01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. taldi þau ummæli mín, að ríkið greiddi lægra kaup en aðrir, til hnekkis því, sem jeg og aðrir jafnaðarmenn höldum fram. Við viljum láta ríkið taka atvinnumálin í sínar hendur og greiða sanngjarnt kaup, en það er engin von til, að verkamenn fái sanngjarnt kaup fyrir það, sem þeir vinna fyrir ríkið undir stj., sem bæði er andvíg ríkisrekstri og því að greiða sanngjarnt kaup. En þetta hlýtur óumflýjanlega að breytast, þegar jafnaðarmenn eru komnir í meiri hl.

Hæstv. forsrh. hjelt því fram, að vegamálastjórinn legði alt kapp á, að ákvæðisvinnan yrði til hagnaðar fyrir báða aðilja. Þetta er gamla orðtakið um að versla svo, að „báðir hafi hag af“. Jeg hjelt nú samt, að þessi draugur væri fyrir löngu kveðinn niður. Auðvitað er það ekki nema ríkissjóður, sem hefir hag af þessari ákvæðisvinnu, því að hún er svo hnitmiðuð, að verkamennirnir ná ekki meðaldagkaupi, nema með lengri vinnutíma en alment er og með því að leggja harðara að sjer.

Það er orðið svo áliðið, að jeg verð að láta þetta nægja. Jeg vil þó drepa á eitt atriði enn. Hæstv. forsrh. skaut sjer undir það, að ekki væri hægt að semja við vegavinnumennina, af því að þeir hefðu engan fjelagsskap með sjer. Því er til að svara, að verkalýðsfjelög eru í flestum, hjeruðum landsins. Þeirra kauptaxti er yfirleitt ráðandi í hjeruðunum, og jeg álít, að stj. ætti að semja við þau að beygja sig undir kaupgjald þeirra eins og aðrir atvinnurekendur. En ríkið er þetta verra en einstakir menn í þessum efnum.