13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg á hjer eina litla brtt. á þskj. 619. Er hún um það að veita Sigríði Blöndal læknisekkju 300 kr. uppbót á eftirlaun í 18. gr. Þessi kona er ekkja eftir Björn Blöndal hjeraðslækni, og er nú háöldruð og fátæk. Eftirlaun hennar eru nú 150 kr. á ári og jeg álít, að hún sje alveg hliðstæð við þær embættismannaekkjur, sem hafa styrk í 18. gr. fjárl. Það eru aðeins 300 kr., sem jeg fer fram á, og jeg geri ráð fyrir, að það þurfi ekki að mæla með þessari till. Jeg þykist þess fullviss, að hv. deild muni fallast á hana, með því að jeg hefi orðið þess var, að þegar svona stendur á, þá er þingið fúst til að samþ. jafnlítilfjörlega upphæð. Jeg ætla þess vegna ekkert að tala meira um þessa brtt., en vildi víkja örfáum orðum að hv. 3. landsk. út af því, sem hv. þm. sagði um afgr. fjárl.

Hv. þm. vildi halda því fram, að till. hv. meiri hl. fjvn. um það, að lækka lítið eitt tillagið til nýrra vegalagninga myndi verða til þess, að hv. Nd. myndi ekki ganga að frv., og það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sjer. Jeg er sammála hv. þm. um það, að ekki muni verða beinn fjárhagslegur gróði að því fyrir ríkissjóð, að hv. Nd. breyti fjárl., en hinu vil jeg halda fram, að þessi upphæð, sem hjer er um að ræða, þessi lítilfjörlega lækkun til veganna, verði ekki það, sem verði til þess, að hv. Nd. geti ekki gengið að fjárl. Jeg þykist viss um, og hefi þar nokkuð fyrir mjer, að það verði önnur atriði, sem þar ráða meiru um. Mjer er ekki grunlaust um, að þessar till. um lækkun til veganna sjeu mest sprotnar upp af einni till., sem var samþ. hjer við 2. umr., og að ekki þurfi að dyljast þess, að það er fjárframlagið til vegarins yfir Fjarðarheiði. Að sönnu skal það játað, að það tillag til þess vegar, sem samþ. var, er ekkert stórfje, ef ekki fylgdi annað meira á eftir, en það er vitanlegt, að þegar búið er að samþ. fyrsta framlagið til þess vegar, þá verður vitanlega gengið út frá því, að halda verði áfram við þennan veg, og það er nú þegar kunnugt af þeim rannsóknum, sem gerðar eru um þann veg, að hann mun kosta mörg hundruð þús. kr. Og það er einmitt þetta atriði, sem er þess valdandi, að jeg geri ráð fyrir því, að það mæti mjög mikilli mótspyrnu, að fjárl. gangi í gegn með þessu framlagi. Nú er það svo um þennan veg yfir Fjarðarheiði, að það hefir verið talað um það, að hann kæmi að mjög litlum notum bæði fyrir Seyðfirðinga og Hjeraðið sjálft fyrir ofan. Og það hafa margir sagt, sem þekkja til þarna, að þessi vegargerð sje blátt áfram vitleysa, vegna þess að þessi heiði sje sjaldnast fær nema örlítinn tíma yfir hásumarið. Það komi fyrir í mörgum árum, að þessi heiði sje ekki snjólaus nema örlítinn tíma, og það er einmitt sá tími úr árinu, sem sennilega er minst gagn að, bæði fyrir Seyðisfjarðarkaupstað og Hjeraðið, því ef Hjeraðið á að hafa gagn af þessum vegi sem akbraut til þess að flytja frá sjer afurðir eða vörur til sín, þá hljóta þeir flutningar að fara fram vor og haust. En í flestum árum er mjer sagt, að vegurinn muni vera gersamlega ófær fyrir snjó, og að það sjeu til þau ár, sem ómögulegt sje að leggja þarna veg, nema með því að moka fyrst burt snjónum. Það væri sök sjer að leggja stórfje í þennan veg, ef hann kæmi að gagni fyrir sambandið milli hjeraðs og hafnarstaðar, en það má ekki gera sjer vonir um, að hann verði að gagni nema lítinn tíma að sumrinu, því að það munu varla koma fyrir svo góðir vetur, að hægt sje að nota brautina.

