30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

15. mál, laganefnd

Magnús Guðmundsson:

Það hefir orðið útundan hjá okkur minni hl. allshn. að koma fram með nál. í þessu máli, og bið jeg velvirðingar á því.

Jeg má þó til með að svara með nokkrum orðum þeim tveim hv. frsm. meiri hl., sem hjer hafa tekið til máls.

Jeg hjó eftir því hjá öðrum hv. frsm. meiri hl. (GunnS), að hann sagði, að til væru hliðstæðar n. með öðrum þjóðum. Um þetta er mjer ekki kunnugt. Að vísu hafa Svíar sitt Lagråd, en hvert starfsvið þeirrar nefndar er, er mjer ekki kunnugt. Hitt er mjer kunnugt um, að Danir hafa sjerstaka n., sem eftir því sem jeg veit best vinnur eingöngu að því að laga málið á lagafrv., en ekki öðru, enda bendir nafnið til þess. Hún heitir: Udvalget for Lovforslages sproglige Affattelse.

Því er haldið fram, að það sjeu sjerstök þægindi fyrir stj. og jafnvel einstaka þm., að geta snúið sjer til þessarar n. um leiðbeiningar og aðstoð við undirbúning ýmsra mála. Jeg sje ekki annað en þetta geti alt átt sjer stað, eins og það líka hefir átt sjer stað, þó ekki sjeu sett sjerstök heimildarlög í þessu efni. Ef þessi n. verður sett og hún starfar eftir þeim tilgangi, sem gert er ráð fyrir í frv., þá verður ekki hjá því komist, að hún hlýtur að hafa nokkur áhrif á löggjöfina, verður einskonar yfirþing, eða að minsta kosti nokkur hluti af hinni löggefandi ráðstefnu. Jeg er þess fullviss, að raunin verður sú, að það verður oft spurt um, hvort þetta eða hitt frv. hafi verið lagt fyrir laganefndina, og það verður talinn galli á undirbúningi málsins, ef svo er ekki. Af þessu hlyti auk þess að leiða nokkurn aukinn kostnað, því að jeg hygg, að ekki yrði hjá því komist að greiða nefndarmönnum fasta þóknun fyrir starf sitt.

Við 1. umr. málsins benti jeg á, að nafnið væri illa valið, og hefir nú n. lagt til, að því yrði breytt til hins betra. Auk þess var því hreyft þá, að n. yrði ekki skipuð nema á milli kosninga, og fanst mjer hæstv. dómsmrh. ganga inn á, að eðlilegast væri, að hver ný stj. hefði aðstöðu til að velja sjer n. til aðstoðar, sem hún á að starfa með. Mjer virðist eftir frv. eins og það er, að ekki sje hægt að skifta um menn í n. fyrr en 4 ár eru liðin frá skipun þeirra.

Ekki kann jeg heldur við brtt. meiri hl. við 2. gr., um að bæta við „samræmd laga“. Mjer finst, að þar skjóti upp kollinum þetta sama, að n. eigi að hafa áhrif á löggjafarstarfið.

Um útgáfu lagasafnsins er það að segja, að það er rjett hermt hjá hv. frsm. (GunnS), að um það var öll n. sammála. En til þess þarf ekki annað en sjerstaka fjárveitingu í fjárlögum. Hversu oft safnið skuli gefið út, fer auðvitað eftir því, hvað stórvirk þingin eru á hverjum tíma, og sje jeg ekki, að um þetta þurfi sjerstaka lagasetningu. Það er vitanlega nauðsynlegt að fá lagasafnið gefið út í aðgengilegri heild, og að það sje endurnýjað á hæfilegum fresti. Hitt er jeg ekki alveg viss um, að nokkuð sje rjettara eða heppilegra að raða því eftir efni heldur en aldri. Mjer finst öllu eðlilegra, að því sje raðað eftir aldri og að aftan við sje handhæg skrá yfir lögin, og má þá finna eftir henni, hvaða lög gilda um þetta og þetta efni. Að öllu þessu athuguðu sje jeg ekki, að ástæða sje til að setja sjerstök lög um þetta efni. Sjerhver stj. hefir á hverjum tíma viðurkendan rjett til þess að fá sjer þá aðstoð, sem henni þykir ástæða til, og um einstakar nefndir veit jeg, að það hefir a. m. k. komið fyrir, að þær hafa fengið greiddan kostnað, sem þær hafa haft af undirbúningi mála. Jeg mun því ekki sjá ástæðu til að ljá þessu frv. mitt atkv.