27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

Fyrsta brtt., sem jeg ætla að minnast hjer á, er XXVII. brtt. á þskj. 408. Hún er flutt af okkur hv. þm. V.-Sk. og mjer. Hún kom fram hjer við 2. umr., en nú hefir upphæðin nokkuð verið lækkuð; það er sem sje styrkurinn til rannsóknarstofu háskólans. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þetta; hv. þdm. er öllum kunnugt um þessa stofnun, henni var komið upp þegar sett var sjerstakt dócents-embætti við læknadeildina, sem sjerstaklega átti að vera til þess að kenna læknaefnum sóttkveikjufræði og fleiri greinir, er það snerta, en þá var nauðsynlegt að koma upp um leið stofu, þar sem hægt væri að sýna stúdentunum bæði sóttkveikjugróður og ýmislegt fleira, sem að því lýtur. En það reyndist nú svo, að þessi rannsóknarstofa starfar í raun og veru minst fyrir háskólann; hún starfar ekkert meira fyrir hann en t. d. sjúkrahúsin, þar sem sjúklingar liggja, sem stúdentar fá að sjá. Þessi stofnun starfar nú algerlega í bágu heilbrigðismálanna yfirleitt; henni eru sendar. þegar farsóttir geisa. „blóðprufur“, til að skera úr um það, hvaða sjúkdómur sje þar á ferð. Þessi rannsóknarstofa komst á sínum tíma inn á sáttmálasjóð og var allmikið styrkt af honum, bæði þegar henni var komið á fót og síðar, þegar keypt voru verkfæri til hennar, var henni svo þaðan lagður um 3000 kr. styrkur á ári. En nú er svo komið, að það hefir í mörg ár staðið allmikil deila um þessa stofnun; háskólaráðið hefir ekki viljað styrkja hana lengur, því það er þröngt í búi hjá sáttmálasjóði, tekjur hans hafa rýrnað mjög mikið við verðfall íslenskra peninga, og þótt hann hafi alls um 40000 kr., þá er það ekki mikið, bæði til að styrkja kandidata, til utanfara háskólakennaranna, sem þó er ekki mikið um, og sömuleiðis til vísindastarfsemi í öllum greinum. Það er því augljóst, að það er svo þröngt við úthlutun styrkja hjá háskólaráðinu, að það getur ekki styrkt nema örlítið af öllu því, sem það gjarnan vildi, og hefir þess vegna verið talað um, að þessa ríkisstofnun bæri háskólaráðinu ekki að styrkja. Nú var það samþ. í vetur, að þessi stofnun yrði ekki lengur styrkt af sáttmálasjóði. En þar sem forstöðumaður stofnunarinnar segir, að hann þurfi styrks, og ríkið hefir á hinn bóginn ekki viljað vera án hennar starfsemi, þá virðist rjett að veita eitthvað til hennar í fjárlögunum. Annars hygg jeg, að rjett væri í þessu sambandi, að gengið væri eftir því, að rannsóknarstofan sendi ítarlega greinargerð fyrir starfsemi sinni og þeim tekjum, sem hún hefir, því jeg gæti, sannast að segja, hugsað mjer, að eftir því sem verkefni hennar vaxa. Þá geti styrkurinn smám saman minkað, og ef til vill horfið alveg. En við berum þetta fram af því að við teljum alveg sjálfsagt að hún haldi áfram að starfa.

Jeg ætla að vonast til þess, sjerstaklega eftir að við höfum skorið dálítið af þeirri upphæð, sem við bárum fram í fyrstu, að hv. þdm. geti ljeð þessu lið sitt, og jeg vonast til, að hv. fjvn. þurfi ekki að taka illa í brtt. af sinni hálfu, svo hún fái þess vegna þau mikilsverðu meðmæli hv. meiri hl. n. með sjer, sem á að hafa mikil áhrif á afstöðu hvers manns hjer í þessari hv. deild.

Þá er XL. brtt. á sama þskj., um að veita Geir Gígju kennara 1500 kr. styrk til þess að fullnuma sig í skólasmíði og lesa náttúrufræði í Kaupmannahöfn. — Jeg býst við, að allmargir af hv. þdm. kannist við nafn þessa manns í öðru sambandi. Hann er mjög frækinn íþróttamaður og hefir hvað eftir annað borið sigur af hólmi í kapphlaupum hjer; hann er maður prýðilega vel gefinn til líkama og sálar, alvörumaður og strangur við sjálfan sig, dugnaðarmaður og vel úr garði gerður á allan hátt. Hann er kennari við barnaskólann hjer og hefir ágæt meðmæli frá skólastjóra, Magnúsi Helgasyni kennaraskólastjóra og frá dr. Bjarna Sæmundssyni. Veit jeg, að þessi meðmæli ættu að vega allmikið hjá flestum, jafnvel svo, að hver maður, sem þau hefði, ætti að fá styrkinn. En mestu og bestu meðmælin eru þó þau, að honum hefir verið heitið því, að hann megi halda launum sínum á meðan hann er í þessari för. Sýnir það best, hve þarfur maðurinn er talinn þessum skóla og hvert traust hann hefir um það, að hann muni nota þennan tíma vel. Hv. þdm. verða vitanlega að gera bað upp við sig, hvort þeir vilja veita fjeð, en jeg get alveg persónulega ábyrgst það, að sá tími mundi verða vel notaður, sem þessi maður fengi til að auka þekkingu sína.

