15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

* Jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram tvær brtt. á þskj. 646. Þessar brtt. eru báðar gamlir kunningjar, því að báðar voru bornar hjer fram við 2. umr.

Fyrri brtt. er X. brtt. á þskj. 646 og er um það, að gagnfræðaskóli Reykjavíkur fái þær 2000 kr., sem voru samþ. hjer við 2. umr. En hv. Ed. hefir nú sýnt mannskap sinn á þessari till. og felt þennan styrk niður. Jeg ætla fyrir mitt leyti ekki að fara í neinn jöfnuð milli deildanna, en jeg verð að segja, að það er mjög einkennilegt, ef hið háa Alþingi vill ekki vita þessum skóla neinn styrk, og jeg veit sannast að segja ekki, af hvaða ástæðu það yrði gert. Hæstv. dómsmrh. mat þessa till. svo mikils að offra upp á hana nokkru af sinni dýrmætu ræðu hjer í dag, og færði hann fram sem aðalástæðu gegn þessari till., að hjer væri um einkaskóla að ræða, og gæti því ekki komið til mála að styrkja hann. Nú er það alkunna, að ýmsir af þessum skólum, sem styrktir hafa verið af hálfu ríkisins, hafa einmitt byrjað sem einkafyrirtæki og verið reknir þannig fram að þessu. Það má eiginlega segja, að ungmennafræðslan hafi komið þannig upp víðast hvar, a. m. k. til sveita, að einstakir menn hafa tekið sjer fram um að stofna skóla. Þeir hafa auðvitað haft á bak við sig einhvern styrk, t. d. sýslufjelag, en það hefir verið undantekningarlaust reglan, að ef komið hefir upp myndarlegur og góður skóli, sem hefir fengið viðurkenningu fyrir að vera vel rekinn, þá hefir ríkið veitt til hans styrk. í þessum skóla eru 42 nemendur þegar á fyrsta ári. Það er m. ö. o. svo stór skóli, að ef áframhaldið verður svipað og byrjunin, þá verður þegar í stað um tvískiftan skóla að ræða.

Bærinn hefir einnig litið á nauðsyn slíks skóla og styrkt hann. Enda er það viðurkent af öllum, að enginn staður á landinu sje ver settur með ungmennafræðslu en Reykjavík. Það mætti segja, að búið væri að sjá þessu máli borgið — og hæstv. ráðh. bar það fram — með lögum, sem samþ. voru um ungmennafræðslu í Reykjavík, og þeim skóla, sem samkv. þeim l. var stofnaður. Nú vil jeg ekkert segja um þann skóla, nema alt gott, þó að jeg þekki raunar ekki mjög vel til hans; en sá ljóður er á hans ráði, að húsnæði hans er mjög takmarkað, — alt of lítið í þessum bæ, sem hefir um 25 þús. íbúa. Og jeg hefi heyrt það jafnvel haft eftir forstöðumanni þessa skóla, að það sje svo fjarri því, að við þessum gagnfræðaskóla í Reykjavík sje vert að amast, heldur sje það gott, að einstakir menn hafi tekið sjer fyrir hendur að bæta úr því, sem áfátt hlýtur að vera í hinum skólanum, eins og að honum er búið að ýmsu leyti.

Hjer hafa nokkrir menn tekið sig saman um það að leggja fje og fyrirhöfn í skóla, og aðstandendur unglinganna vilja leggja á sig að greiða — að jeg held — helmingi meira kenslugjald heldur en annars er greitt við unglingaskólann í Reykjavík. Enginn maður efast um, að þessi skóli sje vel rekinn, að fyrir honum sje góður forstöðumaður og vandað sje til kennara. Jeg veit ekki, hvað það á að vera annað en blint flokkshatur, sem kemur mönnum til að neita þessum eina skóla um styrk. Það er bara ofsókn og ekkert annað. En jeg fyrir mitt leyti ætla að vænta þess, að þessi hv. deild láti ekkert slíkt ráða hjá sjer. Jeg vona, að hún standi við sína fyrri aðstöðu í þessu máli. Hjer er ekki farið fram á stór fjárútlát, heldur aðeins örlítinn styrk. Enda heyrðist það á hæstv. ráðh. í dag, að það var ekki fjárhagshliðin, sem hann setti fyrir sig, heldur að þetta væri einkaskóli.. En þá ástæðu hefi jeg nú athugað og gagnrýnt.

Nei, jeg álít, að ein ástæða gæti legið til þess að samþ. ekki þessa litlu fjárveitingu, nefnil. sú, að menn vildu ekki breyta fjárl., og út í það skal jeg ekki fara.

