15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

16. mál, fjárlög 1930

Ásgeir Ásgeirsson:

Fyrsta brtt. mín að þessu sinni á skylt við aðra af þeim skriflegu brtt., sem hjer eru fluttar, og ef hv. flm. hennar við ganga inn á að 1 þús. kr. af þeirri upphæð, sem þar er farið fram á að veita til styrktar sjúklingum, gangi til Unnar Vilhjálmsdóttur, en 3 þús. kr. til Þorgils Þorgilssonar í Vestmannaeyjum, þá mun jeg taka mína brtt. aftur, ef sú skriflega verður samþykt. Að öðrum kosti held jeg minni till. fram.

Önnur brtt. mín er sú XXII. á þskj. 646, og er um 2 þús. kr. styrk til styrktarsjóðs Maríu Össursdóttur í Flatey. Þessi fjárhæð var samþ. hjer við 2. umr., en var feld niður af hv. Ed., sem sýndi manndóm sinn í því að koma fyrir kattarnef styrkjum til berklavarna. Þessi till. hefir, eins og jeg sagði áðan, verið samþ. hjer áður, og jeg vænti þess, að hv. deild haldi nú fast við hana, þar sem hún á fullan rjett á sjer. Þessi sjóður er nú kominn upp í 8 þús. kr., og má ekki verja neinu úr honum fyr en hann er orðinn 10 þús. kr., en þá á að veita fje úr honum til styrktar berklavörnum. Eins og jeg hefi áður sagt, þá verður þetta til sparnaðar fyrir ríkissjóð, því að þessi sjóður kemur til með að ljetta undir kostnaðinn við berklavarnirnar, sem er nú svo tilfinnanlegur.

Þá flyt jeg einnig III. brtt. á þskj. 651, sem er um 200 kr. styrk til Jensínu Pálsdóttur ljósmóður. Þessa till. flyt jeg eftir beiðni hæstv. forsrh., og jeg vænti þess, að hv. þdm. láti till. ekki gjalda þess, að hann er veikur og getur því ekki mælt fyrir till. sjálfur. Þessi kona er komin yfir sjötugt og hefir verið ljósmóðir í 30 ár, svo að hún fullnægir þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir því að komast inn í þennan lið fjárl.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þessar till., þar sem nú er mjög liðið á fundartímann, en vil aðeins taka það fram, að jeg mun eins og áður greiða atkv. með styrknum til gagnfræðaskóla Reykjavíkur og að Flensborgarskólinn fái sjerstakan styrk. Jeg sje ekki, að það sje þörf á að flýta því um eitt ár að setja Flensborgarskólann á bekk með hjeraðsskólunum, þar sem væntanlegt er heildarskipulag um alla þá skóla á nærliggjandi tíma, og hvað gagnfræðaskóla Reykjavíkur viðvíkur, þá veit jeg, að margir aðrir skólar eru styrktir, sem eiga það síður skilið.