08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

16. mál, fjárlög 1930

Björn Kristjánsson:

Jeg gleymdi í dag, er jeg stóð upp, að minnast á svar hv. frsm. Hann sagði, að það væri ekki meining hv. fjvn. að rýra tillag til Flensborgarskólans með brtt. sinni. Getur vel verið, að það sje meining hv. n., en það er bara engin trygging fyrir því, að það verði ekki gert. Hv. frsm. færði enga ástæðu fyrir þessu aðra en þá, að það væri vilji stj., að þessu væri breytt. En það var sjerstaklega eitt atriði, sem tekið var fram í nál„ sem jeg gleymdi að svara, og viðvíkjandi því vil jeg lesa upp nokkur orð með leyfi hæstv. forseta.

Þar er sagt: „Þá telur nefndin rjett, að Flensborgarskóli verði háður samskonar eftirliti fræðslumálastjórnarinnar og aðrir skólar landsins. Leggur því til, að fjárhæð sú, 16000 kr., sem þeim skóla er ætluð sjerstaklega í frv., færist yfir á þann lið, sem ætlaður er unglingaskólum utan Reykjavíkur, og lúti sömu skilyrðum“.

Þetta er misskilningur, sem jeg vildi leiðrjetta. Eins og gjafabrjefið er orðað, hefir stj. alveg á valdi sínu, hvernig þessum skóla skuli hagað. Þessu til sönnunar vil jeg leyfa mjer að lesa upp 3. málslið gjafabrjefsins. Hann hljóðar svo:

„Fje skólans og skólinn sjálfur skal vera undir stjórn landshöfðingjans yfir Íslandi; semur hann stofnskrá og reglugerð fyrir skólann, skipar kennara skólans, og ef honum svo sýnist, nefnir mann til að stjórna fje hans“.

Hjer er alt vald lagt í hendur stj., eins og menn sjá, svo að það er ekki í veginum fyrir því, að skólinn verði styrktur eins og að undanförnu, að stj. hafi ekki fult vald yfir honum.

Tveir hv. þm. hafa orðið til að vjefengja það, að fjárveitingin til skólans, hafi verið samþ. með 20:4 atkv. Í hv. Nd„ eins og jeg skýrði frá í ræðu minni í dag. Jeg tók þetta upp úr gerðabók hv. Nd„ og að jeg hafi einungis talað um hina beinu fjárveitingu, get jeg staðhæft, vegna þess að jeg hafði það skrifað, sem jeg sagði um þetta. Hæstv. dómsmrh. kom einnig inn á þetta atriði. Hefir hann barist með hnúum og hnefum fyrir því, að þessi till. hans yrði samþ. 1 hv. Nd. hjelt hann 3 ræður á móti skólanum, en þrátt fyrir það samþ. hv. Nd. svo að segja í e. hlj. að veita skólanum sama styrk sem að undanförnu (16 þús. kr.) skilyrðislaust.

Þá skýrði hæstv. dómsmrh. frá því, hversu lofsamlega Mýrasýsla hefði vikist við málaleitan hans um lýðskóla í Reykholti. Hefði hún lofað að leggja fram til hans 30 þús. kr., og væru líkur fyrir, að Borgarfjarðarsýsla mundi leggja fram annað eins.

Jeg vil nú leyfa mjer að spyrja: Eiga þessar sýslur 30 þús. kr.? Og hvar eiga þær að taka þær, ef þær hafa þær ekki, nema úr ríkissjóði? Er þessi upphæð í þessu skyni ekki nokkum há til viðbótar þeim gjöldum, sem sýslurnar hafa fyrir? Og getur ekki farið svo, að ríkissjóður verði að gefa sýslunum eftir þessa skuld síðar meir? Annað eins hefir komið fyrir.

Engu að síður álít jeg, að hæstv. dómsmrh. hafi gert rjett í því að leitast fyrir um það, hvað sýslurnar mundu vilja láta af mörkum til þessa skóla. En hví hafði hann ekki sömu aðferð í þessu máli? Hví vill hann fyrirvaralaust með lagaboði skipa Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu að leggja fram ákveðna fjárupphæð til Flensborgarskólans?