Þá hefi jeg borið fram 13. brtt. á þessu sama þskj., um það, að Karlakór Reykjavíkur fái 1500 kr. styrk til þess að fá sjer kenslu hjá söngkennara. Til þessa fjelags var hjer í deildinni samþ. 2000 kr. styrkur, en hv. Ed. lækkaði hann um helming með eins atkv. meiri hl. Samt sem áður fer jeg svo vægt í sakirnar og vil helminga það, sem á milli ber.

Þegar maður lítur á, að það eru milli 30 og 40 menn, sem ætla fyrir þetta að afla sjer kenslu, sem er alldýr og ekki til neins að taka, nema afla sjer hennar í nokkuð ríkum mæli, þá er auðsjeð, hvað þetta er afarlítið á hvern mann. Eins og gengið er frá styrknum í Ed., er það ekki nema 30 kr. á mann — sem sagt hreint ekki neitt. Úr því að verið er að líta á áhugastarf þessara manna, sem leggja mikið á sig endurgjaldslaust til þess að gera sig sem færasta í sönglist, þá eru 1500 kr. sú minsta viðurkenning til þessa stóra og ágæta söngflokks.

Ennfremur hefi jeg leyft mjer að bera fram tvær brtt., sem birtast á þskj. 651. Fyrst er það, að ofurlítil breyt. verði gerð á aths. við einn lið. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var samþ. styrkur nokkur til Jóns Kristjánssonar nuddlæknis, 1200 kr. Svo var sú aths. sett þar við, að hann skyldi kenna nemendum læknadeildarinnar sína sjergrein og sömuleiðis halda uppi nokkurri ókeypis lækningu í sinni sjergrein. Þegar læknadeildin tók eftir þessu, sem ekki var fyr en svo seint, að ekki var hægt að snúa sjer til n., urðu þeir mjög óánægðir með þessa aths. við liðinn. Háskólinn á þann rjett, að ekki sje þangað skipaður kennari, nema umsagnar deildar háskólans sje leitað, en hjer er beinlínis skipaður kennari án þess að spyrja hana nokkuð ráða. Þar að auki á þessi kennari að hafa 200 kr. hærri styrk heldur en aðrir kennarar þessarar deildar, sem eru búnir að starfa þar nokkurn tíma.

Jeg vil leyfa mjer að lesa örstutt brjef frá núverandi forseta læknadeildarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Á 12. gr. fjárl. hefir verið tekinn upp 1200 kr. styrkur til Jóns Kristjánssonar nuddlæknis, sem skilyrði um að kenna stúdentum nuddlækningar. Hann er því, án þess að leitað hafi verið álits háskólans, gerður að aukakennara, og það með hærri launum en hinir aukakennararnir. Deildin mun ekki óska þessa, og afleiðingin er sjálfsagt sú að færa upp laun hinna kennaranna, ef þingið breytir hjer háskólalögunum og setur kennara að háskólanum fornspurðum“.

Jeg býst við, að hv. þm. muni, að heyrðum þessum upplýsingum, ganga inn á, að þetta sje algerlega rjett á litið hjá læknadeildinni. Það er vitanlega meiningarlaust að skipa þann kennara, sem þeir kæra sig ekki um að fá. Jeg leyfi mjer að leggja til, áð nýrri aths. verði skotið inn í: „ef deildin telur það æskilegt“. Deildin getur látið það í ljós, ef hún vill fá einhvern kennara, en það er ekki hægt að útiloka lækninn frá styrknum með því að neita að taka við honum sem kennara í deildina.

Loks ber jeg fram 4. brtt. á þskj. 651, og er hún stærst af þessum till. Hún fer fram á að ábyrgjast alt að 60 þús. kr. lán til kvennaskólans í Reykjavík, gegn þeirri ábyrgð, sem stj. tekur gilda. Að þessi till. kemur svona seint fram, stafar af því, að ástæðan til hennar hefir ekki komið fram fyr en nú í þessum svifum. Eins og mönnum er kunnugt, hefir kvennaskólinn leigt húsnæði, sem er honum mjög hentugt að flestu leyti. Eigandi þessa húss hefir nú boðið skólanum það til kaups. Skólanefndin getur ekki ráðist í kaupin, en á það á hættu, að húsið verði selt öðrum fljótlega. Húsið er á mjög þægilegum stað í bænum, með góðri og fallegri lóð, og er því húsið áreiðanlega útgengilegt, svo að eiganda mun takast að selja það öðrum, ef skólinn gengur frá. Af því að þetta var komið í eindaga, sneri skólanefndin sjer til mín með tilmælum um að flytja þessa brtt. Annars hefði hún að sjálfsögðu snúið sjer til n. með málaleitan þessa.

