13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það eru þegar orðnar svo langar umr. um fjárl., að ekki er á það bætandi. Enda hefi jeg fáu að svara fyrir hönd n.; það hafa fáar eða engar aðfinslur komið fram við brtt. hennar. N. hefir ekki tekið afstöðu gagnvart brtt. hv. þdm., og hefi jeg því lítið um þær að segja af hálfu n., annað en það, sem jeg sagði um þá einstöku liði við 2. umr., sem nú eru enn bornir fram.

Jeg gleymdi í ræðu minni í dag að minnast á eina brtt. n., sem fer fram á, að áætlunarliðurinn til kostnaðar við innflutning á tilbúnum áburði hækki úr 10 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Það hefir komið í ljós af fenginni reynslu, að þessi innflutningur nemur nú þegar, það sem af er þessu ári, miklu meira en svarar til 10 þús. kr. kostnaðar fyrir ríkissjóð. N. leit því svo á, að þessi liður yrði að hækka.

Hv. þm. Seyðf., samverkamaður minn í fjvn., hjelt því fram, að það væri áreiðanlega óhætt að hækka tekjuhlið fjárl. Um það þýðir ekki að deila hjer; þetta kom fram í nefndinni. Og þó það megi færa rök að því, að gerlegt sje að hækka einstaka tekjuliði, þá mætti líka færa sennilegri rök gegn því; enda má búast við, að þörfin verði meiri en útgjaldaáætlunin ákveður. Annars þykir mjer gott að heyra það frá hv. þm., að hann álítur tekjuáætlunina varlega. En með tilliti til ársteknanna 1928 álítur meiri hl. fjvn., að ekki sje fært að ganga lengra en þetta um að hækka tekjuáætlunina. Þá vil jeg minnast á eitt atriði, sem hæstv. fjmrh. lagðist heldur á móti. Það er 25 þús. kr. lánsheimild til Hjaltastaðahrepps í N.-Múlasýslu, til þess að reyna að ráða bót á þeim fjárhagsvandræðum, sem þar eru. Hann taldi litlar líkur til, að þetta lán yrði endurgreitt. Jeg vil ekki spá neinu um það. En fyrst Norður-Múlasýsla á að ábyrgjast þetta lán, ef gengið verður að þeim skilyrðum, sem sett eru í till., þá er jeg fullviss um, að þetta lán verður greitt aftur að mestu leyti, og helst alt.

Jeg er hinsvegar alveg sammála aths. hv. þm. Ak., er hann leggur til, að bætt verði aftan við liðinn. Það spillir ekki, þó það sje tekið þar fram; en annars hefir sýslunefnd N.-Múlasýslu sett hreppnum þessi skilyrði.

Þá mintist hæstv. fjmrh. á ábyrgðarheimildina fyrir Hallveigarstaði og bjóst við, að hún mundi leiða það af sjer, að ríkissjóður mundi síðar verða að gefa þessu kvenfjelagi eftir upphæðina. Jeg verð að líta svo á, að konurnar muni fremur líklegri til að greiða þessa skuld sína með tímanum heldur en ýmsir aðrir, sem ríkissjóður ábyrgist fyrir; en reynslan leiðir það í ljós.

Hv. þm. Snæf. talaði fyrir till. sinni um ríkisábyrgð á 30 þús. kr. láni fyrir Ólafsvíkurhrepp til hafnarbóta í Ólafsvík. Jeg get ekki gefið aðrar upplýsingar um þetta fyrir n. hönd en þær, sem jeg áður hefi sagt hv. þm., að það er skilningur fjvn., að í hafnarlögum frá 1919 fyrir Ólafsvík sje fullkomin heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka ábyrgð á láni til hafnargerðar þar. N. lítur svo á, að varla verði um það vilst. Jeg þarf ekki að fjölyrða um þann ágreining, sem varð á milli meiri og minni hl. í fjvn. um lækkun á framlögum til nýrra vega, en get látið mjer nægja að vísa til ummæla hæstv. fjmrh. um það atriði.

