15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

16. mál, fjárlög 1930

Hákon Kristófersson:

* Jeg á hjer tvær brtt., og vildi jeg fara um þær örfáum orðum. Jeg ætla þá að byrja á því, áð hjer hafa heyrst raddir um, að rjettast hefði verið að samþ. fjárl. óbreytt eins og þau komu frá hv. Ed. Jeg skal nú ekki mótmæla þessu út af fyrir sig, en hinsvegar finst mjer undarleg sú undanlátssemi þessarar hv. deildar, sem hefir lýst sjer í því að taka við fjárl. ár eftir ár og samþ. þau hvernig sem hv. Ed. hefir látið sjer vel líka að misþyrma þeim. Ef þetta á að tíðkast framvegis, þá mætti líta svo á, að hv. Ed. sje einskonar yfirdeild þingsins og eigi að hafa úrslitaatkvæði um fjármálaefni þjóðarinnar. Þessum skilningi vil jeg harðlega mótmæla, að hv. Ed. hafi nokkurn yfirráðarjett yfir hv. Nd. eða sje henni að nokkru æðri, nema síður sje. — Jeg skal kannast við, að gæta beri fullrar varfærni í meðferð fjárl., en það máttu hv. þm. hafa hugfast þegar í byrjun. Eins hefði hv. Ed. mátt gæta betur sóma síns og sýna meiri varfærni og minni hlutdrægni í meðferð sinni á fjárl. Menn geta, því miður, ekki varist þeirri hugsun, að það skifti ekki litlu, hver í hlut á, þegar litið er á niðurskurð hv. Ed. á sumum sviðum og hækkanir á öðrum.

Þó talað sje nú um það af sumum, að gæta beri varúðar í fjármálum, þá virðist svo, að á því herrans ári 1929 sje ráðist í svo mikið, þar sem t. d. á að verja stórfje til jarðakaupa, prentsmiðjukaupa o. fl., að erfitt sje að hafa á móti smámununum. Jeg er ekki með þessu að hafa á móti þessum fyrirtækjum í sjálfu sjer, en þetta virðist ekki benda til, að fjárhagurinn sje mjög þröngur.

Fyrri brtt. mín er XIV. brtt. á þskj. 646, um 2 þús. kr. styrk til Samúels Eggertssonar til þess að semja og gefa út heildaruppdrátt af sögu Íslands. — Þetta er samskonar till. eins og áður hefir verið samþ. í þessari hv. deild. En meðal þeirra bjargráða, sem hv. Ed. fann til að rjetta við fjárhaginn, var að skera þetta niður. Jeg er þó ekki viss um, að alt það, sem Ed. hefir sett inn í fjárl., eigi meiri rjett á sjer en þetta. Jeg hefi áður mælt fyrir þessari till. og skal ekki endurtaka það nú, en vænti, að þeir hv. þm., sem ekki töldu sig glata sóma sínum með jáyrði sínu hið fyrra sinnið, greiði henni einnig nú atkv. sitt.

Þá er síðari brtt. mín XXI. brtt. á þskj. 646, um að upphæð sú, sem veitt er til stórstúku Íslands, verði færð í sama lag og hún var þegar frv. fór hjeðan frá þessari deild. Enda þótt jeg álíti, að þessi stofnun sje þörf og alls góðs makleg, ef rjett er með hana farið, þá tel jeg fullsómasamlegt að veita henni 10 þús. kr. styrk. Jeg vil ekki segja meira um þetta, nema að gefnu tilefni, ef mótmæli koma fram. Hinsvegar finst mjer, að ekki væri úr vegi, að þm. fengju einhverntíma að vita, hvernig þessu fje er varið. Jeg vil ekki ætla, að þessu fje sje varið til að koma upp danshúsum eða þess háttar, heldur vænti jeg, að unnið sje að því að þroska þjóðina, svo að hún skilji, hvað það er andstyggilegt og góðum borgurum ósæmilegt að neyta áfengis svo úr hófi sje. Jeg ætla svo ekki að svo stöddu að segja meira um þessa till., en fel hana á vald hv. d.

Í sambandi við vegagerðir skýrði hæstv. dómsmrh. frá því, að svo væri ástatt um brú eina fullsmíðaða, að ekki væri hægt að koma henni upp vegna þess að ekki fengjust menn til að gera vegarspotta að brúarstæðinu. Út af þessu vil jeg segja það, að sje þetta tilfellið einhversstaðar á landinu, þá væri rjett að láta það ganga fyrir að byggja brýr í þeim hjeruðum landsins, þar sem meiri áhugi er fyrir samgöngubótum. Annars held jeg, að þetta geti ekki talist veigamikil ástæða gegn framlögum til vega- og brúargerða.

Jeg skal svo ekki tala meira um þær brtt., sem fyrir liggja. Flm. þeirra hafa nú talað fyrir þeim og um þær verður að fara sem verða vill. Jeg vænti, að jeg hafi nú stilt svo í hóf orðum mínum, að ekki þurfi að vekjast deilur af. Skal jeg svo láta máli mínu lokið.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.