27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

16. mál, fjárlög 1930

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf að mæla stuttlega fyrir nokkrum till. Er þá fyrst till. mín um það, að ríkið veiti Núpsskóla styrk til að koma upp rafmagnsveitu, helming kostnaðar, alt að 15 þús. kr. Fyrir tilstilli stj. hafa verið gerðar áætlanir um það, hvað rafmagnsveita muni kosta á þessum stað, og niðurstaðan varð sú, að þarna mætti reisa 40 hestafla stöð fyrir 25 þús. kr. Fjársöfnun hefir verið hafin til skólans heima fyrir með góðum árangri, og er útlit fyrir, að safnast muni 35 þús. kr. frá hlutaðeigandi sýslum og ungmennafjelögum. Þessar 35 þús. kr. eiga að koma á móti ríkistillagi, sem er ákveðið að verði helmingur stofnkostnaðar, samkv. hjeraðsskólalögunum nýju. Þessi endurreisn stendur í sambandi við hina miklu endurreisn, sem nú er hafin í skólamálunum, öllu heilli. Áður hefir þessi skóli aldrei fengið styrk af opinberu fje, nema í eitt skifti 3000 kr. til húsabóta. Sjera Sigtryggur Guðlaugsson hefir haldið þessum skóla uppi og um langt skeið látið renna til hans af launum sínum. Samkv. hinum nýju hjeraðsskólalögum á skólinn að verða sjálfseignarstofnun, og er nú verið að vinna að því. Það þarf að hressa upp á skólahúsið og koma þar upp rafveitu, en til þess þarf styrk frá ríkinu. Og því er sótt um þennan styrk. Þarna eru góðir virkjunarmöguleikar og hægt að fá meira rafmagn, þegar skólinn er orðinn svo stór, að þessi 40 hestöfl endast ekki lengur. Jeg vona, að hv. þdm. sýni þessari till. góðan hug, úr því að þeir hafa samþ. hjeraðsskólalöggjöfina, því að till. er í fullu samræmi við þá löggjöf. Heima í hlutaðeigandi hjeraði er mikill áhugi fyrir þessu máli, og hlutur Alþingis má ekki eftir liggja.

Ásamt hv. þm. Ísaf. flyt jeg till. þess efnis, að Gunnari Jóhannessyni sje veittur 800 kr. styrkur til þess að kynna sjer íþróttalíf erlendis. Hjer er um lága fjárhæð að ræða, en mjög efnilegan og fátækan mann, sem er vænlegur til að efla íþróttalífið á Vesturlandi.

Þá flyt jeg till. um það, að Steini Emilssyni sje veittur 2000 kr. styrkur til jarðfræðirannsókna. Steinn hefir um langt skeið unnið að jarðfræðirannsóknum um alt land, og hefir nú í hyggju að gefa út bók um ísl. jarðfræði, bygða á eigin og eldri rannsóknum. Hann hefir aldrei áður notið styrks af opinberu fje, en er maður mjög vel að sjer og hefir góð meðmæli fræðimanna. Er því æskilegt, að hann fái þennan styrk.

Þá verð jeg að minnast á till., sem jeg flyt ásamt tveim öðrum hv. þm., um að hækka styrkinn til landsfundar kvenna árið 1930 úr 1000, kr. upp í 2000 kr. Nokkur kvenfjelög hjer í Reykjavík hafa sent þinginu 8000 kr. styrkbeiðni í þessu skyni, en hv. fjvn. skar það niður í 1000 kr. Það liggur í augum uppi, að þetta er ekki nægur styrkur á þessu ári. Áður hafa verið haldnir tveir slíkir fundir og kostnaðurinn við þá orðið allmikill, en kostnaðurinn af þessum fundi verður þó langmestur, því að það mun aðallega lenda á þessum konum að taka á móti ýmsum kynsystrum sínum, sjerstaklega útlendum. Stendur jafnvel til, að þær haldi uppi risnu fyrir alþingishátíðarnefndina hvað þetta snertir. 2 þús. kr. hrökkva skamt í þessu skyni, en þó má búast við, ef þetta nær fram að ganga, að það verði til að spara alþingishátíðarnefndinni nokkur útgjöld.

Þessir tveir landsfundir, sem áður hafa verið haldnir, voru mjög myndarlegir. Þar var rætt um húsmæðrafræðslu, garðrækt o. s. frv. Hefir árangur þessara funda þegar orðið talsverður.

Þá flyt jeg till. um það, að Jóhannesi Sigfússyni sjeu veittar 600 kr. sem viðbót við eftirlaun hans. Það er öllum kunnugt, að þessi gamli kennari er alls góðs maklegur, en hitt munu færri vita, að hann er svo fátækur, að hann kemst ekki af með núverandi eftirlaun. Þessar 600 kr. munu geta gert honum kleift að lifa við bærilegan hag, og mun öllum vera ánægja að því að hugsa til þess, að hann sje ekki altaf þjáður af fjárhagsvandræðum síðustu stundir lífs síns.

