13.05.1929
Efri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki að svara hv. 3. landsk. ítarlega, því hann hefir að litlu leyti reynt að hrekja innihald raka minna. Hann hefir ekki getað hrakið, að verkfræðingar þeir, sem áætluðu verkið við Skeiðaáveituna, vissu ekki, að það var klöpp á löngu svæði, sem þurfti að sprengja, og því ekki gert ráð fyrir neinu slíku í kostnaðaráætluninni, en þetta aukaverk eyddi miklu fje, eins og reikningarnir bera með sjer.

Hv. 3. landsk. neitar því ekki heldur, að nú lítur út fyrir, að enginn vatnsdropi komi í skurðinn, svo að ekkert gagn verður af áveitunni og þetta dýra verk þar með ónýtt. Hann taldi það kost, að verkfræðingarnir hefðu sjeð, að hægt væri að auka vatnið mikið með því að byggja garð út í ána. En það er oflof, ef þetta á að reiknast dygð verkfræðinganna. Þvert á móti sannar þessi staðreynd eymd þeirra, er mældu fyrir verkinu. Það verður sama reynslan þarna og um Miklavatnsmýraráveituna; af því að skakt var reiknað fyrst, þurfti að reikna skakt í annað sinn, enda er nú svo komið, að lítið sem ekkert vatn næst í skurðinn og áveitan því gagnslaus. Hjer ber því alt að sama brunni og ekki um annað að ræða en axarsköft á axarsköft ofan í öllum útreikningum og framkvæmdum verkfræðinganna. Ef forsvaranlega hefði verið unnið að mælingunum, þá hefði verið hægt að komast hjá „óbilgjörnu klöppinni“ og um leið að ánni á margfalt heppilegri stað. Það er því ekki nokkur minsti ljósgeisli í neinu því, er viðkemur afskiftum verkfræðinganna í þessu máli.

Hv. 3. landsk. segir, að það muni ekki nema ósköp litlu fyrir bændur, þó að verk, sem áætlað var að kostaði um 107 þús. kr., sje komið upp í 500 þús. kr. og ónýtt í tilbót. Og verkfræðingarnir eru ámælisverðir fyrir það að hafa lokkað bændur út í annað eins glæfrafyrirtæki sem þetta.

Það hefði verið alt öðru máli að gegna, ef verkið hefði kostað rúmar 100 þús. kr., eins og upphaflega var áætlað, og ríkissjóður lagt fram 1/4 kostnaðar. Þá voru það þó ekki nema 75 þús. kr., sem bændur á áveitusvæðinu hefðu orðið að standa straum af, og við það hefði þeim verið vorkunnarlaust að ráða. En þegar alt reyndist margfalt dýrara en áætlað var, þá hófust vandræðin; þá var ekki í annað hús að venda fyrir bændur en að taka dýr veðdeildarlán með miklum afföllum. En öll þessi miklu vandræði og alt það ólag, sem átt hefir sjer stað í sambandi við Skeiðaáveituna — alt má þetta rekja að hinu eina og sama: að undirbúningur málsins var svikinn af hálfu verkfræðinganna, og hann var svikinn bæði með „tekniskum“ og fjárhagslegum örðugleikum.

Hv. 3. landsk. talaði dólgslega og sagði, að verið væri að reyna að klína óhróðri og skömm á verkfræðingana í sambandi við Skeiðaáveituna. En það er fjarri því, að verið sje að klína neinni skömm á þá. Skömmin situr þar og hefir altaf setið á þeim, sú skömm, sem menn með heimsku og glapráðum festu varanlega við nöfn sín, því að fyrir ónógan og vitlausan undirbúning málsins, sem bændur trúðu á, sitja þeir nú með hengingaról um hálsinn og geta enga björg sjer veitt.

Sami hv. þm. vildi halda því mjög fast fram, að jeg hefði flutt till. En því fer mjög fjarri; það eru fulltrúar þessa hjeraðs, sem borið hafa hana fram. Hinsvegar hefi jeg lagt henni liðsyrði, af því að jeg hefi samúð með þessum ógæfusömu mönnum, er starfa þarna á svæðinu og orðið hafa fórnarlömb verkfræðingaóvitsins, og telja verður, að hafi verið leiknir svo grátt, og það jafnvel af hálfu hins opinbera, að þeir geti ekki framar notið sín, ef fjárreiðum áveitunnar verður ekki komið á einhvern fastan grundvöll. Hjer er ekki um annað að ræða en að stj. fái leyfi þingsins til þess að semja um fjárreiður áveitunnar, og þá mun hún að rannsökuðu máli ganga frá samningunum á þeim grundvelli, hvað mikið bændur skuli greiða og hvað mikið ríkið taki að sjer. Ef þingið segir við stj.: Þú mátt velja þjer sjerfræðinga og svo máttu láta gera þessar framkvæmdir —, en gengur svo frá öllum samningum á eftir, þá er slíkt barnaskapur og í mesta máta óþinglegt.

