27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Tveir hv. þm. hafa nú við þessa umr. látið falla ummæli, sem jeg get ekki látið vera að drepa lítið eitt á.

Hv. 3. þm. Reykv. ljet sjer það sæma í ræðu sinni hjer í dag að uppnefna og hrakyrða löggæslumenn þá, sem settir eru til þess að hafa á hendi gæslu áfengislaganna. Þessi sami hv. þm. greiddi þó atkv. með áfengislögunum í fyrra, svo að það situr síst á honum að hrakyrða menn fyrir að gegna því starfi, sem hann hefir sjálfur lögboðið og sett reglur um. Þeir gegna starfi, sem hann hefir sjálfur sett reglur um. Nú hrakyrðir hann þá og smánar. Slík eru hans heilindi.

Þá var það hv. þm. N.-Þ., sá, sem er nú forseti þessarar hv. deildar. Um hans framkomu er það eitt að segja, að hún er honum sjálfum og þessari hv. deild til hinnar mestu vansæmdar. Jeg ætla ekki að svara ræðu hans, því að hjer er ekki rjettur vettvangur til þess að svara drykkjurausi, en ræða hans og hátterni alt var honum í alla staði ósamboðið, og þó ennþá ósamboðnara hv. deild að taka henni með þögn, hvorttveggja var móðgun við deildina, og áreiðanlega hefði þessi hv. þm. verið betur kominn utan veggja þingsins en innan að þessu sinni.