15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

* Af því að hv. þm. Ísaf. er ekki viðstaddur, vil jeg segja nokkur orð um 2. brtt. á þskj. 651, sem við flytjum í sameiningu.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá var samþ. hjer í d. 3500 kr. sjúkrastyrkur til Ólafs Stefánssonar frá Ísafirði. Nú stendur svo á, að þessi maður er látinn af völdum sjúkdómsins, en ekkja hans lifir eftir og er svo nauðulega stödd, að það liggur við borð að hún verði að gefast upp og leita á náðir hreppsins, ef henni kemur ekki nein hjálp. Í þessari till. okkar er farið fram á, að henni sjeu veittar 2400 kr., eða 2/3 af þeirri upphæð, sem manni hennar var ætluð. Jeg er þess fullviss, að hún kemst af, ef hún fær þennan styrk, og getur þá haldið uppi skóvinnustofu og lítilli skóverslun, sem maður hennar hafði. Af því getur hún lifað. Jeg vænti þess, að hv. þdm. sjái sjer fært að veita þennan styrk, þó að hann sje nokkuð óvanalegur, en það eru líka alveg óvanalegar ástæður, sem að liggja. Manninum varð ekki hjálpað, en þó er ekki síður ástæða til að styrkja eftirlifandi ekkju hans.

Það er víst að bera í bakkafullan lækinn að tala meira um þá till., sem samþ. var í hv. Ed. um að heimila stj. að gera kaup á prentsmiðju. Hæstv. dómsmrh. vildi halda því fram, að með þessum kaupum væri ekki verið að gera mikla breyt. í raun og veru. Það væri aðeins verið að færa þessa eign frá einni stofnun til annarar Hann átti þar við, að Landsbankinn geti alls ekki fengið sitt fje frá Gutenberg nema því aðeins, að ríkið kaupi hana. Þetta finst mjer vera mjög varhugaverð stefna, og ef nú á að fara inn á þessa braut, að ljetta undir með lánsstofnunum á þennan hátt, þá hugsa jeg, að bráðum verði þröngt fyrir dyrum. Í annan stað hefir ekki verið gerð nægilega glögg grein fyrir þessari till. og ekki athugaðar nægilega þær afleiðingar, sem hún hefir í för með sjer. Jeg hefi litið á áætlun yfir starfrækslukostnað prentsmiðjunnar, og er þar gert ráð fyrir, að hann verði 175 þús. kr. á ári. Þetta er áreiðanlega of lítið. T. d. er mjer kunnugt um það, að ef þarna á að greiða svipað í verkalaun og í öðrum prentsmiðjum, þá eru þær 95 þús. kr., sem til þess eru ætlaðar, sýnilega alt of lítil upphæð. Ein prentsmiðja getur heldur ekki komið því af að prenta alt, sem þarf, meðan Alþ. stendur, og verður þá eftir sem áður að leita til annara um þann tíma. Annars virðast mjer þessi prentsmiðjukaup vera nokkuð mikið kappsmál hjá hæstv. dómsmrh. Framkoma hans í málinu minnir mig satt að segja mikið á dálítið skrítna sögu norðan úr landi. Þar var einu sinni fáráðlingsstrákur vinnumaður á bæ. Einn góðan veðurdag kemur hann til húsbónda síns og segist endilega vilja kaupa hest. „Þú hefir ekkert við hest að gera“, segir húsbóndi hans, „og svo lána jeg þjer líka altaf hest þegar þú þarft á að halda, ef þig langar að fara eitthvað á frídögum þínum. Það verður þjer alveg kostnaðarlaust, og hjá mjer færðu miklu betri hest heldur en þú getur nokkurn tíma keypt þjer“. —„Já, jeg veit það“, sagði strákur. „Hjá þjer fæ jeg miklu betri hest en jeg get keypt mjer. En mjer er ekki sama, hver hesturinn er. Jeg vil ekki hafa það hest, heldur hryssu, og það endilega rauða hryssu. Og jeg vil kaupa mjer rauða hryssu, þó hún sje bæði hölt og meidd“.

Hæstv. dómsmrh. fer álíka viturlega að ráði sínu í þessu máli eins og strákurinn.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.