01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi vitanlega ekkert við það að athuga, að hv. 4. landsk. notar þetta tækifæri til þess að beina fyrirspurnum til stj., og skal gjarnan verða við ósk hans að svara þeim spurningum, sem hann beindi til mín. En raunar voru þær báðar bornar fram í hv. Nd. og svarað þar af mjer.

Hv. þm. spurði um vegavinnukaupið og hvaða tilhögun um kaupgreiðslu væri af hálfu þess opinbera og hverjir rjeðu kauphæð. Það er náttúrlega svo um margt af þessu, að þeir trúnaðarmenn, sem hafa yfirsýn með framkvæmdum, þeir ráða kaupinu. En að sjálfsögðu er það atvmrh., sem ber ábyrgð á því, hvaða ákvarðanir eru teknar. Og ef eitthvað verulegt er ráðið, kemur hlutaðeigandi starfsmaður og á tal við atvmrh. Og mjer dettur ekki á neinn hátt í hug að varpa af mjer ábyrgðinni á þá menn, sem hafa framkvæmdirnar á hendi. Hinsvegar er mjer kunnugt um það, að það hefir bæði fyr og síðar verið nokkur munur á kaupgreiðslu í vegavinnu og símavinnu, enda er aðallega um fagmenn að ræða í símavinnu. Eins og hv. þm. veit, er það eðlilegt að borga þeim hærra, sem eru fagmenn, heldur en óbrotnum verkamönnum, sem vinna einföldustu vinnu.

Þá benti hv. þm. á mismun á kaupi á ýmsum stöðum og spurði, hvernig á honum stæði. Jeg gat þess í Nd. um vegavinnuna, sem hv. þm. á sjerstaklega við, að ríkissjóður er ekki einn um að láta vinna slíka vinnu, heldur sýslufjelög líka. Og ríkissjóður reynir yfirleitt að láta vera samræmi milli kaupgreiðslu sýslunnar og kaupgreiðslu landsins fyrir sömu vinnu. Og jeg get gjarnan sagt það, að jeg álít það yfirleitt skyldu atvmrh. að reyna að komast að sem hagstæðustum kjörum um þessa vinnu og keppa að því að fá sem mesta vinnu fyrir það fje, sem veitt er til verklegra framkvæmda. Því tel jeg, að síst eigi að stofna til þess af hálfu ríkisins að spenna kaupið upp.

Hv. þm. talaði allmikið um það, hve óeðlilegt væri, að kaup sje mismunandi á ýmsum stöðum og ýmsum árstíðum, t. d. á vorin og um sláttinn. Jeg vil benda þessum hv. þm. á það, að það er ekki löng leið milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hv. þm. benti stj. á að fara eftir því, sem verkamenn gera. Jeg veit ekki betur en að það sje 10 aura munur á taxta hjer og í Hafnarfirði. (JBald: Ekki nema 6 aura). Vill hv. þm. benda á, hvernig stendur á þessu? Jeg veit heldur ekki betur en að það sje talsverður munur á kaupi á togurum og eyrarvinnukaupi. Auðvitað fylgir meira erfiði og áhætta vinnunni á togurunum, en munurinn er áreiðanlega meiri en sem þessu svarar. Það getur vel verið, að það væri hugsjónin að geta fengið meðalverð á öllu. En stj. hefir ekki sjeð sjer fært að gera það. Og verkalýðsfjelögin hafa ekki heldur gert það. Svo að þessar stofnanir, sem hv. þm. benti til, fara alveg eins að og stj.

Annars vil jeg geta þess, að kept er að því að fá sem mest unnið í ákvæðisvinnu, sjerstaklega nýlagningu vega. Og jeg er í engum vafa, að það er bæði ríkinu og verkamönnum einkar hentugt.

Þá gerði hv. þm. fyrirspurn um, hvað liði síldarverksmiðjunni. Ýmislegt hefir valdið því, að framkvæmdir urðu ekki skjótari en raun er á. Í fyrstu leit ekki út fyrir, að nóg fje væri fyrir hendi. Veikindi fjmrh. töfðu og eðlilega fyrir. Annars þarf þetta mál mjög rækilegan undirbúning, og það er sjeð, að verksmiðjan getur ekki tekið til starfa í sumar. En það hefir verið upplýst, að nú þegar er ráðinn maður til að sjá um byggingu verksmiðjunnar, og hann kemur hingað með næstu ferð „Lyru“. Hann er norskur og hefir mikla reynslu í þessu efni. Allur undirbúningur er kominn svo langt, að byrjað verður á verkinu í sumar, og verksmiðjan byrjar þá væntanlega með fullum krafti næsta ár.

Jeg hygg jeg hafi þá svarað þessum tveimur fyrirspurnum, sem hv. þm. beindi til mín.