Um þetta mál hefir skólanefndin skrifað mjer brjef, frekar stutt, og vildi jeg því leyfa mjer að lesa það upp:

„Í brjefi því, sem sent var hinu háa Alþingi nú að áliðnu þingi fyrir hönd kvennaskólans í Reykjavík, um styrk til skólans, var þess getið, að nefndinni þætti nauðsyn til bera, að skólinn eignaðist sjálfur skólahúsið, og gæti að öðrum kosti að því rekið, að hann stæði uppi húsnæðislaus.

Nú er svo komið, að eigandi hússins hefir gert nefndinni tilboð um kaup á húsinu, eða áskilið sjer að henni frágenginni að leita annars kaupanda.

Leikur nefndinni mjög mikill hugur á að geta fest kaup á húsinu, og sjer fram á það að öðrum kosti, að til mikilla vandræða muni horfa fyrir skólann. En eins og hinu háa Alþingi er kunnugt, brestur skólann enn allmjög fje til þess að geta af sjálfsdáðum ráðist í kaupin.

Fyrir því leyfir nefndin sjer nú að fara þess á leit við yður, háttvirti herra alþingismaður, að þjer vilduð ásamt fleirum, er til þess vildu verða með yður, bera fram tillögu um, að hið háa Alþingi vildi á nokkurn hátt greiða fram úr þessu vandræði skólans, annaðhvort með lánsheimild úr viðlagasjóði fyrir alt að 60000 króna láni eða ábyrgðarheimild fyrir þeirri upphæð. Þótt húsið muni kosta allmjög miklu meira, væntir nefndin með þessari upphæð að geta fest kaupin og komist að viðunandi greiðslukjörum.

Virðingarfylst.

Í forstöðunefnd Kvennaskólans í Reykjavík, 15. maí 1929.

Anna Daníelsson. Guðrún J. Briem. Bjarni Jónsson. Kristinn Daníelsson“.

Jeg hefi sem sagt ekki fengið fleiri til að vera á þessari till., af því hvað tíminn var naumur. Það er víst svo, að ennþá hafa ekki tekist neinir samningar um verð á húsinu, og stj. hefir alt á sínu valdi þegar til þess kæmi að nota þessa ábyrgðarheimild, og þarf ekki að styrkja kaupin, nema henni þyki þau aðgengileg og hún hafi fengið þær tryggingar, sem hún vill heimta í þessu efni. Jeg þykist líka vita, að eftir því, hvernig skólinn hefir verið rekinn og eftir þeirri varúð, sem skólanefnd hefir sýnt í fjármálum skólans, þá megi reiða sig á, að hún fer ekki út í þessi kaup, nema þau sjeu hagfeld fyrir skólann. Jeg býst við, að hv. þdm. vilji kannast við, að þetta hús er mjög verðmæt eign. Það er prýðilega sett, en heldur út úr, steinhús og fylgir því talsvert rífleg lóð, um nokkuð á 5. þús. ferálnir. Það er vafalaust, að ef viðunandi verð fæst, þá er mjög hentugt fyrir skóla að kaupa þetta hús. Aftur á móti, ef húsið er selt öðrum, er ekki víst, að það verði leigt neinum skóla. Mundi þá þessi skóli standa uppi í vandræðum. Og ekki yrði öðrum skólum fyrir það betra um húsnæði, t. d. unglingaskólanum, ef kvennaskólinn gerðist þar keppinautur.

Jeg leyfi mjer þess vegna að fara fram á, að hv. deild samþ. þessa till., enda þótt jeg játi, að nóg sje komið í 23. gr. af heimildum fyrir stj. Jeg vildi fara fram á við hv. deild, að hún yfirstigi þennan fyrsta þröskuld og muni, að ennþá er eftir hæstv. stj., sem þarf að yfirvinna, til þess að hægt sje að nota þessa heimild.

Jeg hafði hugsað mjer að minna hv. deild á eina brtt., sem kom inn í hv. Ed. og vikið hefir verið að af öðrum hv. þm., sem sje heimild stj. til þess að kaupa prentsmiðjuna Gutenberg, með tilheyrandi lóð og húsum, fyrir alt að 155 þús. kr. Jeg hefi ekki lagt það í vana minn að tala um brtt. annara og gera mig að yfirmanni í þeim efnum. En mjer finst þessi till. svo einkennileg, að það er ómögulegt annað en tala töluvert um hana, úr því að hæstv. dómsmrh. hefir valið þessa afarundarlegu leið, að koma með þetta mál inn í 23. gr. fjárl., og það við 3. umr. í Ed.