Jeg vildi láta þessa getið vegna þess, að jeg hefi talið næstum því óforsvaranlegt að leggja fje í þessa braut, og þess vegna hefi jeg altaf greitt atkv. á móti fjárframlagi til hennar. Það er þó ekki af því, að jeg geti ekki unnað Hjeraðinu greiðra samgangna til sjávar og Seyðisfirði til lands, en það er aðeins af því, að jeg hygg, að það komi hlutaðeigendum að mjög litlum notum, en verði afskaplegur kostnaður fyrir ríkissjóð.

Þá vildi jeg minnast hjer á eina brtt. Það er XXXIII. brtt. á þskj. 617, frá hv. þm. Snæf., þar sem hann fer fram á að fá ábyrgð ríkissjóðs fyrir 30000 kr. láni fyrir Ólafsvíkurhrepp til hafnarbóta. Jeg fyrir mitt leyti hefi eiginlega ekkert á móti því, að þessi brtt. sje samþ., en jeg tel, að hún sje óþörf, vegna þess, að sú heimild, sem í till. felst, er til í hafnarlögum fyrir Ólafsvík, og jeg geri ráð fyrir því, að sama verði útkoman, hvort heldur till. er samþ. eða látin eru gilda þessi lög um Ólafsvíkurhöfn. Jeg býst sem sagt við því, að ef ríkisstj. á annað borð tekst þessa ábyrgð á hendur, þá muni hún alveg eins gera það samkv. lögunum eins og eftir þessari till.

Þá kem jeg að hv. 2. landsk., Sem vildi halda því fram, að jeg hefði mælt á móti till. um það, að ríkissjóður tæki að sjer ábyrgð á láni fyrir h/f Hallveigarstaði. Jeg var ekki að mótmæla því, að ríkissjóður tækist þessa ábyrgð á hendur; jeg var aðeins að segja það, sem jeg hafði áður sagt við konur, sem við mig hafa talað áður um þetta mál, að jeg hefði hugsað, að lítt væri mögulegt að láta þessa stofnun bera sig, ef hún væri sett upp og farið að starfrækja hana með kannske alt að 80000 kr. skuld á bakinu. En þrátt fyrir það vil jeg alls ekki vera meinsmaður þess, að þessi till. verði samþ., vegna þess að jeg fyrir mitt leyti tel ekkert á móti því, þótt að því kynni að reka, að ríkissjóður yrði að láta eitthvað af þessari ábyrgð sem styrk til þeirra kvenna, sem að verkinu hafa staðið. En jeg hefi sagt það við þessar konur, að þær muni alls ekki hafa haft það í huga, að mönnum bregðast oft glæsilegar vonir um fyrirtæki, sem menn hafa verið að berjast fyrir, og þarna er jeg hræddur um, að eins geti farið. Það getur verið, að jeg líti of dökkum augum á þetta, og það skyldi gleðja mig, ef þetta fyrirtæki reyndist betur en jeg þori að vona.

Hv. 2. landsk. hjelt því fram, að þetta kostaði ekki eins mikið og jeg hefði sagt, um 150000 kr. En hv. þm. sagði, að áætlunin væri 120000 kr. Mjer hefir skilist svo, að áætlunin væri aðeins um húsbygginguna eina, og þó maður geri nú ráð fyrir því, að áætlunin standi sig, sem þó er sjaldgæft, þá er það ekki nema húsið, sem kostar 120000 kr.; en það er ekki nóg. Það þarf mikið af innanstokksmunum, og það hafa konur, sem jeg hefi talað við, viðurkent, að þeir myndu ekki kosta minna en 20000 kr. og að gera húsið fullhæft til þess, sem það er ætlað.

Jeg held því fast við það, að þessi kostnaður muni aldrei verða innan við 150 þús. kr. En alt, sem jeg hefi sagt um fyrirtæki þetta, segi jeg ekki til að spilla fyrir till., enda mun jeg greiða henni atkv. Jeg vildi aðeins láta þess getið, að menn mega ekki gera sjer of glæsilegar vonir, en hinsvegar tel jeg rjettmætt, að þetta verði eitthvað styrkt á sínum tíma, ef á þarf að halda. Enda álít jeg, að konurnar sjeu styrks maklegar og sje ekki eftir því, að þær fái einhverja aðstoð frá ríkinu í þessu efni. Jeg veit, að þær eru að vinna að góðu málefni, sem kemur konum víðsvegar að af landinu að góðu liði.