26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

16. mál, fjárlög 1930

Bernharð Stefánsson:

Jeg á tvær brtt. við síðari kafla fjárl., sem báðar fjalla um lítilfjörlega námsstyrki. Jeg skal fyrst nefna XXIX. till. á þskj. 408, um 1600 kr. til Jóhanns Sveinssonar frá Flögu, til háskólanáms í uppeldisfræðum. Jeg þarf ekki að tala mikið um þetta, af því að Alþingi hefir áður sýnt, að það telur þennan mann styrksins maklegan, þar sem honum voru í fyrra veittar 1000 kr. Jeg flutti þá till. um þetta og gerði grein fyrir ástæðunum og gaf hv. d. ýmsar upplýsingar um þennan mann. Hafi hann verið sjerlega vel til þess fallinn í fyrra að verða styrks aðnjótandi, er hann það auðvitað enn. En jeg vil benda á það, að svo hefir verið litið á hingað til, þegar nýjum stúdentum hefir verið veittur styrkur til að fara utan til náms, að sú fjárveiting eigi að haldast 4 næstu árin. Jeg verð því að vænta þess, að hv. d. sjái sjer fært á veita þennan styrk áfram. Jóhann er ekki kominn til útlanda enn, en hann fer í næstu viku, treystandi því, að áframhald verði á styrkveitingu til hans í 4 ár.

Seinni brtt. mín er XLVII. till. á þskj. 408, um 2000 Kr. til Guðmundar Matthíassonar frá Grímsey, til tónlistarnáms. Jeg þekki þennan mann mjög lítið, hefi aðeins tvisvar talað við hann. Hann hefir notið kenslu hjá þeim manni, sem talinn er best að sjer í þeirri grein af öllum Íslendingum, Páli Ísólfssyni, og hefir hin bestu meðmæli frá honum. Jeg vil geta þess, enda þótt það hafi ekki beina þýðingu sem meðmæli með þessum pilti, að hann er náfrændi Matth. Jochumssonar og ekki ólíklegt, að eitthvað af listaeðli þjóðskáldsins sje honum meðfætt. Þetta er nú í fyrsta sinn, sem maður frá Grímsey leitar til þingsins um svona lagaðan styrk. Er leiðinlegt að neita um fyrstu bón. Grímseyingar hafa sannarlega ekki fengið svo mikið hingað til, að það hallaðist á, þótt þetta væri veitt. Þetta mætti að nokkru leyti skoða sem litla hugnun til þeirra. Jeg veit að vísu, að námsstyrkir eiga litlum vinsældum að fagna hjer. Get jeg því búist við, að svo fari um þennan, og verð jeg að sætta mig við það. En jeg vil staðhæfa það eitt, að þessi till. er eins frambærileg og margar aðrar og á því ekki skilið verri afdrif. Skal jeg svo ekki eyða meiri tíma.