08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Þorláksson:

Jeg á XII. brtt. á þskj. 562 ásamt hv. 4. landsk. Hún er þess efnis, að veita Ferðafjelagi Íslands 1000 kr. styrk. Fjelag þetta var stofnað árið 1927, en þó að það hafi ekki starfað nema í fult eitt ár, hefir það unnið töluvert mikið starf. Það hefir meðal annars gefið út árbók fyrir árið 1928. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá, að vekja áhuga landsmanna á ferðalögum um landið, til þess að kynnast náttúru þess og fegurð hennar. Í þessu skyni hefir fjelagið byrjað á að gefa út vandaða lýsingu af merkustu og fegurstu stöðum landsins. í fyrstu árbókinni er ein slík lýsing, af Þjórsárdal. Það er ekki tilætlun okkar, að fjelagið verði framvegis upp á ríkissjóð komið, heldur viljum við reyna að koma því svo á fót, að það geti starfað af eigin ramleik. Fjelagar voru ekki margir í byrjun, en í lok fyrsta ársins voru þeir orðnir um 400. Fjelagið vildi ekki á fyrsta árinu byrja starfsemi sína öðruvísi en það bjóst við, að hún mundi verða, þegar það væri orðið eins fjölment og ætlast má til að það verði. Þess vegna hefir það kostað meira til starfsemi sinnar en það hafði efni á. Það er ekki víst, að það geti unnið án styrks þetta ár og það næsta, en þar á eftir ætti því að vera borgið. Eins og jeg vona, að hv. þdm. skilji, er þessi liður einn þáttur í starfi, sem orðið er nauðsynlegt, eftir að fólk er farið að safnast saman í fjölmenna kaupstaði. Það verður að gera einhverjar ráðstafanir til þess að það fólk verði ekki viðskila við náttúru landsins og verði andlega og líkamlega mennilegt. Að vísu hafa áhugamenn vakið hjer íþróttalíf til mikils myndarskapar, en það, að koma kaupstaðarbúum í ferðalög út um land, er engu að síður nauðsynlegt. Ferðafjelagið vill og beita sjer fyrir því, að slíkum kynningarferðalögum verði hagað svo, að þau verði ekki á neinn hátt til óþæginda fyrir sveitafólkið, með því að láta menn sem allra mest sjá um sig sjálfa að því er allan aðbúnað snertir. Við hv. 4. landsk. sem báðir erum í stj. þessa fjelags viljum beina þeirri ósk til hv. dm., að þeir líti mildum augum á þessa litlu brtt., sem við vonum, að þurfi ekki að verða föst árleg útgjöld, heldur aðeins hjálp þetta árið og næsta ár.

Af öðrum till., sem fram eru komnar, er bara ein, sem mjer finst vera ástæða til að gera að umtalsefni, en það er till. hv. fjvn. nr. 16 á þskj. 540, um að fella niður lítinn styrk, sem Nd. hafði samþ. til gagnfræðaskóla Reykjavíkur. Jeg tók eftir ummælum hv. frsm. n. um þetta og fanst þau bera þess vott, að ekki hefðu legið fyrir nógu ítarlegar upplýsingar um þetta mál. Hann sagði, að hinn svo kallaði gagnfræðaskóli væri sjerskóli fyrir einstaka menn, sem þeir gætu haldið uppi styrklaust, enda hefðu nemendur átt kost á að fara aðra leið, ef þeir hefðu viljað njóta ríkisstyrks. En þessi skóli er svo til kominn, að vorið 1928 var ákveðið af kenslumálaráðuneytinu að veita ekki viðtöku nema einum bekk í gagnfræðadeild mentaskólans. Nú var gagnfræðadeildin sá gagnfræðaskóli, sem Reykvíkingar áttu helst aðgang að og aðrir nærsveitamenn. Jeg ætla ekki í sambandi við þessa fjárveitingu að deila neitt á kenslumálaráðuneytið fyrir þessa ráðstöfun. Því var borið við, að húsrúm leyfði ekki fleiri nýja nemendur. Það var að vísu rjett, en þessi ráðstöfun var alveg óvenjuleg að því leyti, að snögglega var færður niður til hálfs sá nemendafjöldi, sem árlega hafði fengið inngöngu í skólann. Til að bæta úr þessu var það ráð tekið að setja upp sjerstakan skóla fyrir þá, sem höfðu staðist inntökupróf í mentaskólann, en ekki fengið nógu hátt próf til að fá að komast í skólann. Og það hefir verið svo mikil aðsókn að þessum nýja skóla, að honum hefir verið skift í tvo bekki.

Þegar litið er á það, hvort þessi fjárveiting er sanngjörn eða ekki, má benda á það, að hver bekkur í hinum almenna mentaskóla kostar ríkissjóð 8–10 þús. kr. Og þó að ekki sje litið til annars en þess, að einum bekk hefir verið neitað um inntöku í mentaskólann, er það ekki kostnaðarsöm ráðstöfun að greiða 2000 kr. fyrir að vera laus við þann bekk úr mentaskólanum. Þá má bæta því við, að ef gerður er samanburður við hjeraðsskólana eða frv. stj. um gagnfræðaskóla í Reykjavík og á Akureyri, er 1000 kr. styrkur á bekk töluvert lægri en þar er gert ráð fyrir. Þar er minst gert ráð fyrir 1600 kr. á bekk, auk framlags í kaupi fastra kennara.

Að nemendur hefðu getað snúið sjer í skóla þann, sem stofnaður var á síðasta þingi, er því að svara, að sá skóli var húsnæðislaus og ekki vel útbúinn. Til hans var ekkert lagt af því opinbera, nema tveir kennarar. En aðalatriðið er þó það, að sá skóli hefir annað markmið en að búa nemendur undir inntöku í hinn almenna mentaskóla. Margir af þeim nemendum, sem stóðust inntökupróf í mentaskólann, vilja búa sig undir að ljúka gagnfræðaprófi, til þess að geta haft rjett til að halda áfram námi í mentadeild mentaskólans. En bráðabirgðaungmennafræðslan hefir ekki það markmið. Það eru því góðar og gildar ástæður til þess, að gagnfræðaskólinn var stofnaður. Og það er ekki nema fjárhagsljettir fyrir ríkissjóð að styrkja skólann með 2000 kr., á móts við það, ef nemendur hans hefðu farið í ungmennaskólann.

Mjer þótti leiðinlegt að heyra þá fullyrðingu, að skólinn væri sjerskóli fyrir einstaka menn, og þá var auðvitað átt við efnamenn. En það er nú ekki svo, að það sjeu eingöngu börn efnamanna, sem verða fyrir því óhappi að tilheyra neðri helming þeirra, sem standast inntökupróf. Skólann hafa sótt jöfnum höndum börn efnaðra og fátækra manna, og ekki einungis bæjarmanna. Það væri kannske mögulegt, að bæjarmenn gætu kostað skólann af eigin ramleik, en mjer finst ekki sanngjarnt að neita Reykvíkingum um þetta. Þegar litið er til þess, hversu miklar tekjur ríkissjóði aflast vegna atvinnu Reykvíkinga. Reykvíkingar hafa int sín gjöld af hendi með glöðu geði, og þá er leiðinlegt, að ríkissjóður skuli ekki geta greitt svona lágan og sanngjarnlegan styrk til kenslu, sem reynslan hefir sýnt, að nauðsynlegt er að halda uppi, þar sem aðsókn hefir orðið svo mikil að skólanum sem raun ber vitni um. Jeg vænti þess fastlega, að hv. d. geti látið þessa upphæð standa.