Það var annars einkennilegt, hvernig hæstv. ráðh. mælti fyrir þessari till. Hann varði mestum parti sinnar löngu ræðu til þess að bera saman kaup á þessari prentsmiðju og annari prentsmiðju hjer í bæ, eins og það væri afgert mál, að ríkið kaupi prentsmiðju, og í öðru lagi endilega þessa prentsmiðju. Og hann var lengi að sýna fram á, að betra væri að kaupa Gutenberg heldur en t. d. Acta. Það er mjög einkennilegt, hvað hann mintist lauslega á hinar prentsmiðjurnar, sem mjer skilst, að sjeu betri fyrirtæki en þessar tvær. Þetta eru hvorttveggja stórar prentsmiðjur, alveg eins stórar og hinar til uppjafnaðar. En jeg hefi heyrt það af þeim manni, sem var falið að rannsaka málið á milli þinga, að fyrir hann hafi verið lagt að fara ekki til þeirra prentsmiðja, heldur bara athuga kaup á Gutenberg og Acta. Jeg veit ekki, hvers vegna þetta er. Það er algerlega óhugsandi, að nokkur flokkapólitík hafi komist inn í þetta, enda er nú ekki mikil hætta á henni.

Hæstv. ráðh. sýndi fram á, hve miklu betra væri að kaupa Gutenberg heldur en Acta. Og jeg get fallist á, að þetta er það eina rjetta í ræðu hæstv. ráðh. En þá er það sennilega af því, að Gutenberg hefir verið einna óheppilegust fyrir ríkið af þessum fjórum. Hann sagði, að Acta væri ný prentsmiðja, svo að hennar áhöld væru ný. Hann heldur, að aldur prentsmiðju og aldur verkfæra sje það sama. Jeg er ekki fróður í þessum efnum, en jeg get upplýst hæstv. ráðh. um það, að þó að prentsmiðjan Acta sje ný, þá eru alls ekki hennar hlutir eða áhöld ný. Setjaravjelar t. d., sjerstaklega ef þær eru ekki af vandaðri gerð og standa ekki í heppilegu plássi og fá ekki góða meðferð, eru alls ekki endingargóðir hlutir. Um þetta veit maður það, að það er mjög fljótt að slitna við notkun, þannig að prentsmiðjur verður altaf að endurnýja með tiltölulega fárra ára millibili.

Það er sagt, að Gutenberg eigi að kosta 155 þús. kr. En er það svo? Ekki hefi jeg sjeð þá samninga. Eða er búið að gera samningana um kaupin? Það er alveg óheyrilegt, að þm. skuli ekki fá að sjá þá, ef svo er. Það stendur nú svo á, að jeg hefi umráð yfir nokkrum hlutabrjefum í Gutenberg. Jeg hefði því ekki nema hag af, ef hægt væri að prakka henni inn á ríkið. En ekki hefi jeg heyrt, að stj. prentsmiðjunnar hafi staðið í neinum samningum við ríkið. Hvaða skilyrði eru sett í þeim samningum?

Það er ómögulegt að samþ. þetta svona út í bláinn. Það er vanalega svo, að þingið vill leggja stj. lífsreglurnar. Því setur það lög og reglur, að það treystir jafnvel hinni bestu stj. ekki svo vel, að það láti hana hafa óbundnar hendur.

En setjum nú svo, að alt sje klappað og klárt og prentsmiðjan fáist fyrir 155 þús. kr. En er þá alt fólgið í þessu? Það hygg jeg að sje ekki. Það er vitanlegt, að eigi prentsmiðjan að koma að fullum notum fyrir ríkið, þá verður það að leggja í enn meiri kostnað. Gutenberg hefir ekki nema eina setjaravjel. En ætti hún að hafa undan önnum ríkisins, þyrfti hún að hafa 2–3 setjaravjelar. Hver setjaravjel kostar um 25 þús. kr. Það er undarlegt, að stj. skuli ekki biðja um heimild til að kaupa setjaravjelar. Það verður þó nauðsynlegt strax í byrjun. Kostnaðurinn verður því ekki 155 þús. kr., heldur 200 þús. kr. En ekki veit jeg, hvar á að koma fyrir nýrri vjel. Mjer sýnist sannarlega vera þröngt um þá einu.

