13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

16. mál, fjárlög 1930

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er aðeins örstutt erindi, sem jeg ætla að flytja hjer, og mun það því ekki lengja mikið umr. þessa máls. Það, sem gaf mjer tilefni til að standa upp, voru ummæli þau, er hæstv. fjmrh. viðhafði um það, að h/f Hallveigarstaðir hafði farið fram á 50 þús. kr. lánsábyrgð, til þess að kleift yrði að koma upp húsi því, er safnað hefir verið fje til í allmörg ár. Mjer var það ánægjuefni, að hv. fjvn. hafði fallist á það og vona því, að till. þessi nái fram að ganga, enda þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki getað fallist á það að veita lánsheimildina. Hæstv. fjmrh. benti á það, að málið yrði ef til vill ískyggilegt fyrir ríkissjóð, og gat þess ennfremur, að ef byggja ætti hús þetta fyrir 1930, myndi það verða dýrara en áætlað hefði verið, og hugði hann, að kostnaðurinn við bygginguna myndi þá geta orðið 150 þús. kr. í stað 130 þús. kr. Jeg get tekið það fram, að uppdráttur og kostnaðaráætlun liggur fyrir og þar er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn verði ekki meiri en 130 þús. kr. Hæstv. fjmrh. kvaðst þó ekki vilja spilla fyrir konunum, ef þær væru að berjast fyrir góðu máli og inna af hendi mannúðarverk. Þetta var plásturinn, sem hann lagði á sárið og málsbætur hans eru fólgnar í. Hvað því viðvíkur, að kostnaðurinn muni fara upp úr 130 þús. kr., get jeg svarað því, að kostnaðaráætlun og uppdrættir, sem liggja fyrir frá húsameistara ríkisins, eru nákvæmlega miðaðir við þá upphæð. Fyrir liggja í sjóði 43 þús. kr., er safnast hafa á undanförnum árum, og auk þess munu mjög mörg kvenfjelög, sem standa að þessu starfi, vinna ósleitilega að því að safna fje til kvennaheimilisins, og sú söfnun mun sækjast betur eftir að byrjað er á verkinu. Ennfremur má benda hv. þdm. á það, að ef þeir kynna sjer lista yfir nöfn þeirra kvenna, sem að fyrirtæki þessu standa, hygg jeg, að þeir geti gengið úr skugga um, að hjer eru ekki fjárglæfrar á ferðum. Konur eru ekki ennþá komnar inn á þá braut, að taka stór lán án þess að ætla sjer að standa straum af þeim, og jeg býst ekki við, að þessar ágætu konur, sjeu að reyna að svíkja út lán, enda munu þær flestar svo vel efnum búnar, að þær gætu í sameiningu staðið straum af þeirri ábyrgð, sem ríkið tekur á sig. Það er vitanlegt, að hjer í Rvík eru mörg fjölmenn kvenfjelög, sem leggja byggingu þessari liðsinni sitt, því að þau hafa engan fastan samastað enn sem komið er. Það eru ekki einungis konur hjer í Rvík, sem telja nauðsynlegt að koma upp þessu húsi, heldur mun það vera sameiginlegt áhugamál kvenna um alt land, og bær hafa glaðst yfir þeim ágæta stað, sem ríkisstj. hefir látið í tje á Arnarhólstúni. Hjer í Rvík munu vera um 15 fjelög, sem öll styðja þetta mál, og má mikils vænta af þeim. Þá ber einnig að taka það til athugunar, að konur, sem koma utan af landi og ætla að dvelja hjer lengur eða skemur, hafa rekið sig á, að hjer er bæði erfitt að fá húsnæði og að það húsnæði, sem fæst, er oft mjög dýrt. Hallveigarstaðir eiga að bæta úr þessu með því að veita aðkomukonum gistingu gegn lágu verði. Þó mun verða sjeð um, að fyrirtækið beri sig. Jeg vil því vona, að sá uggur, sem máske hefir verið í sumum hv. þdm. við að veita þessa lánsábyrgð, megi dreifast og þverra og hverfa eins og dögg fyrir sólu, en velvild og skilningur megi fá yfirhöndina og ráða úrslitum.

Jeg vil nota tækifærið til að segja nokkur orð viðvíkjandi annari brtt., sem jeg á ásamt hv. 1. þm. G.-K. Er hún við 18. gr., undir XXll. lið, og fer fram á, að styrkurinn til frú Guðrúnar J. Erlings verði hækkaður úr 300 upp í 600 kr. Við flm. þessarar till. töldum, að þá fyrst væri góðskáldinu Þorsteini heitnum Erlingssyni sýndur fullur sómi, ef ríkið sæi ekkju hans nokkurn farborða og hjálpað væri fátækri móður til að manna börn hans, svo að þau geti verið verðug að eiga slíkan föður, sem var svo ástsæll meðal íslensku þjóðarinnar. Þótt þessi styrkur sje ekki hár, munar þá konu um það, sem er alveg eignalaus, að öðru leyti en því, að hún er talin eiga part úr húsi því, er Þorsteinn heitinn bygði og sem ekkja hans hefir reynt að halda. Þessi kona hefir unnið mestmegnis fyrir sjer með kenslu, en hefir kostað miklu til barna sinna; t. d. mætti nefna, að sonur hennar er nú í 4. bekk mentaskólans, og virðist hann vera mjög efnilegur unglingur. Frú Guðrún er fremri flestum öðrum konum í því, hversu hún hefir leitast við að halda minningu manns síns á lofti, og af hinum litlu efnum sínum hefir hún varið ærnu fje til bókaútgáfu, sem þó mun æðierfið nú á dögum. Hún hefir gefið út „Eiðinn“ og svo dýrasögur, sem fáir höfðu áður vitað um, að voru eftir Þorstein, og báðar þessar bækur hafa verið svo vandaðar að öllum frágangi, að hún hefir hlotið einróma lof fyrir. Frú Guðrún hefir óbifandi trú á því, að þótt menn sjeu ekki sjálfir efnum búnir, geti þeir þó styrkt aðra og hjálpað þeim, sem bágt eiga, á ýmsan hátt, enda munu þeir æðimargir, sem hún hefir hjálpað. Jeg hygg, að jeg sje ekki ein í þeim hóp, sem hún hefir hringt til og spurt að, hvort ekki væri hægt að hlaupa undir bagga með þessum eða hinum, sem skjótrar hjálpar hafa þurft, og þótt ekki hafi alt fallið í ljúfa löð strax, hefir hún ekki hætt fyr en hún hefir verið búin að útvega hinum þurfandi einhverja hjálp. Þess vegna álít jeg, að þessi kona verðskuldi fyllilega, að henni verði hjálpað, þ. e. með því að veita henni nokkurn opinberan styrk, eins og brtt. okkar flm. fer fram á, því að hún skilur erfiðan hag annara og rjettir fyrst allra hjálparhönd, hvar sem hún getur.