13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

16. mál, fjárlög 1930

Björn Kristjánsson:

Jeg og hv. 2. landsk. eigum hjer eina brtt. á þskj. 617, XXII, og er þar farið fram á, að ellistyrkurinn til frú Guðrúnar Erlings verði færður úr 300 kr. í 600 kr., eða eins og hann var í upphafi á meðan börn hennar og Þorsteins skálds Erlingssonar voru í ómegð. Nokkur ár eru síðan börnin tvö komust yfir 16 ára aldur, og var styrkur hennar þá lækkaður um 300 kr., en hefði aðeins átt að lækka um 200 kr., þannig að hún hjeldi þó 400 kr. Þetta setti efnahagsástæður frú Guðrúnar mjög til baka, því þegar börnin í þessum bæ komast yfir 16 ára aldur og ganga mentaveginn, þá verða þau því dýrari sem þau verða eldri. Og frú Guðrún hefir af sínum veiku efnum gert afarmikið til þess að halda minningu Þorsteins skálds Erlingssonar uppi, meðal annars með því að gefa út skáldrit hans, sem ekki voru prentuð er Þorsteinn dó, Eiðinn og hinar óviðjafnanlegu dýrasögur, Málleysingja, sem fáir vissu um, að Þorsteinn hafði samið. Og ennfremur með því að veita börnum þeirra besta uppeldi, enda eru þau bestu börn og gædd miklum hæfileikum. Fáir munu geta gert sjer í hugarlund, hvernig frú Guðrún hefir getað brotist áfram með tvær hendur tómar og afrekað alt, sem hún hefir gert. En það hefir hún getað vegna frábærs dugnaðar og fyrirhyggju. Hún hefir mestpart lifað á kenslustörfum, en samhliða hefir hún hjúkrað mörgum, sem sjúkir voru, og hefir hún frábæra hæfileika til þess, og meiri en almenningi er enn kunnugt.

Á meðan Þorsteinn Erlingsson var á lífi naut hann aðeins 800 kr. styrks af landssjóði. Var það smánarlega lítið miðað við þá skáldastyrki, sem nú gerast, og miklu lægra heldur en slík skáld fengu á þeim tíma. (GJBald: öllu ómerkari skáld fengu þá hærri skáldastyrk). Úr þessu gæti þingið bætt með því að hækka ellistyrkinn, sem kæmi jafnframt börnum Þorsteins að notum.

Um þetta leyti mundi Þorsteinn hafa orðið sjötugur hjer, ef hann hefði lifað, en sjötugsafmælið verður hann að halda hinumegin, og ekkert mundi gleðja hann meira en að finna, að Alþ. sendi honum hlýjan hug samhliða því að hlynna að börnum hans og ekkju með þessum litla styrk.

Og við flm. vonum, að hv. deild geri það og verði við þessum tilmælum okkar.