Hæstv. ráðh. talaði um, að húsið væri hentugt. Jeg skal ganga inn á það að nokkru leyti. En það er þó gamalt og timburhús. Það getur brunnið hvenær sem er. Það er að sjálfsögðu vátrygt. En það er ekki nóg til að firra öllu tjóni. Af því leiddi stórkostlega vinnustöðvun, sem kæmi hart niður á ríkinu. Ef ríkisprentsmiðjan fjelli úr sögunni t. d. um sjálfan þingtímann! Það er alt annað eins og nú er, þegar prentun ríkisins er dreift milli margra prentsmiðja. Þá er hægt að færa baggana yfir á hinar, ef óhöpp steðja að einni.

Hæstv. ráðh. mælti mjög með þessu af því, að aðalupphæð kaupverðsins væri skuld við Landsbankann. Eins og þetta eigi að vera eitthvert bjargráð við Landsbankann! Það má búast við, að hæstv. ráðh. færi þessa hugmynd lengra út, að bjarga Landsbankanum, með því að taka á ríkið fyrirtæki, sem eru illa stæð og skulda honum. Þetta liggur beint við, ef farið er inn á þessa bjánalegu hugsun.

Öll ræða hæstv. ráðh. var bollaleggingar um það, hvaða prentsmiðju ríkið ætti að kaupa. En það er dálítið undarlegt að ræða fyrst um það, hvernig ríkið eigi að setja upp prentsmiðju, áður en ákveðið hefir verið, hvort ríkið skuli setja upp prentsmiðju. Það var samþ. hjer þáltill. í fyrra um þetta efni, er jeg skal lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta gera fyrir næsta þing áætlun um stofnkostnað og starfrækslu ríkisprentsmiðju, er annast geti prentun ríkissjóðs og opinberra stofnana“.

Þetta er alt og sumt. Þetta er nú öll heimildin, er stj. hefir fyrir því að setja upp og starfrækja ríkisprentsmiðju.

Alþ. í fyrra fer fram á það við stj. að láta rannsaka kostnað við stofnun og starfrækslu ríkisprentsmiðju. Hvar er árangurinn af þessari rannsókn? Í stað þess að lauma þessari heimild inn í fjárl. við 3. umr. í Ed. átti hann að sjálfsögðu að liggja skjallega fyrir þinginu, svo þm. gætu myndað sjer skoðun á málinu. Jeg vil spyrja hæstv. ráðh., hvort til sje nokkur skýrsla frá manni þeim, sem mjer er sagt, að framkvæmt hafi þessa rannsókn. Jeg bíð eftir svari. — — Steinhljóð!

Jeg vil leyfa mjer að lýsa eftir þessari skýrslu hjá hv. þm. Er nokkur hjer inni, sem hefir sjeð hana? Jeg hefi heyrt, að eitthvert plagg um þetta mál gangi hjer um meðal rjetttrúaðra. Stj. var falið að láta framkvæma rannsókn, og svo heldur hún rannsókninni fyrir þingmönnum, en heimtar, að þeir samþ. heimild til sín, án þess að gefa nokkrar upplýsingar um málið. Það hefir oft verið samþ. vantraust á stj. fyrir minna en þetta. Þetta hlýtur að vera eitthvert voðaplagg. Það er sýnilegt, að það mundi verða til að drepa till. Annars væri engin ástæða til að halda því fyrir þm. Jeg skora á hæstv. ráðh. að lána mjer það snöggvast. Jeg ætla að doka við og sjá, hvort þetta hrífur! — —

Jæja, jeg verð þá að fara eftir sögusögnum um hitt og þetta, sem í þessu plaggi greinir. Jeg hefi heyrt, að rannsóknin hafi verið falin Steingrími nokkrum Guðmundssyni, sem sagt er að sje bróðir hv. þm. Ísaf. Jeg þykist vita, að það sje greindur maður eins og hann á kyn til, en ekki veit jeg, hvort hann hefir vit á þessu máli. En eitthvað virðist vera mislukkað, úr því hæstv. ráðh. þorir ekki að leggja skýrsluna undir dóm. þm.

