. fl. við 12. gr., um að veita tilteknum manni styrk til tannlækninganáms erlendis. Um þessa brtt. er það að segja, að n. legst algerlega á móti henni, með þeim rökstuðningi, að þessi maður ætti að heyra undir þann lið, sem veittur er til styrktar námsmönnum erlendis. Mjer skildist á hv. flm., að þessi maður gæti ekki komist undir þann lið, en það er mesti misskilningur. Enginn liður á undanfarandi fjárl. er hliðstæður þessum lið, c. við 14. gr., sem nú hefir verið settur inn og n. hefir lagt til að væri hækkaður úr 4 þúsund krónum upp í 8 þúsund krónur, eins og samþ. var við 2. umr. Með þessum viðbótarstyrk er ætlast til, að menn, sem nám stunda erlendis, gætu fengið hjálp til þess án þess að það sje bundið við nokkurt sjerstakt nám. N. var það reyndar ljóst, að þessi styrkur myndi ekki nægja til þess að veita þeim öllum styrk, sem um hann sæktu, en það er í hendi mentamálaráðsins að úthluta honum. Að þessi styrkur sje ekki einungis miðaður við háskólanám erlendis, frekar en annað nám, má sjá af því, hvernig þessi liður er orðaður. 14. gr. B. II. a. er „námsstyrkur til stúdenta í erlendum háskólum, 24 þús. kr.“ En c-liðurinn er „námsstyrkur samkvæmt ákvörðun mentamálaráðs, 8 þús. kr.“ Það er því ekki hægt að skilja þetta orðalag öðruvísi en að þessi maður, sem brtt. getur um, eigi kost á styrkveitingu af þessum lið, ef mentamálaráðið álítur hann þess maklegan. En um það atriði getur n. að sjálfsögðu ekkert sagt. Af þessum ástæðum mælir n. á móti þessum sjerstaka námsstyrk og telur eigi rjett að taka þennan mann út úr, fyrst á annað borð hefir verið horfið að því ráði að láta mentamálaráðið hafa með slíkar styrkveitingar að gera.

Þá er næst brtt. IX., við 13. gr., frá hv. þm. N.-Þ. o. fl. Er hjer farið fram á einskonar sjúkrastyrk eða uppbót til pósts nokkurs vegna langvarandi heilsubilunar, sem hann á að hafa hlotið af ofreynslu í póstferðum. Um þetta hefir verið rætt nokkuð áður hjer í deildinni, og þó styrksupphæðin hafi nú verið færð lítilsháttar niður, sje jeg ekki ástæðu til að eyða tíma í að tala um hana, en afstaða n. er enn sú sama og áður; hún leggur eindregið á móti þessari styrkveitingu.

Þá koma nokkrar till., sem eru í raun og veru svipaðs eðlis, sem sje tillög til vega, brúa og annara samgöngubóta á landi. Alls eru þessar till. sjö talsins, ef telja á dragferjurnar með. Samtals nema þessar till. útgjaldahækkun, sem nemur um 90 þús. kr. N. getur fyllilega viðurkent, að hjer sje um þarfa hluti að ræða, en bendir hinsvegar á, að í fjárlagafrv. eru nú áætlaðar fast að 1 milj. kr. til slíkra framkvæmda, og er það meiri upphæð en áður hefir verið veitt í þessu skyni. Hinsvegar vill n. benda á, að nú er svo komið, að horfurnar á því, að afgreiða fjárl. tekjuhallalaust, eru engan veginn góðar. Með hliðsjón af þessu taldi n. ófært að leggja til, að þessum framlögum væri enn bætt við. Ef svo væri gert, yrði eitthvað að gera til þess að auka tekjur ríkissjóðs að sama skapi. En n. hefir ekki sjeð sjer fært að gera neina tilraun í þá átt, og því hefir sú orðið niðurstaðan, að meiri hl. n. hefir orðið á einu máli um að leggja á móti þessum fjárveitingum. N. telur erfitt að gera upp á milli þessara till.; þær hafa allar meiri og minni rjett á sjer. Jeg vil nú minnast lítið eitt á hverja þeirra fyrir sig.

