27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

16. mál, fjárlög 1930

Lárus Helgason:

Jeg mun ekki lengja mikið tímann, enda er jeg aldrei vanur að vera mjög langorður. Jeg á hjer brtt. undir XXXIX. lið með hv. þm. N.-Þ. Hann hefir að vísu talað með till., en sagði, að jeg hefði betri þekkingu á málinu en hann, og verð jeg að reyna að gera mitt til að sýna, að hv. þm. skýri hjer rjett frá um þekkingu mína á þessu máli, og mun jeg því skýra það eftir mætti. Þessa skólastýru, sem hjer um ræðir, þekki jeg dálítið persónulega af eigin viðkynningu og eftir umsögn þeirra, sem þekkja hana vel. Hún ferðaðist ásamt þremur öðrum stúlkum fótgangandi um nokkurn hluta landsins fyrir 2–3 árum, og kom hún þá við hjá mjer. Ætlaði hún þá að halda áfram ferð sinni og vaða árnar milli Síðunnar og Skaftártungunnar, og svo var áhuginn mikill, að þótt jeg skýrði henni frá erfiðleikunum, sem á því væru, vildi hún varla bíða eftir því, að jeg ljeti sækja hesta til að í reiða þær umræddan veg, en jeg rjeði betur Þessi þýska stúlka og jeg töluðum mikið saman á leiðinni, og barst talið aðallega út á þroska fólksins og framfaramöguleika Íslendinga í verklegum fræðum. Fann jeg fljótt, að jeg átti tal við prýðilega gáfaða stúlku og vel mentaða. Hún hjelt því fram, að í íslenskum skólum væri gert of mikið að því að kenna hið bóklega, en aftur væri verklegt nám látið sitja á hakan um. Sjálf sagðist hún hafa gengið út á völlinn að erfiðisvinnu hvenær sem tækifæri hafi gefist, og þá datt mjer það í hug, hversu það gæti verið holt fyrir okkur að fá þessa stúlku til að veita forstöðu skóla með svipuðu sniði sem hún taldi, að þörf væri á, þar sem verklegt nám hjeldist í hendur við hið bóklega. Svo las jeg það í vetur í blaði, að hún sje komin til Þýskalands og hafi þar stofnað skóla fyrir Íslendinga, og þá sá jeg, að mjer hafði ekki missýnst, og hjer var stúlka, sem ljet ekki staðar numið við orðin tóm, heldur framkvæmdi að sama skapi. Nú hefir hún farið fram á styrk — eða öllu heldur lán — til Alþingis, því að hún mun ekki hafa mikið fje til umráða. Faðir hennar mun að vísu hafa verið vel efnaður maður fyrir stríðið, en það fór fyrir honum eins og fleirum á þeim árum, að eignir hans fóru fyrir lítið. Því brestur hana nú fje til þess að geta komið skólanum í það horf, sem hún telur nauðsyn á, og þess vegna hefi jeg nú gerst flm. þessarar till. ásamt hv. þm. N.-Þ. Við höfum farið fram á, að henni verði veittur 5000 kr. styrkur, og vil jeg taka það skýrt fram, að hjer er ekki um lán að ræða, heldur beinan styrk til skólans í eitt skifti fyrir öll. Jeg er ekki nógu kunnugur starfsemi þessarar myndarstúlku, en býst hinsvegar við, að flestir hv. þm. hafi lesið „Tímann“ 18. jan. síðastl. Þó vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp smákafla úr grein þeirri, er þar birtist:

„Þýska æfintýrastúlkan er komin heim aftur, og hún hefst óðar handa með fyrirætlan sína. Hún leigir sjer land á einum myndarlegasta bóndabænum við Norðursjó. Eftir sumarið er þar kominn stór og fallegur garður með öllum hugsanlegum garðávöxtum, blómum og trjám. Veturinn notar hún til að afla sjer áhalda fyrir skóla sinn, og þegar líður á veturinn, er skólastofan fullbúin. Hún líkist að því leyti íslenskri baðstofu, að þar eru áhöld til allskonar iðju, vefstólar, saumavjelar, spjaldvefnaðarbretti o. s. frv. Þar eru skólaborð, því að hún ætlar líka að kenna þýsku og önnur munnleg fræði“.

Jeg vil ekki þreyta hv. þm. með því að lesa upp alla greinina, því að hún er löng, en vil aðeins lesa hjer annan smákafla:

„Regine Dinse er mjög mikið náttúrubarn og blóma, og mjer virtist að hún mundi hafa ágæta hæfileika til að vekja hjá öðrum ást á náttúrunni og lífinu. Dugnaður hennar og kappsemi er frábær og þekking hennar og reynsla í þessu efni er í besta lagi. Regine Dinse lifir glöðu, starfsömu og mjög heilbrigðu lífi, og jeg veit, að hún mun verða nemendum sínum mjög holl fyrirmynd.

Mjer datt í hug, hve geysilegur munur það væri fyrir íslenskar stúlkur að koma til Wentzelhof og læra þar að lifa heilbrigðu lífi, læra að vinna, rækta, matreiða, vefa o. s. frv., í staðinn fyrir að fara til Hafnar eða annara stórborga eins og hingað til hefir tíðkast, læra þar óhollar stórborgarvenjur eða hanga inni í húsum við einhæft nám“.

Jeg verð að segja, að mjer finst það ákaflega þröngt af hv. Alþingi, ef það vill ekki virða þessa kröftugu einsdæma viðleitni svo mikils, að það veiti þessari stúlku einhvern fjárstyrk til að halda áfram með það starf, sem hún er þegar búin að koma vel á veg með dugnaði sínum, og það má vart teljast vansalaust að rjetta henni ekki hjálparhönd. Það er mikill munur fyrir ungt fólk að geta farið til slíks staðar og numið þar það, sem að gagni má koma, eða að verða að fara út í óvissuna til þess eins að lenda máske á glapstigum, eins og oft mun hafa átt sjer stað. Þessi stúlka talar og skilur vel íslensku, þrátt fyrir þennan skamma tíma, sem hún dvaldi hjer á landi. Hún ritar málið líka sæmilega, og hefi jeg hjer við hendina brjef frá henni, sem hv. þdm. geta fengið að sjá, ef þeir kæra sig um. Jeg vil svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil aðeins vona, að það komi ekki þessari ágætu stúlku að óliði, hvað við flm. þessarar brtt. höfum talað ver fyrir henni en verðugt hefði verið.