Hvað gerði ekki þingið, þegar það fól hv. 1. þm. Skagf. að taka 10 milj. kr. lánið sællar minningar? Þetta gat hv. 1. þm. Skagf. gert, af því að þingið leyfði stj. að taka lánið. Hitt er annað mál, hvernig um lánið var samið: veðsetning tollteknanna, 15% í afföll og 100 þús. kr. í vasa milliliða.

Hv. 1. þm. Skagf. tók slæmt lán; um það verður ekki deilt, en hann hafði fulla heimild til þess að taka lánið, bara ekki til að veðsetja. Hann gat að vísu látið vera að nota heimildina, og var það undir dómgreind hans komið.

Ef þingið samþ. þessa till., þá er löglega um hnútana búið. Hinsvegar getur stj. ráðið því, hvort hún semur eða semur ekki. Hv. 3. landsk. getur því ekki sagt, að með samþ. till. sje verið að afsala sjer neinu. Hjer er um miklu minna atriði að ræða en svo, að torvelt sje að benda á margfalt stærri og víðtækari heimildir hins og þessa, sem fyrv. stj. voru veittar. En af því að jeg veit, að Skeiðamenn kenna verkfræðingunum um ólán sitt og að þeir eru komnir á höfuðið, þá er hefndartilfinningin svo mikil hjá hv. 3. landsk., að hann leyfði sjer að segja, að slík eftirgjöf sem þessi, ef til kæmi, væri ósambærileg við bankana, eins og hann kannaðist ekki við, að bankarnir hefðu gefið eftir svo tugum miljóna skiftir allskonar braskara- og kaupsýslulýð. Þann stutta tíma, sem jeg hefi verið í bankaráði Landsbankans, var aðalstarfið að gefa eftir af lánum manna. Jeg man eftir, að einn flokksbróðir hv. 3. landsk., sem heima á vestur á landi, skuldaði á 8. hundr. þús. kr., sem hann hafði fengið að láni í útibúinu á Ísaf. á meðan hv. þm. N.-Ísf. stýrði því. Eftir þeim gögnum og skilríkjum, sem fyrir bankaráðinu lágu, var það tekið fram, að maður þessi gæti alls ekki borgað meira en ca. 60 þús. kr., og að því var gengið; hin fúlgan öll var strikuð út, eða gefin eftir, eins og vanalegt er að kalla það. Jeg þekki fjölda manna í flokki hv. 3. landsk., sem ekki liggur annað eftir en að eyða og spenna stórfjárhæðum af landsfje.

Og svo er haldið fram, að hjer sje voði á ferðum, ef Alþingi fer að dæmi hins skipaða bankaráðs og reynir að semja um skuldina og fá það greitt af henni, sem rannsóknin leiddi í ljós, að bændum væri ekki ofvaxið að standa straum af. Annað en þetta liggur ekki fyrir að gera með þessari till.

Það er ekki hægt, að 42 þm. fari í einum hóp austur á Skeið til þess að semja við 50 bændur þar og greiði svo atkv. um, hvernig þessi skuldamál skuli jöfnuð. Hitt er ráðið, að safna sönnum og óyggjandi skýrslum um málið og semja við Skeiðabændur á þeim grundvelli.

Jeg sje ekki annað en að fyrir hv. 3. landsk. vaki það eitt að halda Skeiðamönnum áfram á skuldaklafanum, vitandi þó, að þeir geta aldrei borgað, hvorki vexti nje afborganir, og að landið hlýtur að tapa því, sem það hefir lánað í þetta fyrirtæki eða tekið ábyrgð á.

Hjer er aðeins farið fram á, að fylgt sje dæmi bankanna, sem gefið hafa eftir stórar fjárhæðir, bæði útgerðarmönnum, kaupmönnum og öðrum braskaralýð. En það hefir aldrei komið til þess enn, að þurft hafi að gefa bændum eftir vegna óreiðu þeirra í fjármálum. Skeiðamenn eru þeir fyrstu, er vegna óláns síns að hafa trúað mönnum, sem ekki mátti trúa, og af þeim sökum svo hart leiknir, að þeir geta ekki af eigin rammleik losast úr skuldafjötrunum.