Brtt. XLIX. á sama þskj. er um það að veita Jóni Ófeigssyni kennara 5000 kr. styrk til þess að vinna að samning þýsk-íslenskrar orðabókar, en varatillaga 4000 kr. Jeg þarf ekki að lýsa Jóni Ófeigssyni fyrir hv. þdm.; hann er þeim svo kunnur. Hann fjekk fyrir nokkrum árum síðan styrk til sama verks. — Maður er eiginlega hálfhissa á því, að ekki skuli vera til Íslensk orðabók í einu af helstu heimsmálunum, og það meira að segja þeirrar þjóðar, sem hefir haft einna mest afskifti af okkur í menningarlegu tilliti. Það er áreiðanlegt, að þótt margar þjóðir sinni málum vorum, þá hefir engin þjóð gert okkur meira gagn heldur en Þjóðverjar, en þetta sýnir ekki annað en það, hve bókamarkaður okkar er afar fáskrúðugur, að ekki skuli vera til hjer nein orðabók yfir tungumál þessarar miklu menningarþjóðar. Þessi maður fjekk sem sagt styrk fyrir allmörgum árum í þessum sama tilgangi, en verkið var torsótt og gekk heldur seint, og efast þó enginn um, að þar er um góðan verkmann að ræða, sem Jón Ófeigsson er. En hann komst þá ekki lengra með verkið en það, að hann kvaðst vera hálfnaður með orðabókina. Þá hvarf hann frá því að sinni og fór að vinna við orðabók Sigfúsar Blöndals; vann hann við þá bók í mörg ár, en er nú búinn að koma því verki af sjer, þar sem sú orðabók er nú fullprentuð. Vill hann nú gjarnan taka upp þann sama þráð aftur og ljúka við þýsk-íslensku orðabókina; hann gerir ráð fyrir að ljúka við hana á tveim árum, en segist þurfa að endurskoða alt það, sem hann hafi verið búinn að vinna að henni, og ljúka svo við seinni partinn. Taldi hann sig þurfa að fá 5000 kr. á ári í tvö ár, en jeg hafði nú þann fagra þingmannssið að sníða ofurlítið af þessu og gefa mönnum kost á að greiða atkv. um lægri upphæð, og jeg hygg, að hann mundi samt vinna að þessu verki, þótt nokkuð væri sniðið af þeim styrk, sem hann hefir óskað eftir. En jeg vil aðeins taka það skýrt fram, að þetta myndi þurfa að vera fyrri greiðsla af tveimur. Það er enginn vafi á því, að ef þessa orðabók á að semja á annað borð, þá er enginn maður færari til að semja hana en einmitt Jón Ófeigsson, og það er ekki aðeins af því, hve mikill þýskumaður hann er, heldur hefir hann líka mesta æfingu í því að semja orðabækur. Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að það eru löngum vissir menn hjá hverri þjóð, sem gefa sig við því að semja orðabækur. Af slíkum mönnum höfum við átt Geir Zoega rektor, en síðan hann leið, hygg jeg engan svo færan sem Jón Ófeigsson.

Þá hefi jeg borið hjer fram LXII. brtt., um 1800 kr. styrk til Dýraverndunarfjelags Íslands, til dýraverndunarstarfsemi. Það var till. um þetta sama við 2. umr., en jeg hygg, að hv. þdm. hafi þótt sú till. óþarflega há, sem þar var farið fram á, og hefi jeg þess vegna tekið hana upp aftur, en með lægri upphæð. Það var þá talað fyrir þeirri till., og get jeg af þeirri ástæðu stytt mál mitt nú, svo og vegna þess að mörgum er þessi fjelagsskapur vel kunnugur. Fjelagið gefur út blað, sem er nokkuð þungt á því, vegna þess að í fámenninu hjá okkur er það æfinlega svo, að blöð, sem fjalla um sjerstakar greinir, bera sig alls ekki, svo þeim þarf að leggja fje, meira og minna á hverju ári, og það er vanalegt, að fjelögin gera ekki meira en að ná inn tekjum til að halda uppi slíkum blöðum. Auk þess hefir fjelagið keypt eignina Tungu hjer fyrir innan bæinn. Er mjer kunnugt um, að það hefir unnið og vinnur þar mjög þarft og gott verk. Það skiftir mörgum hundruðum húsdýra, sem þetta fjelag hefir skotið skjólshúsi yfir þar innfrá; fjekk jeg að gamni lauslegt yfirlit yfir það, sem er á þessa leið: 534 hestar, 202 kýr, 486 hundar, 65 kindur, og ósköpin öll af köttum og ýmsum alifuglum, sem vitanlega alt hefir líf og tilfinningu og er vel gert að skjóta skjólshúsi yfir.