Kem jeg þá að XVII. brtt., við 16. gr. 9 (raforkuveitur), að orðin „gegn fimtungs framlagi frá hlutaðeigandi hjeruðum“ falli burt. Um þessa brtt. hefi jeg ekkert að segja fyrir hönd n., en jeg get lýst yfir því, að sjálfur get jeg fallist á hana, enda er hún í samræmi við það álit, er jeg ljet í ljós, þegar þetta mál var hjer til umr. Auk þess get jeg fallist á þær sjerstöku ástæður, sem hv. 3. landsk. færði fyrir því, að rjett væri að fella þessi orð niður.

Sami hv. þm. á einnig brtt. á þskj. 619, við 13. gr. B. VIL, nýr liður: Til dragferju á Hólsá, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að, alt að 1500 kr. Eins og menn muna, var í fjárl. eins og þau komu frá. hv. Nd. stærri liður, sem ætlaður var í sama skyni, en til stærri dragferju, og var þessi liður feldur niður við 2. umr. fjárl. hjer í hv. deild. Jeg get fallist á, að þarna muni þörf á ferju, en hinsvegar finst mjer þetta ennþá nokkuð í lausu lofti bygt, þar sem uppástungurnar eru svo misjafnar. Ennfremur tel jeg, að rjettara myndi að bíða og fá heldur stærra mannvirkið, og legg því til, að hv. deild felli þessa till.

Hv. 3. landsk. flytur einnig brtt. við 28. gr., um Skeiðaáveituna. Jeg get upplýst það, að þetta atriði kom til umr. á fundi fjvn., en meiri hl. n. gat ekki fallist á till. hv. þm., þar sem hann treysti stj. til þess að leysa þetta vel af hendi, og ennfremur leit meiri hl. svo á, að þetta mundi ekki leiða til annars en nokkurra umr. og tafa á næsta þingi, og leggur meiri hl. því til, að till. þessi verði feld.

Þá er till. hv. 4. landsk., að skólagjöld falli niður. Mjer finst, að ekki sje hægt að telja skólagjöldin ósanngjörn, þegar á það er litið, að stj. er heimilt að endurgreiða fátækum en efnilegum nemendum skólagjald, og þegar þess er gætt, að aðstaða þeirra nemenda, sem í bæjum búa, er miklu betri en hinna, sem koma langt að, finst mjer ekki ósanngjarnt að jafna þá aðstöðu á þennan hátt.

Eins og jeg tók fram í byrjun ræðu minnar, hefi jeg ekki ástæðu til að segja neitt um einstakar brtt. fyrir hönd n., annað en það, sem n. hefir áður lagt til. — Þá má og geta þess, að hjer eru komnir fram ýmsir persónustyrkir. N. hefir ekki fundið ástæðu til að mæla með neinum þeirra, en hinsvegar má búast við því, að atkv. nm. verði nokkuð skift um þá liði.

