30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

15. mál, laganefnd

Magnús Torfason:

Meiri hl. allshn., sem stendur að nál. á þskj. 348, telur, að nokkur bót megi vera að frv. þessu og engan vafa á því, að með tíð og tíma muni n. þessi vinna þarft verk.

Að því er einstakar brtt. snertir, hefir n. lagt til, að þetta verði heimildarlög. Henni fanst fara betur á því í alla staði.

Þá hefir n. lagt til, að nafni nefndar þessarar verði breytt og hún kölluð laganefnd, í staðinn fyrir löggjafarnefnd, því vitaskuld er það ekki tilætlunin, að hún hafi nein áhrif á löggjafarstarfið. Alþingi afsalar sjer vitanlega ekki neinu í því efni. Ennfremur hefir n. lagt til, að 2. gr. verði breytt að því leyti, að þessi n. aðstoði einnig við samræmd laga.

Þá hefir n. enn lagt til, að 3. og 4. gr. falli niður og greinatalan breytist eftir því. Enn vill n. rýmka nokkuð ákvæðin um, hversu oft lagasafnið skuli prentað upp, og vill n. hafa það svo, að í staðinn fyrir, að eftir frv. á að prenta það upp á 5 ára fresti, komi „að minsta kosti á 10 ára fresti“. Og felst í því, að það skuli gefið út svo oft sem nauðsynlegt og hentugt þykir. Fleiri brtt. hefir n. ekki borið fram við frv., og vil jeg að svo mæltu mælast til þess, að það fái góðar viðtökur í þessari hv. deild.