Næsta till. mín er þess efnis, að Sigurjóni Rögnvaldssyni sjeu veittar 800 kr. í eftirlaun. Þetta er gamall kennari, sem hefir starfað í 20 ár, en þó ekki öðlast lífeyrisrjett, eins og aðrir kennarar. Jeg vænti þess því, að hann verði ekki látinn afskiftur.

Þá kem jeg að þeirri till. minni, að veita Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu 10 þús. kr. lán til 20 ára með 6% ársvöxtum. Þessi till. er borin fram sem hallærisráðstöfun, vegna þess að þessi hreppur, sem einu sinni var öðrum fremri, er nú svo að segja orðinn gjaldþrota. Liggja til þess skiljanlegar ástæður. Svo er mál með vexti, að í Arnarfirði er mikill útvegur og margt góðra sjómanna. Við breytta útgerðarhætti hafa flutst burtu margir duglegir menn úr Auðkúluhreppi og vegna brottflutnings þeirra hefir dregið mjög þróttinn úr hreppsfjelaginu, því aðrir hafa ekki komið til baka en þeir, sem ósjálfbjarga hafa orðið. Hreppsfjelagið er, eins og eðlilegt er, komið í vandræði með þessa þurfamenn, sem flestir hafa orðið ósjálfbjarga utan hreppsins vegna veikinda. Hreppurinn er fámennur og fáir bjargálnabændur eftir. Eru heimilin nú flest fámenn og ekki hægt að stunda sjó sem áður. Jeg skal geta þess, að á síðasta ári fluttust 16 menn burt úr hreppnum og í stað þeirra komu 13 nýfædd börn eða aðfluttir þurfamenn.

Jeg játa, að slíkar till. sem þessi eru vandræðamál, en hjá því verður ekki komist að óska eftir aðstoð ríkisins. Hjer er ekki farið fram á styrk, heldur lán, en þó ber ekki að dylja það, að þess er ekki að vænta, að það verði alt endurgoldið. Helst þyrfti að senda menn til slíkra hreppa sem þessa, til þess að kynnast hag þeirra og getu og gera upp viðskifti þeirra við ríkissjóðinn. Hv. fjvn. hefir tekið marga hreppa, sem illa er ástatt fyrir, upp á arma sína, og mjer þykir hart, ef þessi hreppur, sem vissulega er verst stæður af öllum hreppum á landinu, verður látinn sæta harðari kostum. Jeg hefi mörg skjöl þessu til sönnunar, sem jeg hirði ekki að lesa upp, enda hefi jeg sýnt bæði stj. og fjvn. þau. Þessi skjöl gefa yfirlit um eignir, útsvör og gjöld hreppsins, og sýna það ótvírætt, að það er ekki sjálfskaparvíti, að hreppurinn hefir farið svo illa, heldur er það að rekja til hluta, sem hreppsnefnd og hreppsbúum voru ósjálfráðir. Og þegar um ósjálfráðar orsakir er að ræða, er meiri ástæða og nauðsyn til að hlaupa undir bagga en þegar einhver vitleysan hefir verið gerð. En því er ekki hjer til að dreifa. Jeg held, að það vanti í fátækralöggjöfina ákvæði um það, að hlaupa undir bagga með hreppum, sem ekki geta risið undir skuldbindingum sínum. Ef þessi hreppur gripi til þess örþrifaráðs að hækka útgjöldin, mundi það vart leiða til annars en brottflutnings þeirra, sem betur mega sín, og vaxandi örbirgðar hjá þeim, sem eftir verða. Jeg vænti þess því, að þingið sjái aumur á þessum hreppi og verði við því að veita þetta lán.

Jeg á ekki fleiri till. sjálfur, sem jeg vil minnast á, en vil fara nokkrum orðum um till. hv. 2. þm. G.-K. um Flensborgarskólann. Það mun ekki hafa verið meining stj. að draga fje af skólanum, þó hann hafi verið settur á bekk með öðrum ungmennaskólum. En jeg tek undir það, að ekki er rjett að slengja þessum skóla saman við aðra skóla, áður en sett er löggjöf um heildarskipulag kaupstaða- og unglingaskóla. Þessi skóli er búinn að starfa svo lengi, að það er hreinn óþarfi að fara að gera breyt. á hag hans og háttum fyrir þetta eina ár.

Eins og hv. þm. ber fram sína till., þá er útlit fyrir, að þar sje um nokkra hækkun á liðnum að ræða til unglingaskólanna, en svo er ekki, því að upphæðin er áætlunarupphæð, þar sem ný löggjöf hefir verið sett um þá ungmennaskóla, sem aðallega hafa notið styrksins. Hvorki hæstv. stj. nje hv. fjvn. hafa lagað þann lið eftir hinni nýju löggjöf, enda er þess máske ekki að vænta þegar í stað, en þar sem áætluð fjárveiting verður undir öllum kringumstæðum of lág, þá er ekki að óttast þessa 16000 kr. brtt. frá hv. 2. þm. G.-K. En sem sagt, eðlilegast er að gera engar breyt. á fjár veitingum til þessa skóla, fyr en allsherjarbreyting kemur á næsta þingi á skipun ungmennafræðslu í kaupstöðum.