08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Jónsson:

Mjer þótti vænt um það sem form. fjvn. að fá þakklæti frá hæstv. fjmrh. fyrir afgreiðslu fjárl. Jeg átti ekki von á beinu þakklæti, því að jeg álít skyldu mína að afsaka, hvað fjvn. rak starfið áfram, en það var að miklu leyti mjer að kenna. Starf fjvn. tel jeg hiklaust vera merkasta starfið, sem Alþingi hefir með höndum. Jeg get að talsverðu leyti tekið undir það með einum gömlum og reyndum fyrv. þm., sem komst svo að orði, að hvert það þing, sem færi sæmilega með fjármálin, teldi hann vera gott þing, hvernig svo sem það færi með önnur mál, en það þing, sem afgreiddi fjármálin illa, teldi hann vont þing, þó að það að öðru leyti hefði unnið að ýmsum umbótum. Jeg álít, að það sje eitt aðalatriðið til þess að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar, að fjármál hennar sjeu í góðu lagi. En jeg á ekki eingöngu við það, að sem mestu sje safnað í ríkissjóðinn, heldur engu síður, að ýmsar ráðstafanir sjeu gerðar þjóðinni til heilla og tekjur og gjöld að minsta kosti látin standast á.

Það, sem olli því, að brýn nauðsyn var að flýta starfi fjvn., er það, hvað orðið er áliðið þings. Eins og hv. frsm. tók fram, voru liðnir 75 dagar af þingtímanum, þegar fjárl. komu hingað. Það er líklega einsdæmi í sögu Alþingis. Jeg hefi ekki rekið mig á, að það hafi nokkru sinni tekið meira en 60 daga fyrir Nd.afgr. fjárlögin. Jeg er ekki beinlínis að segja þetta í ásökunarskyni við hv. Nd. Hún hefir sennilega gildar afsakanir fram að færa, en þó var það að ýmsu leyti óheppilegum vinnubrögðum að kenna, hversu seinlega þetta gekk. Á jeg í því efni einkum við eldhúsdagsumr., sem stóðu miklu lengur nú en áður hefir tíðkast, og var aðallega andstæðingum stj. um að kenna. En það skiftir auðvitað ekki mestu máli, hvort þingið stendur yfir vikunni lengur eða skemur. Hitt er aðalatriðið, að meðferð málanna sje góð. Ef litið er á meðferð Nd. á fjárl., má segja, að hún sje sæmileg, en ekki heldur meira. Þegar fjárl. komu frá hæstv. stj., var tekjuafgangur rúmar 50000 kr. Nd. hækkaði tekjuhliðina um 650 þús., en samt skilar hún fjárl. með 47700 kr. tekjuhalla. Gjöldin hafa sem sje aukist um 750 þús. kr., og það er æðimikið.

Það skal þó viðurkent, að rúmar 300 þús. af þessari gjaldahækkun eru leiðrjettingar á lögboðnum gjaldaliðum (berklavarnakostnaði, jarðræktarstyrk, til sýsluvegasjóða), sem reynsla síðasta árs sýndi að voru of lágt áætlaðar hjá stj.

Mjer skildist á hv. þm. Seyðf., að hann áliti tekjuáætlunina svo varlega, að óhætt mundi að auka útgjöldin til nokkurra muna. Jeg álít, að áætlunin sje það teygð, að hún samsvari þeim tekjum, sem gera má ráð fyrir á góðu meðalári. Í því efni má ekki miða við síðastliðið ár, því að það var svo óvenjulega gott. Hinsvegar vil jeg benda á, að það, sem kann að fara fram úr því, sem tekjurnar eru áætlaðar, mun ekki reynast of mikið til þess að mæta sjálfsögðum og auknum útgjöldum, t. d. vegna alþingishátíðarinnar 1930. Þá er enn eitt, sem ekkert tillit hefir verið tekið til, og það eru útgjöld, sem ákveðin eru með sjerstökum lögum og verða sjálfsagt ekki minni en á annað hundr. þús. kr., þó að ekki verði framkvæmt neitt af þeim hafnarlögum, sem þingið hefir samþ. og nema miklum útgjöldum fyrir ríkissjóð. Það er augljóst, að tekjurnar verða ekki auknar með því að hækka tekjuáætlunina. Þess vegna verður þingið að fara varlega í það og ekki lengra en þm. geta með góðri samvisku varið.

