27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Hæstv. dómsmrh. taldi, að jeg mætti vera öruggur þrátt fyrir það, þó brtt. mínar við 14. gr. verði ekki samþ., vegna þess að í þeim 70 þús. kr., sem ætlaðar eru til unglingaskóla, sje innifalinn styrkur til skólans í Hafnarfirði, og því fremur mætti jeg við una, sem það er hlutverk hv. þm. V.-Ísf. að úthluta þessum styrk. En jeg hygg, að hæstv. ráðh. hafi ekki fyllilega áttað sig á því, að á þessu tvennu er þó töluverður munur. Jeg veit að vísu, að hv. þm. V.-Ísf. ber góðan hug til Flensborgarskólans, en þótt svo sje, þá hefir hann það ekki á sínu valdi, hvernig þessum styrk verður úthlutað, vegna þess að í aths. við þessa fjárveitingu er það skilyrði sett, að rekstrarkostnaðar komi annarsstaðar frá. En það, sem jeg vil, er, að Flensborgarskólinn fái þann styrk, er hann þarfnast, að undanteknum skólagjöldum, úr ríkissjóði, samkv. venju og samningi þar um. Til þess að breyta núv. skipulagi þarf að gera nýjan samning um skólann. Hæstv. ráðh. segir, að sín till. sje að lyfta skólanum með þessu. En hæstv. ráðh. ætti að geta skilið það, að þótt allir sjeu sammála um það, að nýtt hús væri betra fyrir skólann, þá ef það enginn hagur fyrir Hafnfirðinga, að styrkurinn sje minkaður nje fyrirkomulaginu breytt. Jeg vil benda á, að Hvítárbakkaskólinn og Laugaskólinn hafa engan styrk fengið utan ríkissjóðsstyrksins, nema frá einstökum mönnum, alveg á sama hátt og Flensborgarskólinn fjekk sinn styrk frá Þórarni Böðvarssyni og þeim hjónum. Hæstv. ráðh. talaði um það, að hann hefði farið til Hafnarfjarðar og vakið þar einhverja öldu og gerst þar frumkvöðull um skólamál. Þetta er nú bara þetta venjulega góðmótlega raup hæstv. ráðh., sem maður á einatt að venjast, líkt og þegar hann hjelt járnbrautar- og vatnamálafundina, til þess eins að geta síðar sagt: Það var jeg, sem vakti áhuga fyrir þessum stórmálum. En hæstv. ráðh. er enginn frumkvöðull um þetta mál; það hefir oft áður verið rætt. Mont ráðh. læt jeg liggja milli hluta; það er hans einkamál. En Alþingi Íslendinga verður að gæta virðingar sinnar og forðast að rjúfa 50 ára venjur sínar aðeins til að svala hefnigirni ráðh.