27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

16. mál, fjárlög 1930

Sveinn Ólafsson:

Jeg ætlaði að víkja nokkrum orðum til hv. 3. þm. Reykv., en jeg sje, að hann er nú ekki viðstaddur. Má vera, að honum hafi nærri rekið viðskiftin við hæstv. dómsmrh. og hafi því hörfað af fundi. En jeg verð samt að víkja nokkuð að ræðu hans, þar sem hann lagði fast á móti og skopaðist að till. minni og fleiri hv. þm. um styrk til útgáfu minningarrits Möðruvallaskóla. Hv. þm sagði, að flm. stæði næst að annast þetta sjálfir og það ætti að vera þeim metnaðarmál að koma út þessu minningarriti um sjálfa sig. Ekki verður sagt, að hjer sje hlýlega mælt. Mjög vel þektur rithöfundur hefir rit þetta í smíðum, og óvíst er með öllu, að nokkur flm. þessarar till. verði í því nefndur. Sigurður Guðmundsson skólameistari hefir tekið þetta starf upp hjá sjer og óskað eftir litlum styrk til útgáfu ritsins. Sje jeg ekkert óvenjulegt við að óska eftir þeim styrk fremur styrkjum til útgáfu bóka. Nú er t. d. nýbúið að samþ. styrk til útgáfu erlendra ljóðaþýðinga, og margt er til fleira þessu líkt. En það, sem meðal annars hvetur til að styðja þetta útgáfufyrirtæki, er það, að Sigurður Guðmundsson hefir þegar lagt drög að ritinu, en hann mun vera mörgum öðrum líklegri til að rita menningarsögu. Og þetta rit mundi vissulega hafa menningarsögulegt gildi; það mundi verða saga landsins á síðastl. 50 árum og sjerstakl. saga skólamálanna. Byltingin í þeim málum hefir nær öll orðið á þessum 50 árum. — Jeg geri ekki ráð fyrir því, að andmæli hv. 3. þm. Reykv. hafi mikil áhrif um þetta efni. En mjer þykir það hjákátlegt, að hv. þm. er að reyna að lyfta undir sínar till. með þessu. Hv. þm. fer fram á að fá fje til þess að senda hóp kvenna úr landi til fimleikasýningar. Má vel vera, að það hafi eitthvert menningargildi, en fráleitt framar útgáfu góðs rits.

Þá er sami hv. þm. með aðra till., hækkun á styrk til goodtemplara. Fljótt á litið má nú sýnast þarflegt að styrkja þann fjelagsskap. En þegar litið er til þess, að reglan hefir notið mikils styrks á undanförnum árum, og nýtur enn, og að nú er engin sjerstök aðkallandi nauðsyn fyrir dyrum, þá verður þetta frekast að skoða sem verðlaunaveitingu til manna fyrir að vera bindindismenn. En slíkt er aðeins til athlægis, og frekjan er taumlaus, þegar farið er að heimta fje úr ríkissjóði fyrir að rækja þær borgaralegu skyldur að hafna banvænu nautnalyfi. Á þessa styrkhækkun, sem hv. þm leggur til að veita, verður því að líta sem nokkurskonar uppbót til þeirra manna, sem neita sjer um vín, svo þeir geti glatt sig á annan hátt, sem ekki virðist vera neitt ódýrari. Varla gengur þetta fje til útbreiðslustarfsemi. Hana annast áhugasamir einstaklingar endurgjaldslaust. Þeir menn eiga þakkir skyldar, en ekki hinir, sem á bónbjörgum liggja.

Af því hv. þm. er ekki viðstaddur, skal jeg ekki fara lengra út í þetta að sinni. Og jeg efast um, þótt hv. þm komi fram með nýjar meinlokur, að mjer þyki þær þess virði að þrátta meira um þær. — Jeg vil svo lýsa því yfir, að enda þótt jeg sjái, að margar brtt. þær, sem fyrir liggja, eigi nokkurn rjett á sjer, þá mun jeg þó ekki fylgja nema fáum. Og þótt jeg játi, að margar hinna nýju tillagna sjeu engu síðri þeim, sem inn eru komnar þá sje jeg enga leið til að ganga sóma samlega frá fjárl. nema svo fari, að feldar verði margar hinna nýju till.