26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Jeg á hjer 2 brtt., sem jeg vil minnast stuttlega á, tímans vegna. Sú fyrri, er jeg ber fram á samt 3 hv. þm. öðrum, er LXI. brtt. á þskj. 408 og er um það að veita 2000 Kr. til fjelags íslenskra háskólakvenna til þess að senda fulltrúa á þing alþjóðasambands háskólakvenna í Genf. Jeg vil leyfa mjer að upplýsa, að alþjóðasamband háskólakvenna var stofnað 1919 og eru í því háskólakvennafjelög 31 ríkis. Fjelagið hjer var stofnað í apríl 1928 og var veitt inntaka í alþjóðasambandið á ráðsfundi sambandsins, sem haldinn var í Madrid í sept. 1928. Takmark alþjóðasambands háskólakvenna er að auka vinsamleg viðskipti þjóðanna og greiða götu Kvenstúdenta í framandi löndum. Þetta gerir það á ýmsan hátt: 1) Með því að veita styrki til náms og vísindarannsókna, 2) með því að hafa heimili og gististaði í mörgum helstu borgum Evrópu og Ameríku, 3) með því að greiða götu háskólakvenna, sem eru á ferðalagi erlendis, með því að veita þeim aðgang að menningarstofnunum ýmsum, og ferðast um á sem skemtilegastan og ódýrastan hátt, og 4) að veita starfsfólki færi á að hafa skifti við erlendar starfssystur.

Af þessu má sjá, að hjer er um fjelagsskap að ræða, sem veitir ódýran aðgang að ýmsu, er til menningar má verða, en sem ella myndi kosta ærið fje. Fjelaginu hjer var boðið að senda fulltrúa á ráðsfundinn í Madrid í síðastl. sept., en það sá sjer ekki fært að sinna því boði. En nú telur það nauðsynlegt að geta sent fulltrúa á þing alþjóðasambandsins, sem haldinn verður í Genf að sumri. — Jeg vildi nú leyfa mjer að leggja til, að hv. deild taki vel í þessa málaleitun. Fyrir litla þjóð getur það haft mikla þýðingu að kynnast ágætum erlendum mönnum, er hafa mikla þekkingu til brunns að bera. Og að háskólakonur hjer kynnist og starfi með háskólakonum annara þjóða, getur haft meiri þýðingu en okkur í fljótu bragði grunar. Og hjer eru ekki gerðar svo miklar kröfur, þótt beðið sje um 2000 kr. Vil jeg því leyfa mjer að mæla hið besta með þessari till.

Þá er XXXI. brtt. á sama þskj., til Þórhalls Þorgilssonar, til lokanáms við Sorbonne í París, 1200 kr. Jeg skal taka það fram, að þessi maður hefir gert spönsku að aðalnámsgrein og auk þess latínu. Þetta er fátækur piltur, sem hefir komist áfram með hjálp frá systkinum sínum. Jeg vil benda á það, að það getur haft mikla þýðingu fyrir okkur að eiga mann, sem er vel fær í spánskri tungu, þar sem höfuðfiskmarkaður okkar er á Spáni. Er því full ástæða til að veita honum þennan styrk, sem auk þess er lokastyrkur, því hann gerir ráð fyrir að ljúka námi í vor. Og það er ánægjulegt að vita, að okkar yngri menn leita víðar náms en í Kaupmannahöfn. Þeir eru líka farnir að nema hjá stórþjóðunum, þar sem sjóndeildarhringurinn verður stærri. Okkar litlu þjóð skiftir það miklu máli, að okkar mentamenn hafi, sem fylsta yfirsýn yfir menningu nútímans. Þeim lærist betur að meta það, sem við höfum, og það, sem okkur vantar. Og þetta geta okkar ungu menn betur lært hjá stórþjóðunum. Þó hægt sje að fá eins mikla sjerþekkingu t. d. í Kaupmannahöfn eins og í Sorbonne, þá verður þó sjóndeildarhringurinn stærri við það að lifa í stórum bæ og kynnast þar listum og vísindum stórborganna. Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál, en vona, að till. þessari verði vel tekið. En jeg skal þó leyfa mjer að minna á það aftur, að þessi maður hefir lagt fyrir sig spönsku, sem getur haft mikla „praktiska“ þýðingu fyrir okkur í framtíðinni af framangreindum ástæðum. Og jeg skal minna á það, að þessi maður hefir rutt sjer braut í París við lítil efni og að systkini hans hafa reitt saman hvern eyri, er þau hafa mátt án vera, til þess að sjá hag bróður síns borgið. Og jeg veit, að þau geta nú ekki öllu meira. Jeg vona, að þessi orð nægi til þess, að Alþ. verði vel við þessari beiðni.