27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

16. mál, fjárlög 1930

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hefi fáar og litlar brtt. fram að flytja. Við 2 umr. fjárl. bar jeg fram till. um styrk til Odds Guðjónssonar, 1200 kr., en hún var feld. Mun það hafa verið vegna þess, að sú upphæð, sem mentamálaráðið úthlutar, var hækkuð. Jeg hefi nú samt borið þessa till. fram aftur, af því að sú upphæð, sem fjvn. hefir ætlað til mentamálaráðsins — 8000 kr. — er svo lítil, aðeins næg handa þeim, er áður hafa fengið styrk úr ríkissjóði, því það verður að halda áfram að styrkja þá, sem áður hafa fengið stúdentastyrkinn; annars væri stúdentum það til bölvunar að hafa leiðst út á þessa dýru námsbraut við erlenda háskóla, ef styrknum yrði kipt af þeim á miðri leið. Oddur Guðjónsson var sá eini, sem ekki fjekk styrkinn í fyrra, af þeim sem um hann sóttu, og vona jeg, að hv. Alþingi bæti honum það upp nú. Hann hefir bestu meðmæli frá kennurum sínum og stundar þá grein hagfræðinnar, sem lýtur að viðskiftum. Er hann eini Íslendingurinn, sem þá hagfræðigrein hefir lesið. Próf hans frá mentaskólanum var mjög gott. Væri því mjög hart, ef hann einn bekkjarbræðra sinna yrði algerlega afskiftur þessum styrk að ástæðulausu.

Þá er önnur brtt. mín, XXXII. á þskj. 408, sem fer fram á 1600 kr. styrk handa Böðvari Pjeturssyni, til þess að fullkomna sig erlendis í skólateikningu og dýrafræði. Hann er útskrifaður frá kennaraskólanum og hefir kent þessar námsgreinir. Nú hugsar hann sjer að dvelja í Danmörku og Svíþjóð til þess að fullkomna sig í þessum greinum. Hann hefir mjög góð meðmæli frá þeim, sem hafa kynst þekkingu hans í þessum efnum, og ennfremur frá skólastjóra þess skóla, sem hann áður hefir stundað nám við.

Sný jeg mjer þá að þriðju till. minni LXIX. á sama þskj., um styrk til sjúkrasjóðs verkamannafjelagsins Drífanda í Vestmannaeyjum. Fjelagið hefir beðið mig að flytja þessa till., og fer jeg fram á, að veittar verði 1000 kr., en til vara 600 kr. Sjóður fjelagsins var stofnaður 1916, og er hann nú orðinn 12100 kr., en hann hefir haft litlar tekjur aðrar en fjelagsgjöldin auk samskota. Er líkt ástatt um hann og aðra sjúkrasjóði, að hann þarfnast opinbers styrks, ef hann á að eflast. Sjómannafjelag Vestmannaeyja fjekk í fyrra, auk annars, 600 kr. styrk til sjóðs síns þegar í byrjun, og virðast því 1000 kr. handa sjúkrasjóði Drífanda sanngjörn krafa. Sjóðurinn hefir gert mikið gagn og styrkt á þessum árum 90 sjúklinga með 12500 kr. samanlagt; en í reglugerð um hann, sem sett var 1923, er ákvæði um, að ekki megi veita meiri styrk úr sjóðnum árlega en sem svarar 2/3 af árstekjunum, og er það svipuð regla og gildir um aðra sjúkrasjóði, sem notið hafa opinbers styrks. Er því vonandi, að þessi sjóður verði ekki settur hjá í þessu efni. Verkamannafjelagið „Drífandi“ er talsvert fjölment, og þess vegna hefi jeg farið fram á, að það fengi 1000 kr., en til vara 600 kr., og er það jafnt því, sem sjómannafjel. í Vestmannaeyjum fær, sem þó er fámennara. Vona jeg, að hv. þdm. sýni þessari till. velvilja sinn og að hv. fjvn. mæli með henni við deildina.