Fyrst er þá brtt. hv. þm. V.-Húnv. um fjárveitingu til Húnavatnssýsluvegarins. Jeg skal geta þess, að n. hefir borið allar þessar till. undir vegamálastjóra, og þar á meðal þessa till. Hann sagðist vitanlega ekki leggjast á móti þessu, og að það gleddi sig, ef þingið treysti sjer til að bæta við fjárframlögum í þessu skyni, en sjálfur kvaðst hann ekki hafa treyst sjer til að fara fram á meira fje að svo stöddu. Og að hans áliti á þessi till. ekki meiri rjett á sjer en aðrar till. sömu tegundar, nema því aðeins, að ríkið bæti enn við fjárframlagi til vegamála. (HJ: Þetta er þvert ofan í till. hans 1925). Þetta er a. m. k. samkv. till. hans 1928. Annars skildist mjer á hv. flm., að það væri dálítið vafasamt, hvort rjett væri að bæta þessari till. við, og að hitt hefði ef til vill verið heppilegra, að þessi fjárhæð væri dregin frá annarsstaðar, m. ö. o. að önnur vegabót væri látin sitja á hakanum í stað Húnavatnssýsluvegarins. Jeg skal nú ekki um þetta segja, og enda þótt sjálfsagt sje þörf á að bæta þennan veg, þá gat ræða hv. flm. ekki sannfært mig um það, að sú þörf væri mun brýnni þar en víða annarsstaðar. Það er t. d. mikið efamál, hvort rjettara er að fullgera veginn um alla Húnavatnssýslu, en láta veginn yfir Holtavörðuheiði bíða. Annars get jeg ekki sjeð, að Húnavatnssýsla þurfi að kvarta öðrum sýslum fremur. Jeg held, að hvergi á landinu hafi eins mikið verið gert í þessum efnum hin síðustu árin og einmitt þar. Brýr hafa verið bygðar á allar helstu ár sýslunnar og akfært er nú orðið um svo að segja endilanga sýsluna, enda gengu bílar síðastliðið sumar alla leið frá Borgarnesi til Blönduóss fastar áætlunarferðir, að jeg hygg langt fram á vetur. Enda kom það í ljós, að hv. þm. V.-Húnv. taldi líka þörf á að gera við veginn á Holtavörðuheiði, og ætla jeg ekki að deila við hann um þetta, því að jeg er ekki nógu kunnugur þarna til þess að geta sagt um, hvort það er nauðsynlegra að leggja þessar 70 þús. kr. í veginn á Holtavörðuheiði. Jeg vil aðeins benda á það, sem vegamálastjóri hefir látið um mælt, að reynt yrði að bæta úr augljósustu göllunum þarna sem annarsstaðar af viðhaldsfje þjóðveganna. Jeg er, eins og jeg tók fram áðan, ekki vel kunnugur í Húnavatnssýslu, en jeg hefi auðvitað tekið eftir því, að vegurinn austan Hrútafjarðar er ekki góður; en þegar jeg var þar síðast á ferð, þá var verið að vinna þar að viðgerðum á veginum og voru margir menn þar að verki. Dalsá, sem er mikill farartálmi, verður brúuð nú í sumar eða næsta sumar, eftir því sem vegamálastjóri hefir sagt, og má skoða það sem ákveðið loforð.

Þá vil jeg minnast á næstu brtt., sem er um 15 þús. kr. framlag til þess að leggja veg frá Þórshöfn inn Þistilfjörð. Hv. þm. N.-Þ. mælti skörulega fyrir henni, og dreg jeg það ekki í efa, að full þörf er á þessu. Og í sambandi við það vil jeg beina því til hv. þm. V.-Húnv., að þau hjeruð, sem enn hafa ekki fengið vegi svo teljandi sje, mega ekki víkja fyrir Húnavatnssýslu, sem sannarlega hefir ekki verið látin sitja á hakanum. Það væri ekki rjettlátt. (HJ: Hvenær má reiða sig á orð vegamálastjóra?). Jeg hefi ekki orðið annars var en að till. hans væru sæmilega sanngjarnar og jeg býst við, að áætlanir hans megi einnig telja sæmilega áreiðanlegar. Till. hans og áætlanir ber þó að sjálfsögðu frekar að skoða sem till. um, hvað honum sýnist heppilegast að leggja til í þessu efni heldur en sem ákveðna mælisnúru, sem sje ófrávíkjanleg. — Um Þistilfjarðarveginn er það að segja, að eftir upplýsingum vegamálastjóra verður Hafralónsá brúuð árið 1930 og lagður að brúarstæðinu nýr vegarspotti, frá Þórshöfn, sem er um 8 km. og sem þegar er byrjað á að gera akfæran. Ennfremur upplýsti vegamálastjóri, að þessi vegarspotti yrði gerður akfær fyrir viðhaldsfje, til þess að hægt yrði að koma efninu í brúna á sinn stað, og er það auðvitað til stórbóta fyrir hjeraðið. 1931 væri svo hugað að taka upp allverulega fjárveitingu til þess að halda áfram vegagerðinni. Með þetta fyrir augum finst n., að ástandið í þessum efnum sje sæmilega viðunandi í þessu hjeraði, og að það sje hægt að gera sjer það að góðu og láta þar við lenda, þó að ekki komi þessi fjárveiting í viðbót, þó það sje fyllilega játað, að hjeraðið hefir mikla þörf fyrir auknar samgöngubætur.

