01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Þær urðu nokkuð halakliptar, brtt. mínar við 2. umr., vegna þess að ekki var samþ. nema nokkuð af þeim. Hefi jeg nú borið fram nokkrar brtt. viðvíkjandi skipulagi smábýlalánadeildarinnar, svo að hún geti tekið til starfa. Þó að jeg eftir atvikum hefði getað sætt mig við, að stjórnin hefði undirbúið þennan kafla til næsta þings, gat jeg auðvitað eigi annað en greitt atkv. með lánadeildinni, þótt ekki væri það allar till. mínar.

Auk þessara brtt. hefi jeg flutt tvær aðrar brtt., sem þó fela ekki í sjer efnisbreytingar. Fyrri till. er um það, að ríkisstjórninni sje heimilt að fresta fyrst um sinn framkvæmd á II. kafla laganna, um veðdeild bankans. Ef ríkisstjórnin telur á einhvern hátt vandkvæði á því að setja veðdeildina á stofn nú þegar, hefir hún samkv. brtt. minni heimild í lögum til þess að fresta stofnun veðdeildarinnar án þess að hægt sje að segja, að hún hafi gengið á snið við bankalögin. Gæti t. d. verið, að stjórnin gæti ekki beitt heimild um lántöku, vegna þess að lán fengist ekki með nógu hagstæðum kjörum. Jeg skal játa, að jeg gæti sætt mig við, að veðdeild Landsbankans væri ein starfandi, en sje þó ekki ástæðu til að setja mig upp á móti því, að Búnaðarbankinn hafi slíka veðdeild, enda þarf ekki að skoða brtt. sem yfirlýsingu um það, að ekki eigi að setja veðdeildina á stofn, heldur er hjer aðeins um frestunarheimild að ræða, og stjórnir eru yfirleitt ekki vanar að hafa á móti heimildum sjer til handa.

Jeg vænti þess, að stjórnin reyni að útvega Búnaðarbankanum svo ódýrt fje til veðdeildarbrjefakaupa, ef í veðdeildina verður ráðist, að ríkissjóður bíði ekki halla af. Því samkv. 39. gr. er það ekki útilokað, því að þar stendur: „verði að líkindum skaðlaus af“. Er þá gott fyrir ríkisstjórnina að geta frestað stofnun veðdeildarinnar.

Jeg vjek að því við 2. umr., að það væri óviðfeldið, að sú skylda hvíldi framvegis á Landsbankanum að kaupa vaxtabrjef ræktunarsjóðs, eftir að Búnaðarbankinn hefir tekið við honum. Samkv. lögunum frá 1925 átti Landsbankinn að kaupa þessi vaxtabrjef fyrir 100000 kr. á ári í 14 ár, eða 1400000 kr. alls. Þetta hefir nú verið gert í 4 ár. En þegar öllu sambandi er slitið milli Landsbankans og ræktunarsjóðsins, er sanngjarnt að ljetta þessari kvöð af bankanum, ekki síður fyrir það, ef sjóðir úr Landsbankanum eru færðir yfir í Búnaðarbankann, eins og —stjórninni er heimilt. Finst mjer, að verja mætti því fje til að kaupa vaxtabrjef ræktunarsjóðs. Þetta er þó engin fyrirskipun til stj., heldur heimild, sem ætlast er til að hún noti, þegar Búnaðarbankinn er kominn vel á fót. Vera má, að ekki sje rjett að beita þessari heimild 2-3 næstu árin, en úr því ætti hún að koma til framkvæmda.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessar brtt., því að þær eru auðskildar og leggja engar hömlur á starfsemi Búnaðarbankans.

Þá kem jeg að till. þeim, sem slitnuðu aftan úr um daginn. Jeg skal játa, að jeg get tekið á móti stuðningi, þótt frá íhaldsmönnum sje, en jeg hefði þó óskað, að þeir hefðu fylgt mjer að málum þangað, sem ívilnanirnar til verkamanna byrja í brtt. mínum. Að vísu er það, sem samþ. var af VI. kafla við 2. umr., til bóta, en þó virðist mjer, að lánin hljóti að verða of dýr, ef við svo búið stendur. A-liður 3. brtt. á þskj. 476 er á þá leið, að lánin samkv. VI. kafla skuli endurborgast með jöfnum greiðslum, 5% af lánsupphæðinni árlega, í 42 ár. Jeg vil benda á það, að þessi lánskjör eru ekki eins góð og þau, sem byggingar- og landnámssjóður veitir.

Þá er b-liður brtt. um innheimtu árgreiðslna deildarinnar. Um þetta þurfa að vera ákvæði í lögunum, þó að þessi tilhögun sje að vísu sjálfsögð.

Þá verður og að vera ákvæði í frv., sem tryggi það, að ekki verði braskað með lánsfjeð, nje sú eign, sem skuld við deildina hvílir á, verði seld í braskskyni, því að með því er tilgangur laganna eyðilagður. Það verður að fyrirbyggja það með svipuðum ákvæðum og eru í 9. gr. 1. um byggingar- og landnámssjóð, að sú stjett, sem nýtur lána úr þessari deild, fleygi frá sjer framtíðarmöguleikum, sem þeim bjóðast, fyrir fljóttekinn stundarhagnað. Því er svo ákveðið í c-lið brtt., að ef eign er seld án samþykkis stjórnar Búnaðarbankans, falli lánið þegar í gjalddaga og verði að endurgreiða allar vaxtaívilnanir. Hjer á að vera um varanlega atvinnubót að ræða, en ekki stundargróða.

Það á í rauninni alveg hjer við, sem hæstv. núv. fjmrh. (EÁ) sagði í fyrra, þegar sumir vildu rýmka ákvæði 9. gr. í lögunum um byggingar- og landnámssjóðs. Hann sagði, að ef þessar eignir ættu að vera söluvarningur, þá væri auðvitað best að kippa takmörkununum burt, en ef eignirnar á að nota til framleiðslu, þá ættu takmarkanirnar um sölu þeirra að haldast.

Þá er d-liður brtt. Hann er almenns eðlis og hljóðar um það, að ráðherra setji reglugerð, þar sem nánar er ákveðið um stærð lands, fyrirkomulag bygginga og annað þess háttar. Jeg vildi mælast til þess, að stjórnin legði ekki svo mörg höft á lántakendur í þessum efnum, að mönnum verði gert erfitt eða ókleift að fá lán af þeim ástæðum, eins og á sjer stað um byggingar- og landnámssjóð.

Þá hefi jeg lokið máli mínu um brtt. mínar, en vil aðeins taka fram, að inn í brtt. hafa slæðst tvær prentvillur. Í 1. brtt. stendur II. en á að vera III. kafla, og í b-lið 3. brtt. er vitnað í 42. gr., en á að vera 54. gr.

Held jeg, að jeg þurfi þá ekki að segja fleira um þessar brtt., annað en það, að líklega væri rjettast, að niðurlagið á c-lið, þar sem vitnað er í 35. gr. þessara laga, væri sjerstök grein. Hefir fallið niður, að svo væri gert. Að öðru leyti mun jeg ekki ræða þessar till. nema menn leggist sjerstaklega á móti þeim, en verði þær ekki samþ., finst mjer ákvæðin um lánadeildina verða heldur snubbótt.