06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Á þskj. 542 eru tvær brtt. frá landbn. Sú fyrri er einungis sjálfsögð leiðrjetting á frv., sem jeg býst við, að skrifstofan hefði sjálf getað og mátt leiðrjetta. Hv. Ed. hefir bætt við bankann nýrri deild, lánadeild fyrir smábýli í grend við kaupstaði og kauptún. Verða þá deildir bankans sex talsins, en í 3. gr. eru þær eftir sem áður taldar fimm. Fyrri till. nefndarinnar á að lagfæra þetta.

Í síðari brtt. nefndarinnar felst efnisbreyting nokkur. Í frv. eins og það kemur frá hv. Ed. segir, að lánadeildin megi lána til smábýlanna sem nemur 3/4 af fasteignamatsverði þeirra. Nefndin leggur til að færa þetta niður í 3/5 fasteignamatsverðsins. Með þessu vill nefndin samræma ákvæði frv. um það, hve mikið bankinn megi lána út á fasteignir í hlutfalli við virðingarverð þeirra. Nefndin sjer enga ástæðu til þess, að bankinn megi lána meira út á veð í þessum smábýlum heldur en öðrum fasteignum.

Um þær breytingar, sem hv. Ed. hefir að öðru leyti gert á frv., ætla jeg ekki að ræða að svo stöddu fyrir hönd n. Við höfum ekki sjeð fært að leggja út í deilu við hv. Ed. út af þeim. Sumar þeirra orka þó mjög tvímælis að okkar áliti. Þó er ein þeirra, sem við teljum til bóta, sem sje sú, að ákvæðin um, að veðdeildin megi gefa út verðbrjef með happvinningum eru numin burtu. Aðalbreyting hv. Ed. er fólgin í þessum nýja kafla um lánadeild fyrir smábýli, sem jeg mintist á. Jeg hefði talið rjettara, að þingið hefði ekki tekið endanlega ákvörðun um það mál að svo stöddu, heldur látið það bíða frekari athugunar og undirbúnings undir næsta þing. Jeg lít svo á, að það sje fjarri því, að nauðsynleg rannsókn hafi farið fram um þetta mál. En að nefndin samt sem áður leggur ekki til að fella kaflann aftur út úr frv., er fyrst og fremst vegna nokkurs ótta um, hvernig þá mundi fara um afgreiðslu málsins í heild sinni. Í öðru lagi treystir hún því, að hæstv. stjórn endurskoði þennan kafla fyrir næsta þing og ennfremur, að hún geti með reglugerðarákvæðum að nokkru bætt úr vansmíðum þeim, sem á þessum kafla eru. Hefir n. því ekki viljað ráða til að leggja út í tvísýna deilu við hv. Ed. út af þessu atriði.