26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg tel þörf þess að svara einu atriði í síðustu ræðu hv. þm. Dal. Hv. þm. skýrði svo frá, að mentamálaráðið teldi sjer skylt að verja því fje, sem því nú er fengið til umráða, þeim námsmönnum til styrktar, sem komust inn í fjárl. á síðasta þingi. Jeg vil mótmæla því ákveðið og harðlega, að mentamálaráðið hafi af þingsins hálfu nokkra átyllu til að telja sig bundið við styrkveitingu til þessara manna. Því til sönnunar vil jeg leyfa mjer að lesa upp þau ummæli, er jeg ljet falla fyrir hönd fjvn. á síðasta þingi, þegar námsstyrkir þessir voru til umr. Jeg lýsti þar yfir skilningi n. á þessu atriði og æskti jafnframt álits stj. um það, svo að viðkomandi menn þyrftu ekki að vera í vafa um, að hverju þeir gengju. Ummæli mín voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Styrki til háskólanáms stúdenta og utanfara skoðar n. sem fjárveiting í eitt skifti fyrir öll og lítur svo á, að með því sje ekkert fyrirheit gefið um framhaldandi styrk. Mjér þætti vænt um, að hæstv. stjórn vildi lýsa yfir skoðun sinni á þessu atriði. Það er nauðsynlegt hlutaðeigendum að vita, hvers þeir mega vænta í þessu efni í framtíðinni. Sjerstakir styrkir til utanfara eru um 15 að tölu, svo að mjer sýnist þetta í óefni komið, þar sem ákveðin upphæð er í fjárlögum til þessara hluta, sem veitt er eftir ákveðnum reglum“.

Þessu svaraði hæstv. forsrh. (TrÞ) svo sem hjer segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg get að öllu leyti tekið undir það, sem hv. frsm. fjvn. (IngB) hefir sagt, og jeg er sammála þeirri till., er hann bar fram af hálfu fjvn. um að samþ. frv. óbreytt. Hv. frsm. beindi þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort hún fyrir sitt leyti væri ekki sammála þeirri skoðun fjvn., að námsstyrkina bæri að skoða sem veiting í eitt skifti fyrir öll, en ekki neitt loforð fyrir framtíðina fyrir þessa námsmenn. Stjórnin hefir ekki átt tal um þetta atriði sjerstaklega, en jeg þori að segja, að stjórnin lítur eins á það og hv. fjvn. Enda hefir verið litið svo á slíkt fyr, sem sjest á því, að á síðasta þingi voru samþ. námsstyrkir, sem ekki voru teknir upp í fjárlagafrv. í ár“.

Þessi ummæli virðast mjer svo tvímælalaus, að enginn, sem þau les, þurfi að vera í vafa um, hvað í þeim felst. Þau sýna fullgreinilega, að mentamálaráðið hefir alveg óbundnar hendur um styrkveitingu til þeirra námsmanna, sem stóðu í fjárl. í fyrra.

Af því að hv. þm. Dal. er ekki viðstaddur, læt jeg útrætt um þetta mál, en skal því næst lítillega svara öðru, sem til n. hefir verið beint.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði hóflega í garð n„ en þó vil jeg gefa nokkrar skýringar viðvíkjandi ræðu hans. Honum þótti hart, að n. skyldi leggjast móti aths. um símalínurnar. Jeg vil taka það fram, að það er ekki alveg rjett skilið, að n. sje á móti þessari símalínu. Hún vill bara ekki taka fram fyrir hendurnar á landssímastjóra. (JAJ: Hann er ekki á móti línunni). Því síður var ástæða fyrir n. að ganga inn á verksvið hans í þessu máli.

Um Siglufjarðarbryggjuna þýðir eigi að ræða frekar. Jeg hefi eigi sannfærst af rökum hv. 2. þm. Eyf. nje get viðurkent það rjett vera, sem hann sagði um ósamræmi í gerðum Alþingis í þessu tilfelli og öðrum. Jeg hefi áður tekið það fram, að afstaða n. er í fullu samræmi við þá afstöðu, sem þingið tók gagnvart Akureyri í fyrra. Í afstöðu þingsins til Jafnarfjarðar er heldur snemt að vitna ennþá, meðan hún er ekki fullráðin. Jeg get lýst yfir því fyrir mitt leyti, að jeg mun eigi greiða atkv. með frv. því um hafnargerð í Hafnarfirði, sem nú liggur fyrir þessari hv. deild. Samanburður hv. þm. að öðru leyti getur heldur ekki staðist. En jeg hygg, að Akureyri og Siglufjörður sjeu vel sambærilegir staðir.

Hæstv. fjmrh. vil jeg tjá þakkir að svo miklu leyti sem hann vildi styðja viðleitni n. í varúðarfullri afgreiðslu fjárl. En ekki get jeg látið þess ógetið, að mjer þótti skjóta nokkuð skökku við. er hann í lok ræðu sinnar hvatti deildina til að samþ. þá brtt., sem fer fram á mesta hækkun á gjöldum ríkissjóðsins!