Þess vegna er það hart, að fulltrúi þeirrar stjettar, sem mest hefir verið gefið eftir og ein hefir sukkað með landsins fje svo að af hefir hlotist lækkun krónunnar og viðhald dýrtíðarinnar í landinu —, það er hart, segi jeg, þegar fulltrúi slíks braskaralýðs leyfir sjer að vaða hjer uppi á Alþingi og segja, að um bændur, sem komist hafa í ólán fyrir það eitt að trúa „kollegum“ hans, verkfræðingunum, skuli gilda aðrar reglur —, það sje betl og húsgangsháttur að gefa bændum eftir eða beita við þá sama fyrirkomulagi og bankarnir hafa haft um eftirgjafir gagnvart braskaralýðnum. Ef halda á fram í alvöru, að sama eigi ekki að ganga yfir bændur, þá óska jeg, að birtur sje listi yfir nöfn þeirra manna og fjelaga, sem bankarnir hafa gefið eftir, til þess að sjást megi, hvað tapast hefir á pólitískum vinum og flokksbræðrum hv. 3. landsk. (JÞ: Ætli það verði nú gert?). Jeg hugsa, að hv. þm. álíti það enga synd að vitna í það, fyrst hann ætlar að halda skuldaklafanum áfram um háls Skeiðamanna.

Það er til máltæki, en að vísu ekki íslenskt, sem segir: að skilja er sama og að fyrirgefa. Hv. 3. landsk. vildi láta menn skilja, að það væri ekki verkfræðingunum að kenna, þó að ekkert vatn hefði komið í Skeiðaskurðinn í vor. En honum tókst ekki að fá mig til að skilja það, eins og jeg er margbúinn að taka fram. En hvort honum hefir tekist að láta aðra skilja þetta og á þann hátt fá fyrirgefningu handa verkfræðingunum, skal jeg ekki spá neinu um. Úr því verður atkvgr. að skera.

Þá kem jeg að ríkisprentsmiðjunni. Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að það eru prentsmiðjueigendurnir, sem nú eru komnir á stúfana og tala hjer fyrir munn hv. 3. landsk. Þó að hann reyndi af veikum mætti að færa rök fyrir því, að landinu gæti stafað hætta af þessu fyrirtæki, þá reyndi hann ekki að hrekja, að það gæti borgað sig fyrir ríkið að eiga sjálft sína prentsmiðju. Hann færði heldur engin rök fyrir því, að landinu væri betra að borga 300 þús. kr. til fyrirtækja, er verða að selja skilamönnum dýrt vinnu sína, af því að svo stórar fjárhæðir tapast á óskilamönnunum. Þess vegna vil jeg slá því föstu, að prentsmiðjueigendur og hagsmunir þeirra eigi hjer sinn málsvara, þar sem hv. 3. landsk. er. Honum þótti það goðgá af mjer, að hafa leitað til sjerfræðinga í þessu efni, eins lítið og jeg gerði úr verkfræðingunum. En sá er munurinn á mjer og hv. 3. landsk., að þegar jeg leita til sjerfræðinga, þá byrja jeg með að efast um, að þeir hafi á rjettu að standa, af því að jeg sje, að svo mörg spor liggja inn í holu ljónsins, en fá út þaðan. Þá fyrst, ef allar framkvæmdir sjerfræðinganna reynast vitlausar, eins og t. d. Skeiðaáveitan, standa þeir illa að vígi, sem gleypt hafa við órökstuddum áætlunum sjerfræðinganna. En fyr ekki. Því að sjerfræðingar, sem í eftirliti sínu og rannsóknum beita heilbrigðri skynsemi, eru góðir og nauðsynlegir, en hinir, sem haga störfum sínum gagnstætt, eru hættulegir og mega ekki koma nálægt neinum framkvæmdum.

Jeg hefi leitt svo mörg rök að því með skýrslu þeirri, er jeg gaf í fyrri ræðu minni um málið, að hægt sje að vinna upp kostnaðinn við prentsmiðjukaupin á 3–5 árum, og þar sem þau rök hafa á engan hátt verið hrakin, sje jeg enga ástæðu til að endurtaka þau nú.

Hv. 3. landsk. ljet sjer sæma að drótta því að mjer, að jeg mundi villa sjerfræðingunum sýn með fjemútum. En jeg lýsi hann fullkominn ósannindamann að því og vísa öllum slíkum ógeðslegum getsökum heim til föðurhúsanna. En þetta sýnir ljóslega, að hv. þm. þykist vita, hvaða freistingar bíða sjerfræðinganna, og hefir ef til vill einhverjar endurminningar um það úr sínum eigin herbúðum, þó að hann sjálfur hafi væntanlega staðist freistingarnar. Hvort óttast þurfi, að sá maður, sem unnið hefir að rannsókn þessa máls fyrir stj. hönd, fái atvinnu við prentsmiðjuna, verður ekkert hægt að segja. Það er ekki minn vani að ráða menn til fyrirtækja, sem óvíst er um að komist á fót.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að það væri frelsisrán, að leyft yrði að gera ráðstafanir um, að ríkið yfirtaki skuld hjá landsins eigin banka. Jeg ætla að minna hv. 3. landsk. á fáein atriði, þar sem þingið hefir leyft þetta.

