17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

16. mál, fjárlög 1930

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. 6. landsk. og hv. þm. Ak. — Hv. 6. landsk. þótti undarlegt að hefja umr. um fjárl.- frv. í þetta sinn, þar sem engin brtt. lægi fyrir, og hitt vitanlegt, að meiri hl. d. ætlaði sjer að taka við þeim eins og þau liggja fyrir. Þetta er nú samt algeng venja, þegar líkt stendur á við eina umr., og furðar mig á, að hv. 6. landsk., sem annars fylgist vel með störfum þingsins og venjum, skuli láta þetta koma sjer ókunnuglega fyrir sjónir. Hv. 4. landsk. er víst á annari skoðun, að því er mjer skildist. Hv. þm. tók fram í byrjun ræðu sinnar, að það væri eins og jarðarför óþekts manns færi hjer fram. Þingmaðurinn ætlast eflaust ekki til, að þessi hv. d. taki þegjandi við frv. eins og hv. Nd. hefir þóknast að ganga frá því.

Jeg sagðist ekki öfunda hv. meiri hl. þingsins af afgreiðslu fjárl. í þetta sinn, og mun það sýna sig, þótt síðar verði, að meiri hl. er þar ekki öfundsverður. Eins mun það og koma í ljós, hvort ekki hafi verið forsvaranlegt að jafna tekjuhallann á þann hátt, sem minni hl. n. fór fram á í till. sínum.

Jeg verð að halda því fram, að það hafi verið óþarflega mikil varkárni, sem meiri hl. sýndi með því að skera niður allmiklar fjárveitingar til ýmiskonar verklegra framkvæmda, sem nauðsynlegar eru, vegagerða. Að vísu hafa menn talað um, að þrátt fyrir þann niðurskurð hafi þó aldrei verið veitt jafnmikið til verklegra framkvæmda og í fjárlfrv. þessu. En mjer finst þetta ekkert undrunarefni, þegar litið er á, að afkoma ríkissjóðs hefir aldrei verið betri en hún er nú. Það er ekki langt um liðið, að hæstv. forsrh. gerði glögga grein fyrir því, að raunverulegur tekjuafgangur af ríkisrekstrinum síðastl. ár mundi nema um 11/2 milj. króna. Þegar þjóðarbúskapurinn gengur svo vel, þarf engan að furða, þó að varið sje álitlegum fjárhæðum til verklegra framkvæmda í landinu.

Annars er ekki úr vegi að minna á, hvernig núv. stjórnarflokkur hagaði orðum sínum, þegar hann var í minni hl. Þá var sýknt og heilagt verið að stagast á því utan þings og innan og í blöðum flokksins, að forsjónin hefði með góðæri sínu lagt ríkissjóði til tekjurnar, svo að það hefði verið vandalaust fyrir þáv. stj. að ljetta á skuldum ríkisins og leggja ríflega til verklegra framkvæmda.

Nú er viðhorfið a. m. k. ekki lakara, heldur að öllum líkindum betra, þar sem um óvenjulega mikinn tekjuafgang er að ræða frá síðasta ári, auk þess aflabrögð í besta lagi, markaðshorfur góðar og atvinna með mesta móti, m. ö. o. forsjónin leggur upp í hendur hæstv. stj. óvenjulega árgæsku til lands og sjávar, svo að engum dylst, að líta má bjartari augum til framtíðarinnar um afkomu ríkissjóðs en nokkru sinni áður. En þrátt fyrir þetta þykist hæstv. stj. og meiri hl. sá, er hana styður, verða að sýna þá varkárni um afgr. fjárl., að ekki mátti sinna till. okkar minni hl. um að hækka tvo tekjuliði fjárl. mjög varlega. Nei, við það var ekki komandi, heldur var hitt ráðið tekið, að takmarka verklegar framkvæmdir, svo sem að klípa af fjárhæðum til einstakra vega, sem vitanlegt er þó um, að hver einasta sýsla í þessu vegasnauða landi bíður með óþreyju eftir að fá, og sem hver einasti ferðamaður, er um vegina fer, hugsar sem svo: hjer vil jeg glaður fje til leggja. Jeg sný því ekki aftur með það, sem jeg sagði áður, að það hefði verið betra að fara þá leið, er við minni hl. bentum á: að hækka nokkra tekjuliði í stað þess að klípa stærri og minni upphæðir af fje því, sem áætlað var til vega.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í hvers vegna fjvn. hefir tekið við frv. eins og það er, enda þótt meiri hl. n. hefði lýst því yfir á fundi sínum í gær, að hann væri óánægður með frv. og teldi, að hv. Nd. hefði brotið stefnu þessarar hv. d. í tveimur atriðum. Sem sagt, jeg leiði hjá mjer frekari umr. um þetta.

Hv. þm. Ak. ljet sem það undraði sig mjög, að jeg skyldi vera að tala um meiri hl. í fjvn.; hann hefði enginn verið, sagði hann. Jeg var ekki að tala um meiri hl. til þess að gefa í skyn, að samvinna nefndarm. hefði ekki verið góð. En vitanlegt er, að í hverri þingnefnd eru í rauninni meiri og minni hluti, eins og í þinginu sjálfu, og þar sem þingflokka oft skilur hvað mest á í fjármálum, má nærri geta, og þingmeiri og minni hluta gætir ekki hvað síst innan fjárveitinganefnda. Skoðanamunur hlaut eðlilega að verða nokkur, eins og sýndi sig í því, að meiri hluti fjvn. þessarar hv. deildar lagðist á móti þessum 2 brtt. okkar minni hl. um mjög svo varlega tekjuhækkun, og sýndi með því öldungis óskiljanlega varfærni.

Annars komst hv. þm. Ak. að þeirri niðurstöðu, að hv. Nd. mætti vel við una afgr. fjárl. í þetta sinn, og ætla jeg ekki að mæla því gegn. En að sama skapi sýnist mjer þá, að þessi hv. d. megi lítt við una, þar sem breyt. Nd. hafa því sem næst allar gengið gegn þessari hv. d. og fjvn. hennar. Læt jeg svo þetta nægja og mun ekki taka til máls aftur við þessa umr., nema sjerstakt tilefni knýi mig til þess.