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði, að Flensborgarskólinn ætti að vera hliðstæður öðrum unglingaskólum. Jeg lýsti því í minni fyrri ræðu, að skólinn væri stofnaður og gefinn sem gagnfræðaskóli. Það kemur því í bága við gjöfina, ef skólinn verður gerður að tveggja ára unglingaskóla. Flensborgarskólinn hefir verið óskiftur þriggja ára skóli í mörg ár. Jeg skoða það því svo, sem verið sje að setja skólann aftur á bak, auk þess sem það kemur beinlínis í bága við tilgang gefandans, ef fara á að gera skólann að tveggja ára skóla. (PH: Hann hefir verið það). Skólinn hefir aldrei verið og verður aldrei hliðstæður Núpsskólanum. Síðan Akureyrarskóli var stofnaður hefir hann verið hliðstæður honum og ríkið lagt skólanum rekstrarfje, þótt af skornum skamti hafi verið.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að skólinn hefði verið vanræktur bæði af sýslunum og Hafnarfirði. Því þá það? Af því að þessi hjeruð álíta skólann sjer óviðkomandi, með því að ríkið borgar viðhald hans og rekstur. Og finst hæstv. dómsmrh. ekki rjettara að fara þá leið, að leita undirtekta sýslnanna um fjárframlög til skólans. eins og hann gerði um Mýra- og Borgarfjarðarsýslur, heldur en að fara kúgunarleiðina? Að minsta kosti hefir hv. Nd. litið svo á.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að skólinn væri á slæmum stað, þar sem hann stæði við höfnina og hefði engan leikvöll. Þetta er skoðun hæstv. ráðh., en Hafnfirðingar líta nú svo á, að skólinn sje á ágætum stað, og hann er gefinn til þess að vera framtíðarstofnun á þessum stað. Og skólinn hefir nóga lóð fyrir leikvöll þar sem hann er. Jeg verð að segja það, að jeg kann ekki við þessar eilífu ásakanir í garð sýslnanna og Hafnfirðinga. Hæstv. ráðh. talar um, að þær hafi ekki sýnt mikla fórnfýsi gagnvart skólanum. Hvað veit hann um það, hvað þessi hjeruð vilja leggja á sig fyrir skólann? Hann hefir ekki snúið sjer til þeirra með neitt slíkt. Jeg veit ekki til þess, að borið hafi neitt á sjerstakri fórnfýsi hjá Mýrasýslu gagnvart hjeraðsskólanum þar, fyrr en hæstv. dómsmrh. fór að nugga sjer upp við sýsluna og fala fjárstyrk af henni til skólans.

Þá sagði hæstv. dómsmálaráðherra, að skólinn væri að grotna niður. Þetta er ekki rjett. Skólinn er í góðu lagi, en íbúðarhúsin eru orðin hrörleg, enda hefir ekki verið gert við þau verulega í meira en mannsaldur, vegna þess að ríkissjóður hefir ekki fengist til að veita fje til skólans í þessu skyni. Jeg er hinsvegar viss um, að menn læra nú alveg eins mikið í gamla skólanum eins og þó þarna risi upp „moderne“ skóli. Margir ágætismenn íslenskir hafa starfað í lakari húsakynnum en Flensborgarskólinn hefir upp á að bjóða. Þannig skrifaði Gísli Konráðsson sínar mörgu og merku ritgerðir uppi á bæjardyralofti og naut sín fullkomlega, þótt hann hefði ekki betri aðbúnað. Það skiftir sem sje engu máli, þótt það sje ekki fyrsta „klassa“ hús, sem menn læra í.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það hefði verið haldinn fundur um þetta mál í Hafnarfirði. Ef jeg man rjett, mun hann hafa haldið þar fyrirlestur með umr. á eftir. En hví flutti hæstv. ráðh. þetta mál einungis við Hafnfirðinga, en ekki við sýslurnar? Jeg veit, að hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því á þessum fundi, hvílík ósköp hann ætlaði að gera fyrir skólann, en eftir því sem jeg hefi heyrt, geðjaðist Hafnfirðingum ekki að þessum till. hans, sjerstaklega þar sem hann vill demba 1/3 af skólakostnaðinum á bæinn, en Hafnarfjörður er nú aðskilinn frá sýslunum, svo að það er hætt við, að þær fáist ekki til að leggja fram fje í þessu skyni, enda eru sýslurnar skuldum hlaðnar út frá öðrum þörfum. Þær hafa tekið lán undir drep, til þess að leggja vegi um hjeraðið, og mjer er óhætt að fullyrða, að þess var meiri þörf en annarsstaðar á Suðurlandi. Af þessum lánum þurfa sýslurnar nú að standa straum, svo að það er ekki vafi, að þær eiga erfitt með að taka á sig 30 þús. kr. hvor til þessa skóla, enda er það óþarfi, þar sem skólinn er til og fullkomlega nægur fyrir þessi hjeruð, ef gert verður við hann.

Jeg tók það fram í upphafi, að jeg teldi það betri leið og heillavænlegri, að leitað væri hófanna við Hafnarfjörð um það, hvað bærinn vildi láta af mörkum við skólann, áður en þessi fjárveiting er feld niður. En sjálfur er jeg viss um það, að hagur Hafnarfjarðar er þannig, að meiri ástæða er til að ljetta á skuldum hans en bæta við þær. Og jeg veit, að fleiri munu líta svo á það mál, þegar til alvörunnar kemur. Jeg vænti þess því, að þessi fjárveiting fái að standa óbreytt og að till. hv. fjvn. verði feld. Jeg mun ekki fara að þjarka við hæstv. dómsmrh. út af þessu máli. Hann getur farið um það eins mörgum orðum og hann lystir, en jeg er orðinn of gamall maður til þess að geta átt í þjarki um svo einfalt og óbrotið mál sem þetta er.