27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

16. mál, fjárlög 1930

Gunnar Sigurðsson:

Jeg flyt ásamt tveim hv. þm. brtt. við 14. gr., að veittur verði lítilfjörlegur styrkur til Skáksambands Íslands. Býst jeg við, að hv. þm. vilji styðja í eitt skifti fyrir öll þennan fjelagsskap, sem gert hefir landinu mikinn sóma út á við með þessari íþrótt sinni. Nú nýlega hafa skákmenn unnið tvær skákir við Dani og getið sjer þannig góðan orðstír. Vona jeg, að hv. þdm. kunni að meta verk þessa fjelags og samþ. þennan lága styrk.

Þá er jeg einnig meðflutningsmaður að brtt. við 15. gr., að Ingibjörgu Steinsdóttur leikkonu verði veittur 2400 kr. styrkur til leiknáms erlendis, en til vara 2000 kr. Jeg þykist þess fullviss, að þeir, sem sáu leikkonuna leika nú fyrir skömmu, hafi tekið eftir því, að hjer er um alveg óvenjulega leikhæfileika að ræða. En leikkonunni er nauðsynlegt að læra meira, til þess að þroska hæfileika sína, og því flytjum við þessa till., sem jeg vænti, að verði samþ.

Þá er brtt. frá okkur þm. Rang. við 16. gr. tölul. LXIII. á þskj. 408. Jeg þarf í raun og veru engum orðum um hana að fara, því það vill svo vel til, að bæði fjvn. og hæstv. stj. eru sammála okkur, svo sem heyra mátti á ræðu hæstv. dómsmrh, Hann leit rjettilega á upphæðina sem áætlunarupphæð, er bætt verði við, ef þurfa þykir, og sættum við flm. okkur við þau málalok eftir atvikum.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að fara að ræða hjer till. annara þm. En þó vil jeg mæla með till. hæstv. dómsmrh. um að kaupa Reykjatorfuna. Jeg álít það vildarkaup, sje einungis litið á kaupverðið. Samgöngur hljóta að batna þarna, hvort sem það verður fyr eða síðar, og jarðirnar verða meira virði en kaupverðinu nemur. Þar að auki er jarðhiti þar, og eru þetta því tvímælalaust góð kaup. Jeg hefi nokkra þekkingu á þessu; bæði er jeg kunnugur þar eystra og eins kaupverði jarða alment, og get jeg rólega ráðið hverjum sem er til að kaupa þessar jarðir fyrir þetta verð.