Jeg hefi heyrt, að í þessu dularfulla plaggi sje áætlun um rekstrarkostnað prentsmiðjunnar, og kvað hann vera ætlaður um 200 þús. kr. á ári. Jeg er hræddur um, að þessi áætlun sje æðivarhugaverð. Yfirleitt vill áætlunum oft skeika, og það þarf ekki að skeika miklu á jafnstóru fyrirtæki, þó það skeiki um þær 50 þús. kr., er ríkinu á að sparast. Auk þess hefi jeg heyrt að engin áætlun hafi um það verið gerð, hvort prentsmiðjan mundi anna því verki, sem henni er ætlað. En þeirri prentun mun engin prentsmiðja á landinu anna. Þetta verður því að vera langstærsta prentsmiðjan, til að geta haft undan þegar mest liggur á. En hvernig á að fara að á þeim tímum árs, er prentsmiðjan hefir ekki undan? Þá yrði að kaupa út vinnu hjá öðrum prentsmiðjum, og ætti því einn liðurinn á kostnaðaráætluninni að vera um það. En það hlýtur t. d. að koma fyrir í þingönnunum. Jeg hygg því, að kostnaðaráætlunin, ef hún er eins og mjer er af henni sagt, sje öll ramskökk. Sennilegast er, að á prentsmiðjunni verði halli, hún muni sverja sig í ættina til annara ríkisfyrirtækja. Það er upplýst, að prentsmiðjumar í höndum einstaklinga berjast í bökkum, og halda einstaklingarnir þó úti öllum spjótum til að berjast fyrir lífinu. Landsbankinn á eina, hv. 2. þm. G.-K. vildi láta loka sinni. En undir eins og ríkið eignast prentsmiðju á að verða ágóði, 50 þús. kr., 75 þús. kr. — eða guð má vita hvað. Það er leiðinlegt, að reynslan skuli stöðugt þurfa að vera að kenna sumum mönnum, — að þeir skuli ekki geta lært lexíuna á einu fyrirtæki. Það ætti að vera nóg.

Og hvernig mundi nú rekstur prentsmiðjunnar ganga? Það er auðsjeð, að það verður ákaflega misjafnt, sem verður að gera. Um þingtímann getur engin ein prentsmiðja annað störfunum. Nú eru það 4 prentsmiðjur, er skifta þeim milli sín, og þó verður Gutenberg oft að neyta sinna ýtrustu krafta til að hafa undan. Ef ríkið ætlar að skifta við eina prentsmiðju, þá verður hún annaðhvort að vera óeðlilega stór, ef hún á að hafa undan þegar annirnar eru allra mestar, eða hún verður miðuð. við minstu þarfir og vinna keypt út hjá öðrum prentsmiðjum. Þá mætti og grípa til þess ráðs að láta verkið dragast, prenta umræðupartinn t. d. ekki fyr en eftir þinglok. Nú er verið að stríða við að koma þingtíðindunum sem fyrst út. En þó að ríkisrekstur baki mönnum allskonar áhættu, tap og óþægindi, þá er ekki verið að horfa í það. Bara að ríkið fái að eiga! Löngun sumra í það er makalaus. Hún er eins og löngun krakkans í bolta.

Hæstv. ráðh. upplýsti það, að hann hefði orðið til þess, að ríkið fór að skifta við 4. prentsmiðjuna. Nú er það skiljanlegt, hvers vegna hann kom með allar sínar fyrirspurnir fyrst þegar hann komst á þing. „Alþjóðkjörið spurningarmerki“ var hann nefndur þá. Nú sjer maður, til hvers það var. Það var gert til að skaffa nýrri prentsmiðju atvinnu. Þarna kemur skýringin á öllu fyrirspurnafárinu. Þetta getur maður kallað siðleysi kunningsskaparins, sem hæstv. ráðh. hefir talað um. Jafnvel fyrir mann, sem honum er nú ekki betur við en hv. 2. þm. G.-K., fer hann að bera fram fyrirspurnir, til þess að prentsmiðja hans fái atvinnu. Hvað mun þá vera um hið græna trjeð? Það er ekki að furða, þó sitthvað falli í skaut bestu vina hæstv. ráðh., úr því jafnvel hv. 2. þm. G.-K. hrærir hjarta hans til miður góðrar ráðstöfunar á ríkisfje.

