13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

16. mál, fjárlög 1930

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg stend aðeins upp til þess að lýsa yfir ánægju minni yfir því, sem hæstv. fjmrh. sagði nú. Með því eru tekin af öll tvímæli um það, er mjer fanst liggja í orðum hans í dag viðvíkjandi h/f Hallveigarstöðum.

Jeg skal ekkert deila um það, hvort innanhúsmunir hússins geti farið fram úr 10–12 þús. kr. eða ekki.

Mjer er gleðiefni skilningur hæstv. fjmrh. um nauðsyn þessa máls og jeg er honum þakklát fyrir þá yfirlýsingu, að hjer sje um þarft og gott fyrirtæki að ræða og konurnar alls góðs maklegar. Og jafnvel þótt ríkið kæmi til með að tapa einhverjum hluta þessarar upphæðar síðar meir, þá yrði það, að mínu áliti, nánast að skoða sem styrk ríkisins til þessa þarfa fyrirtækis, og eftir því þyrfti ríkið sannarlega ekki að sjá.

Um leið og jeg, fyrir hönd allra þeirra mörgu kvenna, er að þessu málefni standa, þakka hæstv. fjmrh. yfirlýsingu hans, vil jeg láta þess getið, að reynt verður til hins ýtrasta að halda fram þeim fasta ásetningi að geta staðið í skilum um lánið eins og samningar mæla fyrir.