27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á örfáar brtt. við þennan síðari kafla fjárl., sem jeg vildi leyfa mjer að gera grein fyrir með fáeinum orðum.

Vil jeg þá fyrst minnast á LV. brtt. á þskj. 408, um 1500 króna styrk til vegagerðar um sandgræðslusvæðið í Bolungarvík. Eins og kunnugt er, hefir verið unnið að því á undanförnum árum að rækta upp sandinn við Bolungarvík og ágætur árangur orðið af því starfi. En til þess að áframhald geti orðið á starfinu vantar tilfinnanlega veg um sandsvæðið. Aðalræktunin er sem sje í því fólgin að bera þara á sandinn, en það er ekki hægt, svo að verulegu gagni komi, nema lagður verði vegarspotti um sandinn, svo þaranum verði ekið þangað, sem hans er mest þörf.

Reynslan hefir sýnt, að þar sem þarinn hefir verið borinn á, er sandurinn algróinn, en gat þó varla talist fær yfirferðar í hvassviðri fyrir 12 árum. En eins og jeg hefi vikið að, er ekki hægt að halda þessari nauðsynlegu ræktun áfram vegna vegleysis. Vil jeg benda á, að þarna eru á þriðja hundrað hektarar af landi auðvelt til ræktunar, ef vegur er lagður, og kunnugir fullyrða, að gróið muni upp á 10 til 15 árum, ef ekki skortir áburð. Er því auðsætt, hvílík lyftistöng það getur orðið fyrir bygðarlagið, þegar landsvæði þetta er komið í ræktun.

Þá er það LIX. brtt. á sama þskj., sem jeg flyt ásamt hv. þm. V.-Ísf., um að hækka styrkinn til Guðmundar Jónssonar frá Mosdal upp í þá upphæð, sem hann hefir áður haft. Mjer er óhætt að segja, að þessi maður er ungum mönnum vestra hinn mesti aufúsugestur hvar sem hann sýnir sig eða fer um. Fyrir utan það, að hann er mjög fær í iðn sinni, listskurðinum, að dómi þeirra manna, sem vit hafa á, og áhugasamur um kensluna, þá er hann maður, sem er sjerstaklega vel til þess fallinn að leiða unga menn og halda þeim saman. Hann hefir haft mikil afskifti af fjelagsskap ungra manna á Vesturlandi, og það er almannarómur, að þeir menn, sem verða fyrir áhrifum Guðmundar, beri af öðrum um siðprýði og annað fagurt hátterni. Hann heldur á hverju ári námsskeið fyrir ungt fólk víðsvegar um sýslurnar, og þau endurgjaldslaust. Hann mun oftar leggja fátækum nemendum til efnið án þess að ganga eftir borgun fyrir það. Vænti jeg því, að hv. d. sjái sjer fært að láta þennan mann halda sama styrk og hann hefir áður haft, og það því fremur, sem fullyrt er, að annar maður, sem nýtur þó helmingi hærri upphæðar af opinberu fje til samskonar kenslu, sje ekki eins áhugasamur í starfi sínu og Guðmundur. Guðm. hefir margfalt fleiri nemendur en þessi maður, og loks eru störf hans önnur fyrir ungmenni, sem verð eru mikillar viðurkenningar.

Þá vildi jeg leyfa mjer að mæla með einni brtt., þó að jeg sje ekki flm. hennar, en hún er um styrk til Gunnars Jóhannessonar til þess að kynna sjer íþróttalíf erlendis. Þetta er eini maðurinn um alla Vestfjörðu, sem segja má um, og það með rjettu, að hafi brennandi áhuga fyrir öllu því, sem íþróttir kallast. Hann er líka eini íþróttakennarinn þar um slóðir og hefir ferðast víða um Vestfirði fyrir sama sem ekkert gjald og stofnað íþróttafjelög, sem hann svo hefir kent í. Á Ísafirði hefir hann unnið ágætt starf í þessu efni og hlotið lof fyrir. Nýlega fór hann með leikfimiflokk, sem hann hefir æft, norður um land og gat flokkurinn sjer besta orðstír fyrir ágætar sýningar, sem sjerstaklega má þó þakka dugnaði og áhuga kennarans. Síðastl. ár hefir hann tekið skátafjelagsskapinn á Ísafirði upp á arma sína og kent ungum mönnum allar þær íþróttir og andlegu þjálfun, er þeim góða fjelagsskap fylgja. Gunnar er einnig afbragðsmaður og vel til þess fallinn að leiða unglinga og hafa góð áhrif á þá.

Vænti jeg því, að hv. d. sjái sjer fært að veita þennan styrk, svo að þessi efnilegi íþróttakennari geti skroppið út yfir pollinn til þess að sjá ýmislegt nýtt og fullnuma sig í ýmsum greinum, er koma mundi síðar ungum mönnum á Vesturlandi til góðs.