Jeg hygg, að í þessum fjárl. sje áætlað miklu meira en venja hefir verið áður til verklegra framkvæmda, eða um 3 milj. kr., og það er gott og ánægjulegt. Ef útgjöldin hækka til muna í meðferð þessarar hv. þd., þá er nú samt ekki annað ráð fyrir höndum en að ráðast á hinar verklegu framkvæmdir og klípa af framlögum til þeirra, því að helst af öllu megum við til að afgr. fjárl. án tekjuhalla.

Þetta eru nú aðeins almennar aths. um fjárlfrv.; jeg er svo heppinn að eiga sjálfur enga brtt. við það. Annars ætla jeg ekki að ganga fram fyrir skjöldu og mæla fyrir hv. frsm., sem mun svara rækilega fyrir sig, enda flutti hann glögga og rækilega ræðu um till. fjvn.

Jeg get þó ekki stilt mig um að minnast á eina brtt., III. á þskj. 562, frá hv. þm. Seyðf. og hv. 4. landsk., sem jeg held, að sje stærsta brtt. við fjárl. við þessa umr., og fer hún fram á, að veittar verði 27 þús. kr. til akvegar yfir Fjarðarheiði, gegn 3000 kr. annarsstaðar frá. Og þegar af þeirri ástæðu, að hún er stærsta till., verður að athuga hana sjerstaklega. Ef hún verður samþ., þá er því um leið slegið föstu, að það verði ekki aðeins þessar 27 þús. kr., sem um er að ræða, heldur stórkostleg útgjöld, þegar áfram verður haldið. Þá er full ástæða til að athuga, hvort nauðsyn sje til þessarar vegalagningar og hvort hún muni koma að miklu gagni. Eins og kunnugt er, þá er þarna um að ræða stórt og blómlegt hjerað, sem fyrir nokkrum árum hefir fengið akvegarsamband við Reyðarfjörð. Sú braut liggur eftir Fagradal, sem er brattaminsta leiðin upp á hjeraðið og er um 35 km. á lengd. Nú vilja flm. þessarar till. fá akveg yfir Fjarðarheiði, sem mun vera 271/2 km. á lengd. Þessar akbrautir skerast undir eins og kemur upp í hjeraðið. Nú vil jeg spyrja hv. þdm. og flm. þessarar till., hvort það sje forsvaranlegt að leggja fje til tveggja akbrauta frá kauptúnum upp í þetta hjerað, meðan akvegir eru ólagðir víða um land. Jeg held, að hjeraðinu sje vel borgið með einni braut frá kauptúni, og því er miklu meiri nauðsyn á víðtækari akvegum innan hjeraðs en tveimur vegum út úr því til hafnar. Á Hjeraði vantar víða vegi, t. d. veit jeg ekki betur en vanti akfæran veg heim að Eiðaskóla. Þá er á það að líta, hvort hjeraðið verður meiri gæða aðnjótandi með því að fá akvegarsamband við Seyðisfjörð heldur en það hefir nú með sambandi við Reyðarfjörð. Það hygg jeg, að ekki geti komið til mála. Að því er verslunina snertir má geta þess, að á Reyðarfirði starfar eitt af bestu kaupfjel. á landinu, Kaupfjelag Hjeraðsbúa. Jeg hygg, að eins gott sje fyrir sveitirnar að fá keypt fiskiföng á Reyðarfirði eins og á Seyðisfirði. Um markað fyrir landbúnaðarafurðir Hjeraðsbúa mun engu síður heppilegt að vera í sambandi við. Reyðarfjörð en Seyðisfjörð. Frá Reyðarfirði er langt komið akvegi til Eskifjarðar og fyrirhuguð vegasambönd við Neskaupstað í Norðfirði. Syðri leiðin opnar víðtækari markaðssamband fyrir Hjeraðsbúa en sú nyrðri. Aftur á móti má segja, að fleiri skip komi til Seyðisfjarðar en Reyðarfjarðar, en jeg hygg, að það hafi ekki sjerstaka þýðingu, vegna þess að reglulegar strandferðir aukast nú