Næsta brtt. er frá hv. þm. A.-Sk., um að veita 10 þús. kr. til þjóðvegarins í Austur-Skaftafellssýslu. Jeg get látið sömu ummæli fylgja um hana, að þetta er efalaust mjög nauðsynlegt, en vegamálastjóri gerir ráð fyrir að láta vinna þar að vegabótum fyrir viðhaldsfje, og enn er ekki búið að rannsaka, hvað kostar vegagerð fyrirhuguð á Almannaskarði, en með þessum viðhaldsendurbótum verður áreiðanlega bætt úr mestu þörfinni.

Þá kemur till. frá hv. þm. Barð. um að hækka tillagið til brúargerða um 35 þús. kr., með það fyrir augum, að brúaðar verði tvær ár í Barðastrandarsýslu. N. hefir sjálfsagt ekkert á móti því fyrir sitt leyti, ef stj. þykir það rjett að þessar brýr verði bygðar, og vegamálastjóri hefir tjáð n., að hann legði til, að það yrði gert 1930. Svo er einnig varatill. frá sama hv. þm. um það, að í staðinn fyrir hækkunina komi aths. við liðinn, sem tryggi það, að þessar ár verði brúaðar af því fje. Hv. þm. skaut því til mín, hvort jeg gæti ekki svarað því ákveðið, hvort stj. mundi láta framkvæma þetta. En þó að n., eins og jeg áður sagði, leggi ekki á móti byggingu þessara brúa þegar það álítst sanngjarnt, get jeg vitanl. engu svarað fyrir hönd hæstv. stj. Enda eru nú orðaskifti þessa hv. þm. og hæstv. fors.- og atvmrh. venjulega það vinsamleg hjer í deildinni, að þeir ættu að geta skiftst á orðum um þetta án nokkurrar milligöngu frá minni hálfu.

Þá koma tvær brtt. dálítið nýstárlegar, sem eru um framlag til bygginga á dragferjum. Sú fyrri er um dragferju á Hólsá hjá Ártúnum í Rangárvallasýslu, og var nauðsynin mjög ítarlega skýrð af hv. 1. þm. Rang., og efast jeg ekkert um, að það sje rjett. Jeg vil þó benda á, að hjer er verið að fara inn á nýja braut, ef á að fara að styrkja allar dragferjur á sama hátt. Eftir því sem vegamálastjóri hefir upplýst, hafa að vísu einar þrjár dragferjur fengið undanfarið um 1 þús. kr. styrk hver, en eftir þessum till. á ríkissjóður að leggja fram helming kostnaðar við byggingu dragferjanna. Jeg skal þá í þessu sambandi geta þess, að það var ekki rjett hjá hv. flm. till., að þetta sje minna heldur en það, sem áður hefir verið veitt í samskonar tilfellum, heldur þvert á móti, og vísa jeg í því efni til þeirra upplýsinga, sem jeg gaf um slíka styrki áður. Þarna er því um alveg nýtt fyrirkomulag að ræða, og þó að n. viðurkenni fyllilega, að þarna sje um þarft verk að ræða, þá treystir hún sjer ekki til að mæla með þessu.

