26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Af því að hv. þm. Dal. er ekki viðstaddur, vil jeg lýsa yfir því, að það er rjett eftir haft, að mentamálaráðið telji sig bundið þeim námsmönnum, sem utanfararstyrk fengu í fjárl. í fyrra. Það telur sjer skylt að sjá svo um, að þessir menn fái styrk lengur en eitt ár. Og sjálfum sýnist mjer alveg ótækt að styrkja menn til náms aðeins eitt ár, en kippa síðan að sjer hendinni. (IngB: Því var lýst yfir í byrjun, að styrkurinn gilti aðeins eitt ár). Það er samt sem áður alveg meiningarlaust að ginna menn út á námsbrautina og skilja þá svo eftir á miðri leið. Jeg held því, að mentamálaráðið geri siðferðislega rjett í því að veita þessum mönnum styrk áfram. Og jeg skil ekki í öðru en að hv. fjvn. muni sjá sig knúða til að viðurkenna það.