óðum. Þess vegna get jeg ekki sjeð, að hjeraðið hafi neina sjerstaka þörf fyrir þennan veg eða það verði betur sett, þó að hann komi. Munurinn á þessum vegalengdum er aðeins 71/2 km., og skiftir það ekki miklu máli og getur engan mun gert á flutningskostnaði. Jeg hefi kynt mjer umsögn vegamálastjóra um vegastæðin; leiðin yfir Fjarðarheiði er miklu brattari og erfiðari fyrir vagna, hallinn er 1:8 eða máske 10; á syðri leiðinni — Fagradalsbraut — er hallinn helmingi minni, Auk þess mundi nyrðri leiðin verða ófær vögnum meiri hluta ársins, vegna þess að vegurinn liggur svo hátt; á 4 km. löngum kafla verður hann 600 m. yfir sjávarflöt, samkv. því, er stendur í skýrslu vegamálastjóra. Aftur á móti er Fagradalsbrautin ekki meira en 200 m. yfir sjávarflöt. Verkfræðingur, sem var á ferð yfir Fjarðarheiði um mánaðamótin júní og júlí síðastl. sumar, sagði, að þá hefði á nokkrum stöðum verið snjór og ófærð fyrir hesta á veginum. Og þó var þetta í góðu árferði. Af því má marka, að hvaða gagni slíkur vegur kæmi í vondri tíð og úrkomusumrum. Brautin yrði í hæsta lagi nothæf 3 mánuði af árinu fyrir vagna. Og þó er ekki alt sagt enn. Þessi vegur, sem er aðeins fullir 27 km., er áætlað, að muni kosta 400 þús. kr., og mundi það því verða einn allra dýrasti vegurinn á landinu. Hvaða vit er nú að leggja í þetta, þegar svo mikið er ólagt af vegum um sveitirnar, og þar sem ekki er sjáanlegt, að vegurinn komi að meira gagni en þegar er bent á? Auk kostnaðarins við að leggja veginn yrði viðhaldið gífurlegt. Einhver kann nú að segja, að hjer sje ekki alt tekið til athugunar; það þurfi líka að líta á þetta mál frá sjónarmiði Seyðfirðinga. Það er hvorttveggja, að Seyðisfjörður er lítill kaupstaður, enda á að taka tillit til sveitanna, en ekki kauptúnanna um lagningu vega. Seyðisfjörður hefir mjög góðar samgöngur á sjó í allar áttir, svo að óþarft er að miða þetta samgöngutæki við hann. Því hefir verið hampað, að mikill áhugi væri á þessu máli þar eystra, og vera má, að þetta kunni að verða til einhverra hlunninda fyrir Seyðisfjörð, en jeg tel ekki nauðsynlegt að kosta svona miklu til að fullnægja því. Vitanlega má altaf safna áskorunum meðal almennings um, að ríkissjóður leggi fram fje til slíkra fyrirtækja sem þessa, ef menn þurfa ekki sjálfir að leggja fram fje á móti. Nú hefir verið á það bent, að Seyðfirðingar hafi lofað að leggja eitthvað lítilræði fram til þessa vegar, en jeg lít svo á, að það fje gætu þeir lagt í eitthvað annað, sem þeim væri þarfara en þessi brautarbygging. Þeim getur varla verið svo mikil nauðsyn á að losa sig við peninga í jafnvafasama framkvæmd. Mjer skildist á hv. þm. Seyðf., að áhuginn væri aðallega á Seyðisfirði, enda mun hann vera lítill annarsstaðar. Mjer hefir skilist á vegamálastjóra, að hann væri sömu skoðunar um, að lítið vit væri í þessari vegalagningu eins og nú stæði. Að vísu gerir hann ráð fyrir, að vegurinn kunni að verða lagður einhverntíma, en það eigi alls ekki að láta hann ganga fyrir öðrum vegum, sem að kalla. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer kafla úr áliti vegamálastjóra, sem sýnir þetta:

„Um nauðsyn þessa vegar þá vil jeg taka þetta fram: Að Fljótsdalshjeraði er nú akvegur um Fagradal til Reyðarfjarðar. Er það að vísu heldur lengri leið til hafnar en um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar, en þess gætir þó engan veginn í þessu sambandi, enda yrði vegurinn um Fjarðarheiði miklu örðugri vegna bratta og á kafi í snjó miklu lengri tíma að vetrinum. Hjeraðinu væri vitanlega talsverður hagur í að fá góðan akveg til Seyðisfjarðar, vegna viðskifta bæði við kaupstaðinn og þau skip, sem eru æðimörg, er þar koma. Hinsvegar er það auðvitað Seyðisfjarðarkaupstaður, sem mundi hafa hag af að fá greiðar samgöngur í þessa bestu sveit Austurlands. Jeg lít svo á, að þessa akbraut beri að leggja, en jeg sje ekki, að unt verði að hefjast handa á næstunni án þess að draga fje frá öðrum vegabótum, sem að mínu áliti verða að sitja fyrir“.

Þetta er hans álit, að vegurinn eigi ekki rjett á sjer meðan jafnmikið er ógert af öðrum akvegum. Jeg tel, að þetta skifti alls engu máli fyrir hjeraðið, og þegar spilin liggja þannig, að mismunur á vegalengdunum er ekki nema rösklega 7 km., þá er með öllu óhæfilegt að leggja í þetta fyrirtæki. Læt jeg svo útrætt um þetta atriði að sinni, en sný mjer með örfáum orðum að tveimur öðrum brtt.

Fyrri till. er frá hv. 4. landsk., um 1000 kr. utanfararstyrk til eins læknis, hin till. er frá fjvn., um 1000 kr. hækkun á utanfararstyrk lækna. Það er að vísu vorkunn, þó að slíkar till. komi fram um fjárveitingar til einstakra manna; en jeg greiði atkv. á móti þessum till. báðum og álít, að þær eigi að falla, einkum vegna þess, að þær geta dregið stóran dilk á eftir sjer. Það er betra að hafa aðeins eina upphæð í fjárl., sem heilbrigðisstjórnin ráðstafar í þessu augnamiði, heldur en að þm. sjeu að bítast um einstakra manna styrki. Jeg skal ekki beinlínis setja mig á móti því, að upphæðin til utanfararstyrkja hjeraðslækna verði hækkuð lítið eitt, en jeg leyfi mjer að óska eftir því, að aths. verði feld niður.

Jeg get verið þakklátur hv. 4. landsk. fyrir það, að hann hefir tekið upp till. um styrk til Jóns Leifs, til þess að undirbúa starfsemi við væntanlegt ríkisútvarp. Jeg hefi, eins og flestir sveitamenn, gert mjer miklar vonir um ríkisútvarpið og vænti, að stj. komi því sem fyrst í framkvæmd, og þá veltur mikið á, að sem best sje til þess vandað. Jón Leifs hefir getið sjer góðan orðstír sem hljómsveitarstjóri og verið viðurkendur af erlendum fræðimönnum á því sviði. Hann stendur nú á tímamótum og vill vinna þjóð sinni sem mest gagn á þessu sviði. Að öðrum kosti verður hann að gerast ríkisborgari í öðru landi, til þess að geta fengið þar fasta stöðu. Jeg held, að honum falli það mjög þungt, ef hann fengi ekki að neyta sín hjer heima, og mjer er ekki grunlaust um, að þjóðin mundi sjá eftir því síðar. Jeg vona því, að þessi upphæð verði samþ. Það er í fullu samræmi við þær áskoranir, sem stj. hefir fengið um eð útvega sem besta starfskrafta til útvarpsins, ef hún tryggir því krafta þessa manns.

Jeg vil aðeins geta þess út af því, sem hv. 1. þm. G.-K. sagði um Flensborgarskólann, að hv. Nd. hefði sett inn sjerstaka fjárveiting til hans með miklum atkvæðamun, að þá er það rangt, en hitt rjett hjá mjer, að fjárveitingin var samþ. með eins atkv. mun. (BK: Það er rjett hjá báðum). Jæja, við skulum segja það. Jeg held, að hv. þm. þurfi ekki að vera mjög syrgjandi. Flensborgarskólinn fær sitt tillag; en vitanlega er hann alls ekki sambærilegur við Eiðaskóla eða gagnfræðaskólann á Akureyri, vegna þess að þeir eru ríkisskólar, en það er Flensborgarskólinn ekki. Annars vænti jeg, að hv. frsm. svari þessu, og þarf jeg ekki að segja fleira um það.