Næst kemur till. frá hv. þm. Árn. um framlag til umbóta á veginum upp Hrunamannahrepp, og er farið fram á helming kostnaðar. Fyrir n. lágu engar skýrslur um það, um hverskonar veg væri að ræða, hvort það væri þjóðvegur, sýsluvegur eða hreppavegur, en flm. till. upplýsti, að það mundi vera sýsluvegur. Hvort sem þetta var nú sýsluvegur eða hreppavegur, þá sá n. ekki ástæðu til þess að veita þessum hreppi styrk fremur en öðrum. Sje um sýsluveg að ræða, þá á hreppurinn aðgang að því að fá helming kostnaðar af því fje, sem veitt er til sýsluvega, og þó að það fje verði máske ekki fullnægjandi, sem vel má vera, þá getur hreppurinn þó altaf gert sjer vissa von um að fá þarna töluverðan styrk. N. taldi heppilegri leið að hækka tillagið til akfærra sýsluvega heldur en að taka einstaka hreppa út úr með beinan styrk úr ríkissjóði, því að þörfin er víða og margir mundu heldur kjósa að fá styrkinn beint til sín heldur en að verða að flýja á náðir sýsluvegasjóðanna. Þetta mundi þannig skapa fordæmi. Í framsöguræðunni gat hv. flm. till. þess, að þetta væri gert með tilliti til mjólkurflutninga, en n. gat ekki sjeð, að þeir hefðu nein forrjettindi umfram hverja aðra flutninga. N. leggur því á móti till., þar sem hún telur þetta ekki heppilega braut, og þó að upphæðin sje ekki sjerstaklega há, þá safnast þegar saman kemur, ef allir hreppar kæmu með samskonar kröfur.

Þá kemur till. frá hv. samgmn. um að hækka framlagið til bátaferða um 11500 kr., og getur n. fyrir sitt leyti stutt þá till.

Þá er næst XIX. brtt., frá hv. 1. þm. S.-M., um loftskeytastöð í Papey, endurtekin frá 2. umr. að öðru leyti en því, að tillagið er fært niður. Aðstaða n. er óbreytt frá því, sem þá var, og ætla jeg því ekki að fjölyrða um hana, þar sem ekki er um neitt nýtt að ræða nema þessa lækkun á framlaginu.

Þá kemur XX. brtt., frá hv. þm. N.-Ísf., við 13. gr., þess efnis, að setja aths. aftan við liðinn um nýjar símalagningar. N. hefir í nál. sínu skýrt greinilega frá aðstöðu sinni til nýrra símalagninga, og get jeg því vitnað til þess. Eins og hv. þdm. vita, þá hefir landssímastjóri gert till. um byggingu nýrra símalína 1930, og þó að n. sje að vísu ekki vel ánægð með þær að því leyti, að þar er lagt meira í eina línu heldur en n. telur rjett, þá komst hún að þeirri niðurstöðu, að láta þetta afskiftalaust. N. hefir ekki talið sig hafa aðstöðu til þess að leggja móti till. landssímastjóra um það, í hverri röð eigi að leggja línurnar, og vill því ekki mæla með þessari till., sem ruglar þeirri röð, en vísar til þess, sem landssímastjóri hefir lagt til og finna má í áliti n.

Þá er næst till. frá hv. sjútvn. um að veita 4 þús. kr. til þess að gefa út hafnsöguskrár með uppdráttum. Þetta er flutt eftir ósk vitamálastjóra, og hann hafði mæltst til þess, að fjvn. tæki það upp, en n. treysti sjer ekki til að verða við þeirri ósk, og þó að hv. sjútvn. beri nú fram þessa till., þá verður n. að vera sömu skoðunar og fyr, að þó að útgáfa þessarar bókar kunni að vera þarfleg, þá muni það ekki valda neinum óþægindum, að hún dragist eitthvað lengur. N. treystir sjer því ekki til að mæla með þessu.

Þá er næst till. frá hv. þm. N.-Ísf og hv. þm. Ísaf., um að veiða 14 þús. kr. sem þriðjungsgreiðslu til bryggjubyggingar í Hnífsdal í Eyrarhreppi.

