30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

15. mál, laganefnd

Magnús Guðmundsson:

Jeg þarf ekki margt að segja, því að hæstv. dómsmrh. var, aldrei slíku vanur, laus við persónulegan skæting í svari sínu, og mun jeg því halda mjer við málið.

Hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Mýr. höfðu það báðir eftir mjer, að jeg hefði átt að segja, að annríki væri svo mikið seinni hl. þings, að þm. gætu ekki fylgst með málum þess. Þetta er nú vitanlega dálítill útúrsnúningur, svo að jeg segi ekki meira. Jeg átti við, að sökum annríkis þegar liði á þingið ættu einstakir þm. þess vart kost að setja sig inn í málin. En hver einstök n. á kost á því, þ. e. a. s. um þau mál, sem til hennar er vísað. Og eftir skipun þingsins liggur tryggingin á afgreiðslu málanna í þeirri meðferð og þeim undirbúningi, sem málin fá í hinum einstöku nefndum. En hvernig ættu 3 menn, búsettir einhversstaðar úti í bæ, að leysa þetta starf betur af höndum en 42 þm., sem dreifðir eru í hinar ýmsu n. þingsins?

Jeg ætla ekki að fara út í það, hvað við hv. þm. Dal. höfum gert í löggjafarsmíði okkar. Þó býst jeg við, að benda mætt| þar á ýmislegt, sem við höfum unnið til bóta, en það kemur ekki þessu máli við.

Um hegningarlögin, sem hæstv. dómsmrh. var að nefna, er það að segja, að beðið hefir verið í mörg ár eftir því, að n. manna á Norðurlöndum, sem haft hefir endurskoðun hegningarlaganna með höndum, lyki störfum sínum. Nú hefir hún gert það og í vetur hafa Danir, að því er jeg best veit, samþ. ný hegningarlög, en um hitt veit jeg ekki, hvort Norðmenn eða Svíar hafa gert það, en þeir gera það þá eflaust á næsta ári. Munum við því geta notið ávaxtanna af því starfi, er við förum að endurskoða okkar hegningarlöggjöf, enda geri jeg ráð fyrir, að við förum í því efni sömu leið og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að engar skrár væru haldnar í stjórnarráðinu yfir menn, sem hefir verið refsað, en það kemur ekki þessu máli við. En um þessar skrár er þó það að segja, að þær eru til í hverju lögsagnarumdæmi landsins. En hann á víst við, að hjer í Reykjavík þurfi að vera til ein allsherjarskrá. En það er ekki nóg; þær þurfa að vera 17, eða jafnmargar og lögsagnarumdæmin eru. Því hvaða gagn væri að því, þó að hjer lægi fyrir ein skrá, ef sakamál kæmi t. d. upp í Austfirðingafjórðungi? Svo er það ekki heldur sjerlega. mikil fyrirhöfn að senda símskeyti á þá staði, sem vitað er um, að ákærði hefir dvalið á, til þess að fá vitneskju um, hvort honum hefir verið refsað áður eða ekki. Þetta eru því smámunir, sem engin ástæða er að eyða fleiri orðum að.

Jeg má ekki vera að svara hv. þm. Mýr. miklu. Hann líkti lagasmíðinni við húsasmíð, sem fengin er öðrum manni í hendur til þess að framkvæma. En hjer er ólíku saman að jafna. En sje svo, að þetta sje meiningin með frv., þá er Alþingi að afsala úr höndum sjer rjetti, sem það hefir um löggjöf landsins, til fárra manna utan þingsins. Og móti því verður að berjast af öllu afli, því að heiður Alþingis er í veði, ef það setti sjer slík lög.

En þetta hlýtur að vera misskilningur hjá hv. þm. Mýr.; frv. er ekki svona slæmt eins og hann vill vera láta.