30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

15. mál, laganefnd

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það, sem einkennir andstöðu hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal., er smekkleysi þeirra fyrir lögum landsins. Það var sagt um rithöfund einn, sem mikið hafði lesið miðaldalatínu, að hann væri búinn að tapa öllum smekk fyrir góðri latínu. Þessir hv. þm. hafa báðir starfað sem ráðherrar, þegar mestur glundroði var á stjórn og lagasmíð. Og þeir vilja halda því fram, að sama eigi að gerast í nútíðinni. Þeir eru orðnir því svo vanir, að þeir sjá enga galla á þessu. Flestir eða allir betri lögfræðingar sjá það og telja þetta allsherjar skipulagsleysi alveg óþolandi til lengdar. Þeir álíta það alveg nauðsynlegt, að lögin verði gerð heilsteyptari, gleggri og fullkomnari. Um þetta er barist og annað ekki. Annaðhvort vilja þessir menn ekki sjá, eða sjá ekki þessar ófrægilegu ástæður, sem gera laganefnd nauðsynlega, eða þeir vilja bara vera á móti þeim, er ber þetta mál fram. Ef rök þeirra móti þessu frv. ættu að vera góð og gild, þá yrðu þeir að sanna það, að þeir hafi jafnan sem ráðh. komið með góð frv. og vel undirbúin og að öll formsmeðferð í þingum hafi verið góð og skipulagsbundin. En allir vita, að svo hefir ekki verið, og verður fráleitt aldrei; þar sem sífelt er verið að skifta um stjórn, þar verður alt í molum. Í þinglokin eru svo frv. drifin í gegn á fáum dögum, oft án nauðsynlegrar gagnrýni.

Þá sagði hv. þm. Dal., að stj. hefði eða gæti haft menn eins og t. d. vegamálastjóra, vitamálastjóra og svo Búnaðarfjelag Íslands sjer til aðstoðar við lagasmíði. Þetta sýnir, að hv. þm. veit ekki, um hvað er að ræða. Þetta eru vitanlega góðir menn, er vita, hvaða innihald þau einstöku lög eiga að hafa, en þeir þurfa alls ekki að vera góðir, þrátt fyrir það, til þess að fást við formshliðina og koma efninu í góðan búning. Hv. þm. blandar hjer því algerlega saman efni laga og formi þeirra, sem vitanlega er sitt hvað. Þá vísaði og hv. þm. til þeirra lögfróðu manna, er væru við háskólann. En jeg verð að segja það, að það er alls ekki víst, að það sjeu ætíð bestu lögfræðingarnir, sem eru við háskólann. Jeg hefi t. d. þá trú, að þeim þó alveg ólöstuðum, að t. d. skrifstofustjóri Alþingis sje alveg eins góður að „formulera“ lagagreinar eins og prófessorar háskólans.

Þá hefir hv. þm. Dal. líklega mint, að hann væri að tala við kjósendur sína í Dölunum, og það þá lökustu, er hann var að tala um, að hjer ætti að fara að stofna 3 ný embætti. í því sambandi verð jeg að segja það, að jeg held, að hægt væri áð starfrækja þessa nefnd fyrir lítinn hluta af þeim kostnaði, er fer til þess að launa einn bankastjóra Íslandsbanka nú, hvað þá ef launin væru eins og hv. þm. hafði upphaflega skamtað sjer þau. Jeg býst meira að segja við, að kostnaður við þessa n. verði ekki nema lítill hluti þeirra eftirlauna, er greiða þarf ýmsum, er hafa starfað við þennan banka. Og ef það er athugað, hve þingkostnaðurinn er mikill, þá býst jeg við, að flestum hugsandi mönnum mundi þykja það tilvinnandi að kosta nokkru til þessarar nefndar, ef það gæti orðið til þess, að nokkuð gæti sparast af þingkostnaðinum, vegna þess að málin væru betur undirbúin.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að það væri óhæft, að n. þessi væri ekki bundin við kjörtímabil. Við þetta er vitanlega ekkert að athuga, og það er bara tilviljun, ef hún er sett á laggirnar á miðju kjörtímabili. Nú veit enginn, hvenær nýjar kosningar fara fram. Það gæti t. d. hent sig, að þær færu fram strax í vor. Hv. þm. sagði, að það væri látið svo, sem n. þessi ætti að bæta löggjöfina, en henni væri þó ekki skylt að gera það. Og hann nefndi t. d. að svo gæti farið, að skrifleg brtt. kæmi fram rjett fyrir atkvgr. Væri þá ef til vill ekki tími til þess að bera hana undir n., og yrði því að þessu leyti ekkert gagn að henni. En þetta sýnir best, að hv. þm. skilur alls ekki, hver er aðaltilgangur þessa frv. Hann hefir ekki gætt að því, að n. á yfirleitt að vera ríkisstj. og þm. til aðstoðar við samningu frv. Er gert ráð fyrir því, að þessir aðilar geti leitað til hennar eftir því sem þeir vilja. Enda mun það verða svo, að allir sem hafa smekk fyrir því, að löggjöfin sje í heilsteyptu formi, munu leita til hennar. Og það eykur ekki álit mitt á því, að lögfræðin sje mentandi, að tveir þeirra manna — og báðir lögfræðingar —, er hafa verið æðstu embættismenn þjóðarinnar á þeim tímum, þegar löggjöfin þurfti mestra endurbóta við, skuli ekki ennþá hafa skilið, hve mikil nauðsyn er á endurbótum á þessu sviði. Þetta er það, sem almenningur skilur og krefst. En hann vonast ekki eftir því frá öðrum eins mönnum og hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. Til þess hefir hann sjeð of mikið af vinnubrögðum þeirra við lagagerð.