Fyrir n. lá áætlun um þetta, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta muni kosta yfir 80 þús. kr., og var farið fram á að fá helming kostnaðar. N. sá sjer ekki fært að taka þetta upp, þar sem meðal annars er mjög vafasamt að hennar áliti, hvort hreppurinn reisir sjer ekki hurðarás um öxl með þessu, og hinsvegar fje af skornum skamti til þessara hluta. N. sá sjer því ekki fært að mæla með þessu, en vill þó ekki neita því, að hjer er um merkilegt mál að ræða. Hv. flm. till. talaði um það í ræðu sinni, að nú lægi við borð, að margir ungir menn færu burt úr þessu plássi vegna erfiðleika um sjósókn, en jeg er nú mjög í vafa um, að þetta mundi lækna þá hættu, sem þarna er á ferðinni.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. um 75 þús. kr. styrk til bryggjugerðar á Siglufirði, og til vara 60 þús. kr. Hv. flm. talaði skörulega fyrir þessu og taldi vafalaust, að það yrði samþ. Fyrir n. lá engin kostnaðaráætlun, teikning eða neitt slíkt, snertandi þessa bryggju eða hafnargerð, fyr en nú rjett fyrir umr.; þá kemur fram lausleg áætlun frá verkfræðingi hjer í Reykjavík, sem alls ekki stóð fyrir verkinu, heldur vann eitthvað að undirbúningi þess. Hann skýrir lauslega frá því, hvað sje gert ráð fyrir, að þessi mannvirki kosti. Þá lá heldur engin krafa fyrir n. um þetta, hvorki frá Siglfirðingum eða flm. þessarar brtt., fyr en brtt. kom fram. En eftir framkomu hennar athugaði n. þó þetta mál og jafnframt kröfur Siglfirðinga á hendur ríkissjóði í þessu hafnarmáli, og Komst að þeirri niðurstöðu, að í hafnarlögum Siglufjarðarkaupstaðar er aðeins gert ráð fyrir ábyrgð ríkissjóðs fyrir 125 þús. kr., en síðar er heitið láni, sem nemi sömu upphæð. En á þinginu í fyrra er svo Siglufjarðarkaupstað veitt ábyrgð fyrir 250 þús. Kr. til þess að koma máli þessu í framkvæmd. Mjer skilst því, að ríkissjóður hafi gert fullkomlega skyldu sína í þessum efnum. Að það sje ósamræmi gagnvart gerðum fyrri þinga, ef brtt. þessari verður hafnað, er alls ekki rjett, og því til sönnunar vil jeg benda á, að fyrir þinginu í fyrra lá beiðni frá Akureyrarbæ um 75 þús. kr. styrk til bryggju- og hafnargerðar þar, en þeirri beiðni var ekkert sint. Fengu Akureyringar þannig enga áheyrn hjá þinginu um hafnarmál sín. Enda ekki við því að búast, því þar sem jafngóð aðstaða er hvað hafnirnar snertir eins og þar og á Siglufirði, þá er það engin vandræðaráðstöfun að leggja fram fje til bryggjugerða, svo framarlega, sem það er fáanlegt með viðunandi kjörum, og sem ríkið hefir fyllilega stutt með ábyrgð sinni í þessu tilfelli. Jeg held því, að Siglfirðingum sje síst ofvaxið að bera kostnaðinn við þessa bryggjugerð, þar sem líka hún er ekki talin munu kosta nema 350 þús. kr. ásamt vegagerð og byggingum í landi, sem eru áætlaðar 48 þús. kr. Er í þessari upphæð innifalin dýpkun á höfninni, sem eigi er unt að gera sjer grein fyrir, hve mikið kostar af yfirliti verkfræðingsins. Til sönnunar því, að Siglfirðingum sje þetta í raun og veru alls ekki ofvaxið, vil jeg benda á, að síldareinkasalan ein hefir greitt í hafnar- og bryggjugjöld síðastl. ár fyrir útflutning frá Siglufirði fullar 16 þús. kr., og eru gjöldin þannig: 10 aurar fyrir hverja tn. af saltaðri síld og 25 aurar fyrir hverja tn. að kyddsíld og sykursaltaðri síld. Til samanburðar má geta þess, að á Akureyri er þetta gjald ekki nema 5 aurar á hverja tn. síldar, eða helmingi lægra á hverja tn. saltsíldar og 5 sinnum lægra á hverja tn. kryddsíldar en á Siglufirði. Og af tómum tn. er 5 aura gjald af hverri tunnu á Siglufirði, en 2 aurar á Akureyri. Alls hefir einkasalan greitt í hafnar- og bryggjugjöld á Siglufirði yfir 20 þús. kr. síðastl. ár, og sá eini tekjuliður hafnarsjóðs nægir til þess að greiða 6% vexti af þeim kostnaði, sem áætlaður er til þeirra hafnarmannvirkja allra, sem hjer er um að ræða, ásamt húsum og vegi þar að. Þetta sýnir ljóslega, að ekki getur verið örðugt fyrir kaupstaðinn að standa straum af þessum mannvirkjum, þar sem hann hefir til þess fengið hagkvæm lán.

