20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

15. mál, laganefnd

Magnús Guðmundsson:

Jeg býst við, að hæstv. dómsmrh. svari ræðu hv. þm. Dal. Vil jeg því nota tækifærið og beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort það sje meiningin, að n. sú, sem hjer er um að ræða, skuli skipuð fyrir kjörtímabilið. Jeg gæti vel skilið, að það væri ætlunin, að hún skyldi skipuð fyrir kjörtímabilið, því eigi nokkurt gagn að vera að n., verður stj. að skipa hana þannig, að hún geti búist við sæmilega góðri samvinnu við hana. Því verði hún t. d. skipuð tómum stjórnarandstæðingum, er ekki hægt að búast við góðri samvinnu. Hvað nafnið snertir, þá kann jeg mjög illa við að kalla hana löggjafarnefnd, sbr. löggjafarþing, því að það er þó ekki tilætlunin, að þessi n. setji lög.

Þá finst mjer óþarfi að gefa lög landsins út á fimm ára fresti, eins og gert er ráð fyrir í frv., enda þótt jeg viðurkenni, að nauðsynlegt sje að gera það við og við. Og jeg hefi enga trú á, að hægt sje að geyma letrið von úr viti, því að til þess þyrfti mikið pláss, og myndi það því verða dýrt.