01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Það er rjett hjá hv. 1. þm. G.-K., að viðlagasjóður á ekki til þá upphæð, er hann á að leggja fram. Samkv. síðasta reikningi átti hann í skuldabrjefum kr. 1549096,26. Þar að auki átti hann í bankavaxtabrjefum kr. 70600,00 og í dönskum ríkisskuldabrjefum krónur 316070,40. Sjeu þessar upphæðir taldar saman, þá mun að vísu nást sú upphæð, er leggja á fram, en þó er efasamt, hvort hún verður fyrir hendi, ef samþ. verða þær eftirgjafir, sem nú eru komnar inn í fjárlög. En við þetta er athugandi, að dönsku skuldabrjefin er ekki hægt að taka, því mestur hluti þeirra er bundinn til tryggingar veðdeild Landsbankans. Það eru því missmíði á frv. í þessu efni, og þarf að bæta úr því, en það er gert með till. minni.

Um það, er hv. frsm. sagði viðvíkjandi tryggingarfje bústofnslánadeildar og vísaði þar í athugasemdirnar við frv., þá má segja, að þar sje nokkuð slegið úr og í, því í aths. er jöfnum höndum talað um stofnfje og tryggingarfje. En þar sem hann hjelt því fram, að það væri sjerstakur stuðningur fyrir deildina að fá 700 þús. kr. í skuldabrjefum viðlagasjóðs, þá er hann þar ekki í samræmi við aths. stjfrv. Ef hæstv. forseti vill leyfa mjer að hafa yfir ummæli athugasemdanna, þá eru þau þannig: „Þar sem stofnsjóðurinn er fyrst og fremst tryggingarsjóður, mætti að því leyti á sama standa, þótt hann væri allur lagður bankanum út í tryggum skuldabrjefum. En stofnsjóðinn má ávaxta í vaxtabrjefum deildarinnar sjálfrar og þannig nota hann sem veltufje. Til þess kemur hann ekki deildinni að gagni nema að því leyti, sem hann verður lagður út í handbæru fje. Hjer er lagt til, að deildin fái 50 þús. kr. á ári úr ríkissjóði í þessu augnamiði, um 6 ára bil eftir að bankinn verður stofnaður, og er það nokkur stuðningur fyrir deildina til þess að komast af stað með“.

Þessi tvískinningur, sem er í aths. stjfrv. um hvort hjer er um tryggingarfje eða stofnsjóð að ræða, er af tekinn með brtt. minni, er kveður skýrt á um þetta atriði. Hún er því ekki annað en lagfæring á frv., er gerir ákvæði þess skýrari.