08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Þorláksson:

Jeg finn ástæðu til að svara hv. frsm. nokkrum orðum út af því, sem hann sagði viðvíkjandi styrknum til gagnfræðaskóla Reykjavíkur, sem n. leggur til að falli niður og við höfum nú heyrt, að mentamálafrömuðinum, hæstv. dómsmrh., er töluvert ant um að fella.

Hv. frsm. komst svo að orði, að sá skóli væri til orðinn utan við það skipulag, er Alþingi hefði ákveðið skólamálunum. Þetta má til sanns vegar færa, en sá viðburður, er stofnun skólans olli, var þá ekki síður fyrir utan það skipulag. Sá viðburður var það, að kenslumálastjórnin sá ástæðu til að loka til hálfs gagnfræðadeild mentaskólans. Það hefir verið deilt á þá ráðstöfun, en jeg skal hjer aðeins benda á, að afleiðingin hlaut annaðhvort að verða sú, að fólk það, sem inntökupróf stóðst, en var síðan synjað um inntöku í skólann, varð að hætta við það nám, er það hafði ætlað sjer að stunda, eða þá að sjá varð því fyrir kenslu annarsstaðar. Sú leið var valin, að stofna nýjan skóla, til að sjá því fólki fyrir kenslu, er hana vildi fá í gagnfræðadeildinni og hennar hefði notið, ef hæstv. dómsmrh. hefði ekki sjeð ástæðu til að neita því um inngöngu. Hvorttveggja þetta er utan við það skipulag, er sett hafði verið af þingi og stjórn.

Hv. frsm. bar ekki á móti því, er jeg hafði upplýst það, að kenslu þá, er þetta fólk vildi njóta, var ekki að fá í neinum öðrum skóla í bænum En hæstv. dómsmrh. hjelt því fram, að sömu kenslu væri að fá í skóla þeim, sem stofnaður var á síðasta þingi með lögunum um bráðabirgðaungmennafræðslu í Reykjavík. En til að sjá, að þetta er ekki rjett, þarf ekki nema líta í lögin og bera ákvæði þeirra um, hvað kent skuli, saman við kensluskrá gagnfræðadeildar mentaskólans. Þá geta menn sjeð, að þar fer tvent ólíkt, sem ekki er heldur að furða, því með ungmennaskólanum er stefnt að öðru fræðslutakmarki en með gagnfræðadeildinni. Það er því mishermi, að menn geti leitað til ungmennaskólans til að fá þá fræðslu, er fæst í gagnfræðadeildinni. Það þarf ekki annað en benda á, að námstími ungmennaskólans er tvö ár og skólaárið þó styttra en í gagnfræðadeild. Að vísu er sumt af bóklega náminu sameiginlegt, en þó er mörgu hagað öðruvísi, t. d. kend þar vinnubrögð, svo sem netabætingar, sem eru hagnýt fyrir menn til undirbúnings undir frumframleiðsluna, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það á síðasta þingi, en eru ekki kend í gagnfræðadeild mentaskólans.

Það er því ekki góðgirnisleg staðhæfing hjá hæstv. dómsmrh., sem vel þekkir þessar ástæður, er hann ber það fram, að skólinn sje stofnaður af aðstandendum þeirra tossa, er ekki stóðust inntökupróf mentaskólans, flokksbræðrum mínum, er ekki vildu setja sín börn á bekk með fátækra manna börnum. Það er alveg gripið úr lausu lofti.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri svívirðileg frekja og hroðalegur aumingjaskapur — eins og hann orðaði það á sínu sjerkennilega þingmáli — af aðstandendum þessa skóla að sækja um lítilfjörlegan styrk af opinberu fje. Jeg verð að segja, að henni sje dálítið misskift velvild hæstv. ráðh. í fræðslumálum. Í dag heyrðist mjer hann telja það lofsamlegt annarsstaðar, er menn vildu leggja eitthvað á sig til að halda uppi skólum. Það er gert hjer. Þeir menn, sem að skólanum standa, hafa lagt það fram, að sjálfsagt er og eðlilegt, að hið opinbera ljetti undir með þeim. En þá verður dálítið annað uppi á teningnum. Þegar „flokksmenn mínir“ hjer í Reykjavík sækja um styrk til skóla, sem þeir hafa stofnað, þá er það svívirðileg frekja. Og þó njóta allir aðrir skólar í landinu opinbers styrks.

Nei, jeg held, að hæstv. dómsmrh. ætti að geyma orðbragð sitt, — sem minnir á það, sem stöku sinnum, en þó sjaldan, heyrist í götustrákahópi — til annara tækifæra, en beita því ekki á þá menn, sem hafa beitt sjer fyrir, að fjöldi ungmenna eigi kost á þeirri fræðslu, sem þeir óska eftir og hafa stefnt að með því að taka inntökupróf í gagnfræðadeild mentaskólans.

Hæstv. ráðh. getur ekki gengið þess dulinn, að ósamræmi eins og hjer kemur fram verður til að drepa niður alla trú á, að nokkur einlægni sje á bak við alt hans tal um áhuga sinn á mentamálum. Út af lokun gagnfræðadeildar mentaskólans er nú vitanlega sprottin æðimikil beiskja í garð hæstv. ráðh. Það myndi hafa mildað þessa beiskju nokkuð, ef hæstv. ráðh. hefði þá sýnt víðsýni og hefði tekið vel í það, að hið opinbera legði nýja skólanum nokkurn styrk, ef aðstandendur þessara ungmenna legðu nokkuð á sig á móti, en þetta víðsýni vantaði hjá honum. Við höfum heyrt hæstv. ráðh. ausa fúkyrðum yfir aldursforseta þessa þings hjer í kvöld, fyrir það eitt, að hann vildi láta styrk til Flensborgarskólans halda sama formi og hann hefir haft áður, og þetta styrkir þá ályktun, að það sjeu frekar skaplestir en mentamálaáhugi, er stjórni gerðum hans í skólamálum, þegar kemur í kjördæmi andstæðinga hans. Jeg ætla ekki að fara að tína upp öll þau viðbjóðslegu fúkyrði, sem hæstv. ráðh. viðhafði, en það vill svo vel til, að hjer voru menn, sem hlustuðu á báða ræðumenn og heyrðu hin stillilegu og kurteislegu orð hv. 1. þm. G.-K., sem rökstuddi mál sitt með því að lesa upp skjöl, sem þýðingu höfðu fyrir málið, og svo ofsa þessa aumkunarverða ráðh., sem er ekki fær um að stjórna sjálfum sjer, hvað þá heldur öðrum.