26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Út af ummælum hv. þm. N.-Þ. um ferðir Eyjafjarðarbáts vil jeg taka það fram, að öll n. vildi leggja áherslu á það, að báturinn kæmi að sem bestum notum, og mjer er óhætt að fullyrða, að n. muni leggja til, að hann hafi eins marga viðkomustaði á leiðinni austur á Þórshöfn og unt er. Vona jeg, að hæstv. stj. taki þetta til greina, er hún semur við útgerð bátsins. Næsta ár ætlast n. til, að báturinn fari 6 ferðir austur frá maí til október, eða eina ferð á mánuði, og eftir orðum hv. þm. N.-Þ. að dæma er þetta í samræmi við óskir hans. N. vill haga viðkomustöðum eins og best þykir henta.

Þá vil jeg víkja lítið eitt að því, er hv. frsm. sagði um mínar till. Jeg flutti enga brtt. við 2. umr. fjárl., og hefi jeg áður skýrt frá ástæðunum til þess. Meiri hl. fjvn. leggur á móti aths. aftan við liðinn um nýlagningu síma. Mjer finst þetta einkennilegt, því að hlutaðeigandi hreppar hafa loforð um símalínu í símalögunum allan tímann frá 1913, og hafa því beðið nógu lengi eftir henni og beðið nóg tjón af þeim drætti, sem orðið hefir. Vona jeg, að hv. deild líti á þetta öðrum augum en hv. fjvn. Því fremur sem landssímastjóri hefir skriflega lofað, að þessi lína yrði lögð næst eftir Barðastrandarsýslusíma.

Viðvíkjandi fjárveitingu til bryggju í Hnífsdal vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði hjer áður, að vegna þeirra örðugleika, sem steðja að mönnum sökum lendingarleysisins, er hætt við, að menn vilji ekki binda framtíð sína við þetta þorp, ef ekki verður bót á því ráðin. Jeg skal reyna að gera mönnum dálítið ljóst með tölum, hvernig ástandið er og hvílíkt tjón leiðir af bryggjuleysinu. Ef gert er ráð fyrir, að 15 bátar með 6 mönnum hver fari 160 sjóferðir á ári, og 3–5 tíma taki að skipa fiskinum upp, eins og nú er, þegar sæmilega fiskast, en 2 tíma eftir að bryggja væri komin, og hver klukkustund er reiknuð á 80 aura, þá sjest, að tapið, sem af bryggjuleysinu leiðir, nemur meira en 20 þús. kr. á ári.

Jeg held, að enginn, sem þekkir til Hnífsdælinga, muni efast um, að þeir standi við skuldbindingar sínar. Að því hlýtur að koma fyr eða síðar, að þessi bryggja verði bygð, ef þetta þorp á ekki að leggjast í eyði, en það myndi öllum, sem til þekkja, þykja illa farið, einkum ef svo færi vegna þess, að ríkissjóður hefði ekki viljað leggja fram 1/3 til bryggjugerðar. Þörfin á slíkum framkvæmdum er ekki meiri annarsstaðar.

Um lendingarbótina í Arnardal er það að segja, að það er rjett, að gögn um hana lágu ekki fyrir n. Jeg fjekk ekki plögg frá vitamálastjóra fyr en í fyrrakveld, en vona, að hægt verði fyrir fjvn. að athuga málið áður en atkvgr. fer fram, þar sem jeg nú hefi afhent henni áætlun og teikningu.

Það var margt rjett hjá hv. frsm., sem hann sagði um brimbrjótinn í Bolungarvík. Það hefir oft verið ágreiningur á milli hjeraðsbúa og vitamálastjóra. Mín till. er sú, að farið verði eftir till. vitamálastjóra í þetta sinn. Vel má vera, að hreppsbúar vilji ekki eða geti ekki lagt fram þær 15 þús. kr., sem áskildar eru í till., en þá fellur skylda ríkissjóðs til framlags að sjálfsögðu niður.