01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það voru aðeins örfá orð út af vegavinnunni. Hv. 4. landsk. þm. inti eftir því til viðbótar, af hverju þessi kaupmunur væri á sumar- og vorvinnunni. Jeg hjelt þó, að hv. 4. landsk. þm. væri svo vel að sjer, að hann vissi, að ríkið hefir ekki eins mikið upp úr vorvinnunni sem sumarvinnunni. Þá er klaki í jörðu, veðurfar óhagstætt, bleyta til tafa o. s. frv., svo að ríkið hefir minna gagn af þeirri vinnu. Ef litið væri á þetta eingöngu, ætti ríkið því ekki að láta gera neitt nema á sumrin, en af öðrum ástæðum hefir þótt rjett að reyna að skaffa fólki atvinnu vor og haust, af því að þá er yfirleitt minna um vinnu. Af þessum ástæðum, og reyndar fleirum, er það, að ekki er greitt sama kaup fyrir sumarvinnu og vor- og haustvinnu.

Hv. 4. landsk. þm. spurði, hví ekki væri samið við verkalýðsfjelögin. Mjer er ekki kunnugt um, að til sje neitt fjelag vegavinnumanna til þess að semja við.

Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að ríkið væri lakasti atvinnuveitandinn með að greiða kaup. Honum væri gott að athuga þetta í sambandi við sitt eigið „prógram“. Hann vill láta ríkið taka atvinnumálin í sínar hendur, þó að það greiði verst kaup. (JBald: Það er ekki sama, hvaða stj. er). Hv. þm. vill láta ríkið hafa með þetta að gera, hvaða stj. sem að völdum situr.

Í sambandi við ákvæðisvinnuna fór hv. 4 landsk. þm. mjög ómaklegum orðum um vegamálastjóra. Ákvæðisvinnan er ekki miðuð við þrældóm, heldur leggur vegamálastjóri alt kapp á, að bæði verkamennirnir og ríkissjóður hafi hag af henni. Jeg er ekki í vafa um, að það er mjög heilbrigt að hafa ákvæðisvinnu, því að menn eru nú einu sinni svo gerðir, að þeir hafa tilhneiging til að vinna „aktaskrift“. Og jeg þekki þess mörg dæmi úr vegavinnunni, að menn vilja þetta heldur.

Svo fór hv. þm. að tala um, að þessir menn væru látnir gefa ríkissjóði gjafir. Slíkir „frasar“ eru góðir á kjósendafundum, en hjer eiga þeir ekki við. Þessir menn fá ekki betra kaup annarsstaðar en þeir fá við vegavinnuna. Og margir þeirra eru svo vel innrættir, að þeim þykir sjerstök ánægja að vinna að vegagerðunum, auk þess sem þeir vinna að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. Þetta sýna bændur, sem vinna sjálfir að vegagerðum í sveit sinni, til þess að greiða fyrir eigin atvinnurekstn. Hinsvegar býst jeg við, að vegavinnumennirnir fái oftar gjafir úr ríkissjóði en það gagnstæða, en þetta á því aðeins að eiga sjer stað, að það sje öllum til hags.