01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Björn Kristjánsson:

Af því að hv. frsm. andmælti brtt. hv. 3. landsk., þá vil jeg leyfa mjer að leita upplýsinga hjá honum um tvö atriði.

Í 13. gr. frv. segir, að ríkissjóður leggi veðdeildinni til stofnfje að upphæð 1250 þús. kr. Greiðist það í skuldabrjefum viðlagasjóðs. Samkv. 40. gr. á ríkissjóður að leggja bústofnslánadeild til 1700 þús. kr. í skuldabrjefum viðlagasjóðs. (JónJ: Nei, 1 milj. kr. og þar af 700 þús. í skuldabrjefum viðlagasjóðs). Já, það eru 700 þús. kr. Það er rjett, en þrátt fyrir það, á viðlagasjóður ekki svo mikið í skuldabrjefum einstakra manna og stofnana, og vil jeg spyrja hv. frsm., hvernig hann hugsar sjer, að stjórnin framkvæmi þessi ákvæði.

Annað atriðið, sem jeg vildi leita upplýsinga um, er viðvíkjandi 45. gr. Jeg vil spyrja, hvort vottorði hreppstjóra, er þar getur, fylgi ábyrgð hans, líkt eins og talið er, að ábyrgð fylgi eignar- og veðbókarvottorðum sýslumanna. Ef svo er ekki, hvers virði er þá vottorðið fyrir lánsstofnunina? Hvers vegna er verið að setja þetta í lögin, ef það er einskis virði? Vitanlegt er það, að hreppstjórar halda ekki veðmálabækur og geta því ekki gefið slík vottorð. Það er rjett, að þetta komi fram í umr., til þess að lögskýrendur síðar meir geti dæmt um, hvort þessu vottorði fylgi ábyrgð eða ekki.