13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg sje á brtt. hv. fjvn., enda hefir það komið fram í umr. frá n. hálfu, að hún er sammála um, að jafna þurfi þann tekjuhalla, sem nú er orðinn á fjárl. En einstaka nm. greinir á um, hvaða leið beri að fara í þessu efni. Meiri hl. n. vill gera hvorttveggja, lækka að nokkru útgjöldin og hækka tekjuáætlunina. En jeg verð að álíta, að þegar sje búið að áætla tekjurnar eins hátt og forsvaranlegt er. Tekjuáætlunin hefir aldrei verið hærri en nú. Það fer vitanlega eftir árferði, hvernig tekjurnar reynast, en það er svo langt á undan tímanum, sem áætlunin er gerð, að því erfiðara er að mynda sjer þá skoðun, sem standist reynsluna. Hv. frsm. minni hl. (JóhJóh) taldi svo varlega áætlaða ýmsa liði, að óhætt væri að hækka þá, og bar fyrir sig þær tekjur, sem fengist hefðu á síðustu árum. En því má ekki gleyma, að gjöldin fara venjulega mikið fram úr áætlun; mjer er óhætt að fullyrða 15%. Auk þess eru utan fjárl. ýmsar lögbundnar fjárhæðir, sem koma til útgjalda.

Ef jeg sný mjer að fyrsta liðnum, um hækkun á tekju- og eignarskatti, er það öllum ljóst, að það er einmitt sá tekjuliður, sem einna erfiðast er að gera sjer nákvæma hugmynd um fyrirfram. Hann hefir komist upp í 21/2 milj. eitt árið, annað ár var hann um 1 milj. Jeg get samt fallist á, að forsvaranlegt sje að hækka þennan lið, þegar tekið er tillit til þess, að í lögum er til heimild um að bæta 25% viðauka við liðinn, sem vitanlega er hægt að nota. Einnig mun það hafa reynst svo, að með betri innheimtu á tekju- og eignarskatti, a. m. k. hjer í Reykjavík, mun koma í ljós, að þessi tekjuliður verður talsvert hærri en undanfarin ár. Það er því enginn ágreiningur á milli mín og hv. n. um þetta atriði.

Meiri hl. n. leggur til að lækka nokkra útgjaldaliði, einkum til vegagerðar og sandgræðslu. í frv. er gert ráð fyrir framlagi til nýrra vega meira en áður hefir verið, en í meðferð þingsins hefir sá liður hækkað um 50 þús. kr. Mjer skilst, að sú lækkun, sem meiri hl. vill gera, svari nokkurnveginn til þeirrar hækkunar, sem þingið hefir gert. Eftir verður sama framlag til vegalagninga og stjfrv. ætlaðist til en jeg tel það alveg rjett, að þegar tekjuhalli er orðinn á fjárl., sjeu lækkuð að einhverjum hluta þau útgjöld, sem bætst hafa við í meðferð þingsins. Í raun og veru má líta svo á, að það, að nema burtu tekjuhalla, sje aðalatriðið, en að einstakar brtt., ýmist frá n. eða einstökum þm., skifti ekki eins miklu máli, enda ætla jeg ekki að gera margar þeirra að umtalsefni. Það er tæpast ástæða fyrir mig að minnast á brtt., fyr en kemur aftur í 22. gr. XXV. brtt., frá fjvn., er þess efnis, að stj. sje heimilt að veita Jóni Guðmundssyni á Brúsastöðum alt að 25 þús. kr. viðbótarlán úr viðlagasjóði, eða ábyrgjast fyrir hann lán, til aukningar gistihúsinu Valhöll. Jeg hefi minst á það áður, að lítið þýðir að gera ráð fyrir lánveitingum úr viðlagasjóði. Þó að 22. gr. verði látin standa í fjárl., er tæplega hægt að gera ráð fyrir nokkrum verulegum lánveitingum samkv. henni.

Þá koma nokkrar brtt. við 23. gr., sem eru hvorttveggja í senn, heimild til að lána fje úr ríkissjóði og heimild fyrir stj. til að veita ábyrgð hinum og þessum fyrirtækjum. Sú fyrsta er frá hv. þm. N.-M., um að lána Hjaltastaðahreppi 25000 kr. Þessi till. er auðvitað hliðstæð till. um lán til Auðkúluhrepps. Þetta er einskonar fátækralán, og jeg held mjer sje óhætt að segja, að ekki sje búist við, að það verði greitt aftur. Jeg er ekki fær um að dæma, hversu brýn þörfin er eða hvort þetta sje rjettasta leiðin til að rjetta við fjárhag þessara hreppa. Mjer skilst, að ef sveitarfjelögin eru sokkin í svo miklar skuldir, að þau fá ekki undir risið, þá er bygt á mjög ótraustum grundvelli, ef þeim eru veitt lán úr ríkissjóði.