Skal jeg svo að síðustu minnast á brtt. á þskj. 617, XXXV., sem jeg hefi flutt ásamt hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf., að greiða sr. Einari Jónssyni á Hofi í Vopnafirði full prestslaun, þá er hann lætur af embætti. Á þessa brtt. hefir verið minst af einum þrem hv. þdm. Reið þar fyrstur á vaðið hæstv. fjmrh. og gat þess, að þá er jeg talaði fyrst fyrir þessari till., hafi jeg flutt langa og hjartnæma ræðu, og væri það vinsælla en að mæla í gegn henni. Það má vel vera, að svo sje, en jeg skil vel afstöðu hæstv. fjmrh., sem á að vera vörður ríkissjóðs, og er það ekki óvinsælt af minni hendi, þótt hann gegni þeirri skyldu sinni. Hafi jeg verið langorður, þá er það sökum þess að af miklu var að taka, og hafi ræða mín verið hjartnæm, er það sönnun þess, að það hefir átt við. Maður þessi er alls góðs maklegur. Vil jeg taka það skýrt fram, að hjer er ekki um neinn miðlungsmann að ræða. Hæstv. fjmrh. sagði, að þverbrotnar væru með þessu reglur, sem um þetta hefðu gilt. Jeg get ekki fallist á, að svo sje. Á síðasta þingi kom til mála að leysa rektor mentaskólans frá embætti með fullum launum, en þá tók annar í taumana, svo að þessa þurfti ekki með. Ennfremur er nú í fjárl. gert ráð fyrir því að leysa sjera Magnús Helgason frá embætti og greiða honum full laun er hann lætur af embætti sínu sem skólastjóri kennaraskólans. Jeg tel að sjera Einar Jónsson sje fyllilega sambærilegur við þessa menn, og þótt hann hafi ekki eins og þeir haft sjerstöðu til þess að hafa samskonar áhrif á fjölda landsmanna, hefir hann innan síns verkahrings haft hin þýðingarmestu áhrif á marga menn, og það jafnvel suma mætustu menn þjóðarinnar, og því unnið til þeirrar sæmdar, sem í þessu felst. Hjer er um að ræða mann, sem setið hefir í embætti í 50 ár og gegnt því með sjerstakri prýði og skyldurækni. Auk þess hefir hann verið forgöngumaður í þjóðmálum fyr og síðar. Hjer er um að ræða göfugan mannvin og frömuð í æðri mentun landsins, sem leyst hefir af hendi bókmentalegt stórvirki, — stórvirki, sem aldrei hefði orðið unnið, ef hann hefði látið það ógert.

Á þskj. 619 er brtt. frá hv. 6. landsk. við þessa tillögu, þar sem lagt er til, að aftan við tillöguna bætist: enda verði rit hans „Ættir Austfirðinga“ eign þjóðskjalasafnsins að honum látnum. Jeg býst við, að þetta sje prentvilla og muni eiga að standa: eign Landsbókasafnsins. Mjer er vitanlegt, að það er ákveðinn vilji prófastsins, að þetta handrit lendi hjá Landsbókasafninu. Hinsvegar fanst mjer, er jeg sá þessa till., að lítil sanngirni væri í því fólgin að binda heimildina slíku skilyrði, þar sem hjer er um dýrmætt stórvirki að ræða, en höfundur háaldraður, eða 75 ára gamall, og auk þess farinn að heilsu. Fanst mjer, að svo myndi geta farið, að ríkið gerði þar ódýr kaup fyrir Landsbókasafnið, ef hann nyti stutt þeirra kjara, sem verið væri að bjóða honum. En við það að bera þetta saman við skoðanir sr. Einars í viðskiftum hans við aðra, sá jeg, að hann myndi ekki telja þetta ósanngjarnt, enda hefir mjer og verið tjáð fyrir hans hönd, að það hefði ætíð verið ósk hans, að þetta handrit lenti hjá Landsbókasafninu fyrir lítið eða ekkert gjald. Þá vakti það fyrir sr. Einari, að ef kona hans, sem er fullra 70 ára að aldri, lifði hann og þyrfti á fje að halda sjer til framfæris, yrði sú þóknun, sem hann kynni að fá fyrir þetta ritverk, miðuð við framfærslueyri til hennar. Gæti jeg því aðeins gengið að till. hv. 6. landsk., að þingið sæi sóma sinn við konu hans, ef hún lifði mann sinn, og ljeti hana njóta þess, að þetta dýrmæta verk hefði orðið eign ríkisins og Landsbókasafnsins. Ber jeg það traust til þess þings, er nú situr, og hinna komandi þinga, að það kunni að meta slíkt verk að verðleikum og það hugarfar, sem jafnan hefir verið ríkjandi hjá höfundi þess.