13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

16. mál, fjárlög 1930

Erlingur Friðjónsson:

Jeg á sína brtt. á hvoru þskj. 617 og 619. Sú fyrri þeirra er X. á þskj. 617, og er þess efnis, að Björg Sigurðardóttir, sem undanfarið hefir fengist við að kenna húsmæðrum að gera mat úr síld, fái 1 þús. kr. styrk til að halda uppi slíkri kenslu víðsvegar á landinu, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að. Hún kennir að búa til öðruvísi mat úr síldinni heldur en við höfum þekt til þessa, og hefir farið víða um landið og kent að búa til um 20 rjetti úr síld, og var það óþekt áður, að svo marga rjetti væri hægt að gera úr þeirri vöru.

Þessi kona hefir áður fengið lítilsháttar styrk til þessarar kenslu. Fyrst fjekk hún 200 kr. frá Búnaðarfjelagi Íslands, og síðan 200 kr. frá Fiskifjelaginu. Fyrir þennan styrk hefir hún farið víða um landið og haldið námskeið á mörgum stöðum, 1–3 vikur á hverjum stað.

Á þessum stöðum hefir hún haldið námskeið: í Hafnarfirði í 2 vikur, á Álftanesi í 1 viku, í Borgarnesi í 1 viku, í Grindavík í 1 viku og á Siglufirði í 1 viku. Á þessum stöðum hefir hún ekki fengið neinn styrk frá hlutaðeigandi hreppsfjelagi eða bæjarfjelagi, en á hinum stöðunum, sem jeg á eftir að geta um, hefir bæjar- eða hreppsfjelagið lagt henni til húsrúm og eitthvað fleira, er að matreiðslu lýtur, en beinan styrk í peningum hefir hún enn sem komið er ekki fengið nema úr þessum tveim stöðum, sem jeg nefndi áðan. Þá er að minnast á hina staðina. Hún hefir einnig haldið námskeið í Keflavík í 1 viku, á Ísafirði í 3 vikur, í Hnífsdal í 1 viku, í Vestmannaeyjum í 2 vikur, á Akureyri í 3 vikur, í kvennaskólanum á Blönduósi í 1 viku, á Innra-Blönduósi í 1 viku, á Hvammstanga í 1 viku, á Sauðárkróki í 1 viku, á Hofsósi í 1 viku, í Reykjavík í 2 vikur, á Saurbæ í Eyjafirði í 1 viku, á Húsavík í 1 viku og á Hjalteyri í 1 viku.

Á þessum stöðum, sem jeg hefi nú nefnt, hefir þessi kona fengist við matreiðslu á síld og kent hana frá því í janúar 1928 og þangað til núna í mars eða svo. Jeg held, að það megi telja víst, að með þeim styrk, sem þessar tvær stofnanir, Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið, hafa veitt henni, hafi þær sýnt það, að þær teldu vel til fallið, að þessi kensla færi fram. Nú hefi jeg farið fram á, að hún fái styrk frá Alþ., 1 þús. kr., gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá, og ætlast svo til, að hún kenni síldarmatreiðslu eftir till. frá Búnaðarfjelaginu og Fiskifjelaginu. Jeg geri ráð fyrir, að Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið búi út erindisbrjef handa henni, þar sem henni sje á herðar lagt að fara um þau svæði, sem hún hefir ekki ennþá farið um. Hingað til hefir hún aðallega farið um þorpin og kaupstaðina, en sveitirnar eiga eftir að njóta kunnáttu hennar. Þykir mjer sennilegt, ef hún fengi þennan styrk, að þá byrji hún með því að fara aðallega um sveitirnar til þess að kenna.

Þeir, sem hafa notið kenslu hjá þessari stúlku, láta mjög vel yfir henni. Hún hefir verið á sjötta ár erlendis og fengist mikið við allskonar matreiðslu og er mjög vel fær í þeirri grein. Hún hefir haft alls 518 nemendur á námskeiðum sínum, svo það má með rjettu segja, að það eru hreint ekki svo fáir, sem hafa leitað til þessara námskeiða, enda er mjög auðvelt að læra að búa til þessa síldarrjetti. Mjer þætti því ekki ósennilegt, að það bæri góðan árangur, ef þessi stúlka færi um landið næsta ár og kendi þessa matreiðslu, þó að styrkurinn sje ekki meiri en þetta, enda hefi jeg gengið út frá því í till., að styrkurinn sje vitanlega í eitt skifti fyrir öll. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að tala nánar um þessa brtt.

Þá vildi jeg minnast lítið eitt á hina brtt. mína, sem jeg áður gat um. Hún er á þskj. 619, en er brtt. við XXVII. lið á þskj. 617. Þessi brtt. er í því fólgin að bæta aftan við liðinn aths. til skýringar og til þess að gera öruggara, ef lánið verður veitt, sem farið er fram á í brtt. á þskj. 617, að ríkisstj. hafi töluverðan íhlutunarrjett um, hvernig fjenu verði varið, eftir því hvaða árangur það ber, ef þetta fje verður lánað Hjaltastaðahreppi. Brtt. mín á að skýra það, að þessu láni, sem farið er fram á að ríkið láni Hjaltastaðahreppi, verði varið til greiðslu á skuldum hreppsbúa við lánsstofnanir og verslanir, gegn því að skuldhafar gefi svo mikið eftir af kröfum sínum, að stjórnarráðið telji, að hreppsbúum verði gagn að láninu. Virðist ekki ástæða til að veita slíkt lán nema vissa sje fyrir því, að hægt sje að rjetta hag hreppsbúa við með því. Hreppurinn verður að geta trygt sjer, að lánsstofnanir og verslanir geti ekki gengið að hreppsbúum á eftir og gert þá öreiga. Það verður að vera trygður sá árangur, að hreppurinn geti staðið fjárhagslega í fæturna á eftir, ef lánið er veitt. Jeg skal geta þess, að við nánari athugun hefi jeg sjeð, að betra hefði verið að orða seinni hluta till. minnar á annan veg. Jeg hefði heldur kosið að orða hann á þessa leið: „Að ríkisstjórnin telji hreppnum fært að standa straum af láninu“. Ef ríkisstj. sjer fram á það, að hreppnum er fært að standa straum af láninu, þá kemur það áreiðanlega að notum, og þá er ekki hætt við, að aðrir skuldareigendur geti gengið svo hart að hreppnum, að hann standi ekki í skilum með lánið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að hv. deild geti fallist á, að rjett sje að bæta við XXVll. lið á þskj. 617 þessari skýringu, svo að aðstaðan verði betri, ef lánið er veitt.