Hæstv. dómsmrh. hugsar sjer, að prentaðar verði í ríkisprentsmiðjunni væntanlegu t. d. Þjóðvinafjelagsbækurnar. Menningarsjóðsbækurnar og Fornritaútgáfan. En það er bara eftir að vita, hvort hlutaðeigendur verða ánægðir með það. Jeg er ekki svo viss um það. Jeg er ekki viss um, að þeir sjeu nokkuð upp á það komnir að láta stj. segja fyrir um það, hvenær rit þeirra skuli vera tekin til prentunar. Það er nú svo, að þegar menn eru tilbúnir með rit sín, þá vilja þeir láta prenta þau strax, og yfirleitt vilja þeir láta haga prentuninni svo, að hún geti farið fram þegar þeir hafa bestar ástæður til þess að annast prófarkalestur o. þvíl. Og ef það fer nú svo, að þessar umtöluðu stofnanir vilja ekki láta prenta bækur sínar í ríkisprentsmiðjunni væntanlegu, þá held jeg, að ástæðurnar til þess að koma henni upp fari óðum að minka. Það væri þá helst til þess að hægt væri að segja, að ríkisprentsmiðja væri til. — Það á að gera öllum öll hugsanleg óþægindi til þess að ríkið geti átt prentsmiðju. En þetta má alt leysa strax með því að fella nú þegar brtt. úr fjárl. og standa í vegi fyrir öllum síðari tilraunum hæstv. dómsmrh., sem hann er viss með að gera, til þess að koma þessu fyrirtæki á fót.

Þá fór hæstv. ráðh. nokkuð út í það að gera upp gallana á ríkisrekstrinum yfirleitt. En heldur þótti mjer hann fara varlega í þær sakir, Það kann að hafa verið af því, að hv. þm. Ísaf. var inni í deildinni. Hann hefir ekki viljað móðga hann með því að tala neitt að ráði um galla þessa skipulags. Hann viðurkendi þó, að nokkrir gallar gætu verið á ríkisrekstri. Já, það gerði hann. Enn hann sagði, að aðalerfiðleikinn fyrir ríkisrekstur væri sá, að koma afurðum sínum í verð. Hann tók t. d., að ef ríkið ræki kúabú eða sauðfjárbú eða eitthvað þvílíkt, þá væru þetta aðalerfiðleikarnir. En hjer væri alt öðru máli að gegna, þar sem ríkisprentsmiðjan ætti í hlut, því ríkið gæti lágt henni til nóg efni til þess að vinna úr. Já, þvílíkt dæmalaust raus! Það hefir víst engum í heiminum dottið það í hug fyrri, að það erfiðasta við ríkisreksturinn væri það að koma afurðunum í verð. Nei, erfiðleikarnir eru á öllum öðrum sviðum. En aðalhættan er þó í því fólgin, að þeir, sem að fyrirtækjum ríkisins standa, reki þau ekki eins vel og ef þeir ættu þau sjálfir.

Og þó að ríkið í þessu tilfelli geti útvegað prentsmiðjunni nóg verkefni, getur það samt gefist illa, á þann hátt að prentunin verði dýrari en ella. Jeg þykist líka vita það, að úr því þessi áætlun, sem gerð hefir verið, gerir ekki ráð fyrir nema 50 þús. kr. árlegum sparnaði, þá sje það fyrirfram ákveðið, að hann verði enginn. Mjer er alveg sama, þó hæstv. ráðh. segi, að þetta fyrirtæki muni gefa af sjer 100 –200 þús. kr. árlega. Og skýrslan, sem samin hefir verið um þetta, hlýtur að vera ákaflega sannfærandi, ef hv. flokksbræður dómsmrh. treysta sjer til að samþ. þetta. Það væri annars nógu gaman að sjá þetta plagg, en það er líklega ekki nema fyrir sanntrúaðar framsóknarhetjur, en ekki fyrir okkur aumingja íhaldsmennina. Jeg sje nú, að hæstv. forseti hefir þetta plagg. Hann vildi máske vera svo góður að lána mjer þetta leyniplagg snöggvast. (Forseti rjettir þm. skjal mikið). Jæja, hjer er það þá loksins komið. (Blaðar í því). Jeg vona, að hæstv. forseti verði ekki mjög óþolinmóður. Þó jeg líti aðeins yfir það. (JAJ: Vill ekki hv. þm. lesa það upp?). Það væri reyndar full ástæða til þess.

Hjer sje jeg þá fyrst, að Acta muni fást fyrir 90 þús. kr. (ÓTh: Jeg skal slá af henni 10 þús. kr.). Þarna svarar einn aðaleigandi hennar og segist vilja slá af henni 10%, svo ekki hefir nú verið leitað fast eftir því, hvaða prentsmiðja fengist með bestum kjörum. Jæja, jeg fæ máske að líta betur yfir þessa skýrslu þegar jeg hefi lokið þessari ræðu minni, og get svo gert þær aths. við hana, sem mjer kann að þykja ástæða til, í næstu ræðu minni.