Jeg er alveg viss um það, að á meðan ekki er farið að hleypa þessu út í neinar öfgar, þá er ekki annað betur gert en að styrkja eitthvert fjelag, sem leitast við að innræta öllum að fara vel með dýrin, og sem ætíð er til taks hjer í fjölmenninu, þegar þarf að liðsinna þeim. Þessi styrkur er heldur ekki svo fjarskalega tilfinnanlegur fyrir ríkissjóð, og þykir mjer þess vegna ekki ósennilegt, að hv. þdm. sjái sjer fært að samþ. þessa upphæð. Það er alveg áreiðanlegt, að fjelagið verður ekki neitt feitt af þessu; það mun fara algerlega til þeirrar starfsemi, sem þeir af áhuga beita sjer fyrir, en hafa engan ágóða af. En hitt er annað mál, að þeir hafa orðið að taka mann upp á kaup til að vera þarna og sjá um eignina. Er mjer dálítið kunnugt um það vegna þess, að þegar staða þessi losnaði síðast, sótti jeg um hana fyrir mann, sem langaði til að fá hana; síðan er mjer kunnugt um það, að fjelagið borgar ekkert um of fyrir það, sem það lætur vinna fyrir sig.

Loks á jeg brtt. á þskj. 431. Það er um að veita Karlakór Reykjavíkur 2000 kr. styrk til þess að fá sjer kenslu hjá söngkennara. Hv. þdm. kannast sjálfsagt við Karlakór Reykjavíkur. Það er ekki gamalt fjelag; söngstjórinn er Sigurður Þórðarson frá Söndum. Þetta fjelag hefir þegar aflað sjer mjög mikilla vinsælda. Jeg skal ekki um það segja, hvort það er eins þaulæft söngfjelag eins og Karlakór K. F. U. M., en það er áreiðanlegt, að það hefir alveg prýðilegum kröftum á að skipa. En ástæðan til, að það fer nú fram á að fá þennan styrk, er sú, að í sambandi við alþingishátíðina 1930 var talað um að koma upp mjög stórum blönduðum kóri. Það buðu sig fram mjög margar stúlkur til þess að syngja í þessum væntanlega Þingvallakóri og munu um 60 af þeim hafa verið teknar. Aftur á móti voru karlmennirnir svo margir, er til mála gátu komið, að þeir hirtu ekki um að gefa sig fram. Var því talsverður spenningur um það, hvaða menn mundu valdir til að skipa þennan úrvalskór. Var þá sú leið farin að snúa sjer til Karlakórs K. F. U. M., en afleiðingin varð sú, að sá kór var tekinn í heilu líki, og er jeg ekki að mótmæla því; hygg jafnvel, að það hafi verið skynsamlega gert. En þá reis upp óánægja hjá Karlakóri Reykjavíkur, og sjerstaklega af því, að Sigurður Birkis hafði verið valinn til þess að segja fólki kórsins til. Nú þóttist Karlakór Reykjavíkur útundan, er allir meðlimir Karlakórs K. F. U. M. voru teknir og fengu við það kost á ókeypis kenslu í söng. Virtust þeir með rjettu geta bent á þann greinilega aðstöðumun kóranna vegna þeirrar kenslu, sem jeg mintist á.

Jeg veit, eftir því sem kunnugir menn hafa sagt mjer, að það er geipilega mikill tími, sem fer hjá þessum mönnum í að æfa sig. Þeir, sem ganga suður Laufásveg á kvöldin, sjá þessa menn safnast saman eftir vinnutíma svo að segja daglega til þess að æfa sig. Og alt þetta ómak og alla þessa miklu vinnu leggja þeir á sig vegna starfsins og án þess að geta búist við að fá neitt í staðinn.

Nú hefir þessi vel menti flokkur snúið sjer til Alþingis og mæltst til að það veitti lítilsháttar fjárhæð til þess að styðja að rjettmætu áhugamáli flokksins, að verða sem best fær í sinni ment, og álít jeg, að væri vel til fundið að verða við þessari beiðni.