Þá kem jeg að ábyrgðunum. Hv. þd. verður vitanlega að gera það upp við sjálfa sig, hvort hún ætlar að samþ. þessar ábyrgðarheimildir, sem fyrir liggja. Jeg vil vekja athygli á því, að það eru takmörk fyrir því, hvað á að ganga langt í að binda ríkissjóði nýjar ábyrgðir. Jeg vil ennfremur geta þess, að ef til þess kemur, að jeg hafi afskifti af því að veita þessar ábyrgðir, þá neyðist jeg til að vera kröfuharður um tryggingarskilyrði í hverju tilfelli, ef ábyrgð verður veitt.

Jeg sje, að n. hefir breytt hinum venjulegu ákvæðum um ábyrgðina og felt burtu orðin „gegn þeim tryggingum, sem stjórnin metur gildar“, en sett í staðinn: gegn ábyrgð sýslufjelagsins. Jeg hefi ekki neitt á móti þessu og er því meðmæltur. En jeg vil taka það fram, að jeg tel, að stj. hafi fulla heimild til að krefjast fyllri trygginga en ábyrgðar sýslufjelaga, jafnvel þó að orðalaginu verði breytt á þá leið, sem n. leggur til.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að minnast sjerstaklega á einstakar ábyrgðarheimildir. Þó vil jeg drepa á ábyrgðarheimild fyrir 50 þús. kr. láni vegna h/f Hallveigarstaða, til þess að reisa kvennaheimili á Arnarhólstúni. Mjer skilst, að þessi bygging kosti ekki minna en 150 þús. kr. Fjelagið mun hafa ráð á 40–50 þús. kr. En nú vill það koma byggingunni upp, þannig að hún verði fullbúin 1930 og geti þá tekið til starfa. Jeg vil ekki áfellast þær konur, sem vinna að þessu, en þykir hjer vera í mikið ráðist og tvísýnt um, að þær geti treyst því, að þessi bygging beri sig, með lántöku, sem nemur 100 þús. kr. Hinsvegar vil jeg ekki beinlínis mæla á móti því, ef d. þykir ástæða til að veita þessa ábyrgðarheimild. En vitanlega verður hún að gera þetta með það fyrir augum, að ríkissjóður komi til með að þurfa að borga þetta lán síðar að meira eða minna leyti, enda þótt konurnar ætlist ekki til þess nú. Jeg get unnað þeim að njóta þess, ef þetta er gott málefni, og vil ekki spilla fyrir því, að heimildin verði veitt.

Þá vil jeg aðeins drepa á XXXV. brtt., frá þremur hv. þdm., sem hv. frsm. talaði síðast um í ræðu sinni. Mjer dettur ekki í hug að andmæla því, sem hv. flm. sagði um þennan góða og gamla prest. Hann hrósaði honum með mörgum fögrum orðum, og jeg vil alls ekki draga það í efa, að hann sje ágætur maður og eigi alt gott skilið. En það er ekki þetta, sem hjer á að meta, heldur hitt, hvort hv. þdm. treysta sjer til að þverbrjóta gildandi reglur um greiðslu á eftirlaunum til embættismanna og veita þessum presti full embættislaun að eftirlaunum. Jeg efast ekki um, að það sjeu margir ágætir embættismenn hjer á landi, sem ekki fá að halda fullum launum, þegar þeir láta af embætti sínu. Hv. flm. talaði um, að þessi prestur ætti við fjárhagslega erfiðleika að stríða. En það eru svo ótalmargir aðrir, sem þannig stendur á fyrir.

Jeg var hjer á síðasta þingi að mæla með bláfátækum presti, sem jeg er viss um, að er miklu fátækari en þessi prestur. Mjer datt ekki í hug að ætlast til þess, að brotnar yrðu almennar reglur launalaganna, en fór aðeins fram á, að honum yrði veitt örlítil uppbót á lögmætum eftirlaunum.

Hv. flm. talaði um, að þessi prestur hefði samið ágætt rit um „ættir Austfirðinga“. Það má vel vera, að það sje mjög mikilsvert, en ef það á að greiða honum full laun, þá ætti ríkið að njóta þessa verks. Hv. flm. ljet í ljós, að það myndi fást fyrir sanngjarnt verð handa Þjóðskjalasafninu. Og með þessari till. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði full laun fyrir að vinna þetta verk. En þá finst mjer ekki sanngjarnt að ætlast til, að ríkið kaupi það á eftir.

Jeg veit, að það er ekki vinsælt eða vel sjeð að mæla á móti brtt. eins og þessari, um persónulega styrki til einstakra manna. En það verður fleira að gera en gott þykir, og ilt er að deila um styrkverðleika einstakra manna.

Jeg sje, að hjer hefir nýlega verið útbýtt nokkrum nýjum brtt. við fjárlagafrv. En þar sem jeg hefi ekki átt kost á að kynna mjer þær, þá sleppi jeg að minnast á þær, a. m. k. í bili.