Á fyrsta þingári mínu í tíð stj., sem jeg ekki studdi, var kallað á hjálp Reykjavíkurbæ til handa um leyfi fyrir stj. að ábyrgjast miljón kr. lán vegna rafveitunnar, en það er fyrirtæki, sem hv. 3. landsk. ljet framkvæma á allra versta og dýrasta tíma og bærinn stynur nú undir, en er þó ekki, þrátt fyrir þá miklu fjárhæð, sem það kostaði, betur úr garði gert en svo, að nú í byrjun maímánaðar sloknaði hjá föður ljósanna í þessum bæ. Það hefir viðgengist að samþ. á þingmálafundum hjer í Reykjavík, að ríkið taki ábyrgð á hinu og þessu og ekki verið hafðar um það 6 umr. Það virðist líka óþarft, að hafa 6 umr. um jafneinfalda till. og þá, hvort ríkinu skuli leyfast að yfirtaka 155 þús. kr. ábyrgð hjá eigin bankastofnun. Það kemur líka fram í kvöld að greiða atkv. um, hvort veita skuli ábyrgðarheimild fyrir 200 þús. kr. til þess að koma upp dráttarbraut hjer við höfnina. Þó liggur engin rannsókn fyrir og engin gögn nje skilríki um fjárhag fjelagsins, sem að þessu fyrirtæki stendur. Menn vita aðeins, að hjer eru mörg stærri og smærri skip, sem þarf að gera við, og því nauðsynlegt að koma hjer upp dráttarbraut. Jeg skal engu spá um það, hvort till. þessi verði samþ. En ef svo fer, þá verður það vegna þess trausts, sem hv. fjvn. nýtur, því að hún hefir borið till. fram. Það kann að vera, að hv. 3. landsk. sje á móti því að veita Slippfjelaginu 200 þús. kr. ábyrgð landsins, en hann hefir a. m. k. ekki talað gegn því.

Jeg skal ekki rengja hv. 3. landsk. um það, að honum hafi gengið illa prentsmiðjurekstur í þann mund sem hann fjekst við hann. En jeg vil benda honum á, að þá stóð nokkuð öðruvísi á fyrir honum sem pólitískum spekúlanti heldur en ríkissjóði, og jeg þori að fullyrða, að ef hv. 3. landsk. þyrfti að láta prenta fyrir 300 þús. kr. árlega, þá myndi hann áreiðanlega ekki fara til prentsmiðjanna hjer í bænum, heldur leita að annari hagkvæmari leið. Hv. 3. landsk. segist hafa reynslu á þessu sviði. En hvernig er þeirri reynslu háttað? Jú, hann gaf út pólitískt blað. Allir þeir, sem til slíkra hluta þekkja, vita það, að útgáfa slíkra blaða er í senn kostnaðarmikil og ábatalítil. Það eru því engin undur, þó reynsla hv. þm. hafi ekki verið alveg að óskum. (JÞ: Það bar sig nú). Jeg minnist þess nú, að jeg kom eitt sinn inn í prentsmiðju ensku kaupfjelaganna í Manchester. Þar voru 200 prentarar. Jeg spurði, hvort þeir prentuðu líka fyrir aðra. Þeir svöruðu því neitandi, kváðust eingöngu prenta fyrir kaupfjelögin; væri það aðeins eitt lítið blað og svo einkum miðar og álímingar á vörukassa og eyðublöð. Kaupfjelögunum datt ekki í hug að kaupa slíkt hjá öðrum.

Hv. 3. landsk. er gamall heimastjórnarmaður. Hann ætti því að muna það, að leiðtogi þess flokks, Hannes heitinn Hafstein ráðherra, hafði beinlínis viðbúnað um stofnun ríkisprentsmiðju og lagði ríka áherslu á framgang þess máls. En honum entist ekki aldur til þess að koma þessu áformi í framkvæmd, og ef til vill mun hann hafa rekið sig á prentsmiðjupúkann. En jeg tel það enga sönnun, þótt hv. 3. landsk. strandaði með prentsmiðjurekstur sinn. Slíks eru mörg dæmi með þessi litlu blöð, enda verða prentsmiðjurnar einatt fyrir miklum skakkaföllum af þeirra völdum, sem þær síðan láta ríkið greiða með dýrari prentun. Ríkið verður á þennan hátt að blæða fyrir mistök og fjárglæfra þessara miður þörfu fyrirtækja.

Að lokum vil jeg slá því föstu, að enginn hygginn atvinnurekandi myndi kaupa alla prentun, ef hann þyrfti að láta prenta fyrir 300 þús. kr. á ári, eins og ríkið gerir nú. Og jeg spái því, að ekki muni líða á mjög löngu, áður en ríkisprentsmiðjan muni verða reist, og þegar hún er komin á fót, mun það sannast, að ekki taki nema 3–5 ár til þess að vinna upp byggingarkostnaðinn með auknum sparnaði.