Hæstv. dómsmrh. bar fram sem veigamikla ástæðu fyrir því, að ríkið ætti prentsmiðju, að þá væri hægt að prenta Alþt. með smærra letri og mundi það hafa nokkurn sparnað í för með sjer. En heldur hæstv. ráðh., að þetta sje ekki hægt nema ríkið eignist prentsmiðju? Jeg vil bara leyfa mjer að benda honum á, að hann þarf ekki annað en skipa prentsmiðjunni, sem prentar þau, að nota smærra letur, því honum er í lófa lagið að segja: Annaðhvort verðið þið að hafa þetta svona, ellegar þið fáið þetta ekki til prentunar. — Þá talaði hann og um það, að ef ríkisprentsmiðja kæmist upp, þá mætti geyma letrið úr Alþingistíðindunum í Stjórnartíðindin. Þetta er vitaskuld rjett. En jeg get ekki sjeð, að það þurfi að koma upp ríkisprentsmiðju til þess áð hægt sje að gera þetta. Og jeg vil leyfa mjer að upplýsa hæstv. ráðh. um það, að þetta er sama sem gert. Letrið er að vísu brotið niður og svo sett upp aftur, en ríkinu algerlega að kostnaðarlausu. Það er nefnilega svo að það kostar prentsmiðjuna jafnmikið að geyma letrið eins og að setja það upp aftur. En hún vill vinna þetta til, til þess að fá að halda samningunum við ríkið. Þannig fellur því þessi röksemd á tvennan hátt, því það er bæði hægt að gera þetta eins og nú er, og svo er það gert.

Jeg skal svo fara að stytta mál mitt um þessa dæmalausu till. Hún er bæði vanhugsuð og vitlaus. Auk þess er það gersamlega óhæfilegt og ósæmilegt að afgr. þetta mál á þennan hátt, þar sem meiri hl. hv. þm. hefir ekki fengið að sjá þau plögg, er þetta alt byggist á. Hafa því þeir þm. alls ekki leyfi til þess að samþ. svona mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Einn er og sá galli á þessu, að með þessu er verið að taka atvinnu af mörgum mönnum, er nú stunda prentiðn. Því ef engin prentsmiðja væri keypt, þá mundu þessi störf skiftast niður á önnur fyrirtæki. Og þó það megi máske stundum segja, að ekki dugi altaf að horfa í slíkt, þá er það gersamlega óhæfilegt, að ríkisvaldið svifti borgarana atvinnu að ástæðulausu. Því ber vitanlega að hafa sem flestra hag fyrir augum.

Að lokum vil jeg benda á það, að þetta hefir verið reynt áður. Nokkrir bókaútgefendur, er þurftu að láta prenta mikið, hugðu, að það væri vitleysa að láta prentsmiðjurnar hafa stórhagnað af því að prenta bækur þeirra. Þeir hlytu að komast betur út af því með því að gera þetta sjálfir. Þeir stofnuðu því prentsmiðju. er „Rún“ nefndist. En þeir voru fljótir að trjenast upp á því og þóttust góðir að losna við hana. Það er nefnilega svo, að prentsmiðjurekstur er nokkuð sjerstakur í sinni röð. Og ef þeim kröfum, er hann gerir, er ekki fullnægt, þá er stórhætta á því að mikið tap verði á honum. Þetta er reynslan, og jeg get ekki búist við því, að þetta gangi betur hjá ríkinu. A. m. k. er það reynslan, að það, sem ekki getur borið sig hjá einstaklingum, verður venjulega til stórkostlegs taps fyrir hið opinbera.

Loks er það sú röksemd hæstv. dómsmrh., að Jón Þorláksson hafi sett upp verkstæði, er ríkið átti, til þess að smíða í brýr, og hafi það verið lofað af öllum. Hv. 2. þm. G.-K. tók það fram í þessu atriði, er þurfti. En jeg vil aðeins benda á, að hjer er sá stóri munur, að þegar verkstæðið var sett upp, þá var verið að ná þeirri atvinnu inn í landið. Það var alls ekki af því að ríkið byggist við að fá ódýrara með þeim hætti. En svo framarlega sem hægt var að smíða þessa hluti eins ódýrt hjer í landinu, þá var vitanlega sjálfsagt að flytja vinnuna inn í landið. Ef öll prentun hjer færi fram í útlöndum, þá skyldi jeg vera fús til þess að athuga það, hvort ekki væri rjett, að ríkið eignaðist prentsmiðju. En hjer er alls ekki slíku til að dreifa, og passar því þessi líking hæstv. ráðh. ekki hjer í þessu tilfelli.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.