Hv. 2. þm. Eyf. gat þess, að engin höfn á landinu væri jafnmikið notuð eins og höfnin á Siglufirði, og því bæri frekar að láta hana fá styrk af ríkisfje. Þetta verður að teljast alveg öfug röksemd hjá hv. þm., því að hin mikla notkun hafnarinnar bendir einmitt til þess, að hún gefi miklar tekjur í hafnargjöldum o. fl. og eigi þar af leiðandi auðveldara með að standa straum af útgjöldum sínum styrklaust. Mjer virðist því, að þessi till. fjvn., að leggja á móti styrkbeiðni þessari, sje fyllilega sanngjörn, miðað við hvernig tekið hefir verið öðrum samskonar styrkbeiðnum, t. d. frá Akureyrarbæ í fyrra.

Þá er till. um lendingarbætur í Arnardal í Skutulsfirði, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar, eða 1200 kr. Um þessa till. er hið sama að segja og þá síðustu, að fyrir n. lágu hvorki uppdrættir eða áætlanir um þetta mannvirki. En nú undir umr. hefir flm. till. þessarar sýnt mjer uppdrátt af því. N. var einhuga um, að sjálfsagt væri að krefjast þess, að áætlanir lægju ávalt fyrir um kostnað við slík mannvirki sem þessi, gerðar af skrifstofu hafnargerðanna. áður en fje er veitt til þeirra, og á þeim grundvelli lagði hún á móti till. En þar sem áætlanir þessar eru nú komnar, get jeg ekki sagt um afstöðu einstakra nm. til hennar. Alveg hin sama ástæða lá til grundvallar fyrir n., þegar hún lagði á móti till. um fjárveitingu til lendingarbóta í Flatey. Áætlanir um verkið lágu engar fyrir n., og enda þótt flm. till. skýrði hana, þá er alls ekki ljóst, hvernig málið liggur fyrir. Verð jeg því fyrir hönd n. að leggja á móti till. þessari.

Þá er síðasta till., um 15 þús. kr. fjárveitingu til brimbrjótsins í Bolungarvík. Eins og það mál liggur fyrir nú, get jeg lýst því yfir fyrir hönd n., að hún leggur mjög eindregið á móti till. þessari. Fyrst og fremst fyrir þá sök, að hlutaðeigandi hreppsbúar treysta sjer ekki til að leggja fram meira fje en á móti þeirri fjárveitingu til þessa mannvirkis, sem er í núgildandi fjárl. Sömuleiðis tók hv. flm. till. þessarar það fram, að ágreiningur væri á milli vitamálastjóra og hlutaðeigandi manna þar vestra um það, hvernig verki þessu skyldi hagað. Og þó nú ekki væri annað en það, þá telur n. alls ekki forsvaranlegt, að ríkið leggi fram fje til þessa verks, meðan svo er ástatt, því eins og kunnugt er, hefir mál þetta legið fyrir mörgum þingum, og altaf hefir það kveðið við, að þá væri um síðustu fjárveitingu til verksins að ræða. Og þingið hefir jafnan gert sjer vonir um, að svo kynni að verða, en þær vonir hafa altaf brugðist og altaf hafa komið fram árlega nýjar og nýjar kröfur um fjárveiting til verksins, af því það, sem gert hefir verið, hefir ónýtst og eyðilagst meira og minna jafnharðan. Og altaf hafa þeir kent hvor öðrum um, vitamálastjóri og hlutaðeigendur. Hver eða hverjir hjer eiga sök á mistökunum, vildi jeg ekki dæma um, en það er víst, að alveg verður að teljast óforsvaranlegt að veita meira fje til verksins, meðan ekki er fengin full vissa fyrir því, að það komi að tilætluðum notum. En fyrir því virðast víst engar líkur að svo komnu, því að eftir því, sem jeg skildi hv. flm. till., þá er ennþá hver höndin upp á móti annari hvað verk þetta snertir.

Þá eru till. ekki fleiri, og læt jeg því við þetta sitja að sinni.