01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði ekki tekið eftir brtt. hv. þm. Snæf. fyr en hann talaði fyrir þeim. Þykja mjer hans till. miklu verri en þær till., er jeg hefi flutt, að því leyti sem þær snerta sama efni. 1 till. hv. þm. er reglugerðin alveg óákveðin, en það mundi verða notað af stjórnarvöldunum til þess að gera minna úr lánadeildinni en ella.

Fyrri till. hv. þm. tel jeg skaðlega, því að með því móti fær lánadeildin ekki nema 300 þús. kr. úr ríkissjóði. Jeg álít, að hægast verði að stöðva fjárframlagið, ef lánadeildin yrði yfirfull af fje, og því hafði jeg ekki sett neitt tímatakmark fyrir framlaginu. Jeg mun þess vegna greiða atkv. á móti þessari till., og sömuleiðis 2. till., því að mjer finst hún óheppilegri en d-liður minnar till. um sama efni.

Hv. frsm., 6. landsk., andmælti heldur brtt. mínum, og þá einkum 1. brtt. Mjer finst þó, að óþarft hafi verið fyrir hv. frsm. að andmæla frestunarheimildartill. til stjórnarinnar, því að hann ætti að geta treyst sinni stjórn til þess að gera það besta, sem hægt er í því efni. Ennfremur er það ólíklegt, ef bankinn verður settur á stofn, að frestað verði að stofna veðdeildina, nema ástæður sjeu fyrir hendi, en þá er frestunarheimild nauðsynleg.

Þá þótti hv. frsm. óþarft að fresta veðdeildinni, þótt ekki fengist lán erlendis til kaupa á brjefum hennar. Jeg vil benda hv. þm. á það, að það gæti orðið varhugavert, ef halda á brjefum bankans uppi með því að láta ýmsa sjóði kaupa þau fyrir fult verð (affallalaust), án tillits til þess, hvað fást mundi fyrir brjefin með venjulegri sölu. Ennfremur er það líklegt, að brjef bankans seljist ekki mikið fyrst í stað, því að peningamenn vilja vita, hvort þau brjef, sem þeir kaupa, sjeu góð, og mundu þeir þá fremur kaupa brjef veðdeildar Landsbankans, sem þegar eru orðin þekt. Þess vegna gæti það verið nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að geta frestað stofnun veðdeildar, þangað til fengist hafa lán með góðum kjörum til að kaupa fyrir brjef veðdeildarinnar. Jeg veit ekki, hvort búið er að gera ráðstafanir til þess að taka þessi lán, en jeg hefi heyrt utan að mjer, að vextir hjá stórbönkunum í Englandi og Ameríku sjeu nú mjög háir. Ef svo er, er mjög slæmt að ráðast í slíka lántöku, því að það hlyti að koma fram í hærri vöxtum innanlands. Alveg eins og þegar enska lánið var tekið. Það var tekið með okurvöxtum og afföllum, og nú miðast vextirnir í landinu við það.

Hv. frsm. hjelt því fram, að Landsbankinn þyrfti ekkert að sinna búnaðinum eftir að Búnaðarbankinn væri tekinn til starfa. Þetta fer náttúrlega eftir því, hve mikið fje Búnaðarbankinn fær til umráða. En þar að auki hygg jeg, að fjöldi bænda, sem hefir haft viðskifti sín við Landsbankann og líkað þau vel, muni halda þeim áfram, þótt Búnaðarbankinn taki til starfa. Fyrir þær sakir má því gjarnan ljetta þeirri kvöð af Landsbankanum að kaupa verðbrjef ræktunarsjóðs. Jeg sje því ekki, að bankanum verði komið í neitt óefni fyrir till. mína, og heldur ekki fyrir till. hv. 3. landsk. Aðaláhersluna á að leggja á að halda deildum bankans eins og nú. Það gerir bankann veglegri og voldugri til starfs, þegar fram í sækir.

Það er gott fyrir stjórnina að hafa heimild til að fresta veðdeildinni. Það væri leiðara, ef hún þyrfti að fresta henni heimildarlaust. Fyrir það yrði hún ekki vítalaus og það væri hægt að leggja henni út til lasts.