30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

15. mál, laganefnd

Sigurður Eggerz:

Jeg þarf svo margt að taka fram, að jeg hefi lítið gagn af 5 mínútna aths. Um ræðu hv. 2. þm. Árn. vildi jeg segja það, að hann ætlaðist víst til, að hún snerist mest um það, að ekki kæmi til mála, að n. hefði skapandi áhrif á löggjafarstarfsemi þingsins. En þegar hv. þm. fór að tala í hita um málið, hrökk þessi gullvæga setning frá honum, sem jeg henti þegar á lofti og ritaði niður hjá mjer: „Býst ekki við“ — það er orðrjett haft eftir þm. —„að nefndin verði skapandi kraftur, en að hún smátt og smátt frjóvgist af samvinnu við löggjafana og þar í gegnum verði skapandi kraftur“. — M. ö. o. í svip er ekki að vænta stórrar umbreytingar, en þó gægist fram í þessum orðum hv. 2. þm. Árn., að hann álítur, að smátt og smátt verði n. hinn skapandi kraftur í löggjafarstarfsemi Alþingis.

Nú liggur það í hlutarins eðli, að eins og hv. þm. hafa talað um löggjöf okkar, sagt að hún væri stór grautur og svo mikill glundroði í henni, að ekki mætti við una, að þá álíta hinir sömu menn, ef slík n. kæmist á laggir, að lagasmíð okkar tæki þegar miklum breyt. til bóta. Alt ber því að sama brunni fyrir þeim hv. þdm., sem fastast hafa lagt með frv. þessu. Þeir búast við, að hinn skapandi kraftur n. verði svo mikill, að hans vegna sje sjálfsagt að yfirfæra vald þingsins, sem þjóðin hefir gefið þeim, í hendur fárra manna, þ. e. þeirra, sem framvegis eiga að vera hinn skapandi kraftur í löggjöf Íslendinga!

Ummæli hæstv. dómsmrh. að því leyti, er þau snertu mig, snerust aðallega um það, að jeg mætti ekki tala um sparnað, af því að jeg væri sjálfur svo ósparsamur. Ef hann hefir átt við bankastjóralaunin í Íslandsbanka, þá vil jeg geta þess, að það var jeg, sem varð til þess að færa þau niður um 16 þús. kr., og Alþingi hefir notað sjer það fordæmi, eins og kunnugt er. Jeg held, að vegna þessara ráðstafana geti jeg taláð um sparnað rjett eins og hver annar.

Hæstv. dómsmrh. óskaði eftir, að jeg færi í mannjöfnuð við sig út af opinberum framkvæmdum okkar beggja. Það kemur mjer ekki til hugar, og það af þeirri einföldu ástæðu, að jeg stend á öðrum grundvelli en ráðh. að ýmsu leyti, þannig að ýmislegt, sem hann hrósar sjer af, tel jeg með öllu óleyfilegt og vildi ekki gera. Annars get jeg til samanburðar þessari margumræddu viðgerð hans á mentaskólanum nefnt það, að jeg ljet gera við Akureyrarskólann, og nam sú viðgerð milli 60 og 70 þús. kr., en að sjálfsögðu á jeg ekkert hrós skilið fyrir. Sá kostnaður var vitanlega greiddur úr ríkissjóði, enda bjóst jeg fremur við skömmum fyrir það heldur en þakklæti, af því að þetta var gert milli þinga. En það var nauðsynlegt að gera þetta, og það rjeði framkvæmdum mínum. Það er misskilningur, þó að stj. láti gera hitt eða þetta, sem nauðsynlegt er, á kostnað ríkissjóðs, að þá sje ástæða til að leggja lárviðarsveig um höfuð stj. Mjer hefir a. m. k. aldrei dottið í hug að ætlast til sjerstaks þakklætis fyrir það, sem jeg hefi látið framkvæma á kostnað ríkissjóðs.

Um hegningarlögin er það rjett, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að við höfum verið að bíða eftir endurskoðun slíkrar löggjafar á Norðurlöndum, sem nú er nýlega lokið. Það hafa allir viðurkent, að nauðsynlegt væri að endurbæta hegningarlöggjöf okkar, og í raun og veru hefir verið unnið að því á undanförnum þingum. Á síðasta þingi bar jeg t. d. fram till., sem dálitla þýðingu hafa til bóta í þessu efni. Annars vil jeg benda á það í þessu sambandi, að þar sem hegningarlöggjöfin er notuð sem sjerstakt dæmi um það, hvað Íslendingar standi öðrum þjóðum að baki, að það er ekki fyr en nú alveg nýlega, að Danir hafa endurskoðað og samþ. nýja hegningarlöggjöf hjá sjer. Jeg skal líka geta þess, að þegar jeg tók við stj. af Jóni heitnum Magnússyni, þá fann jeg í skrifborði hans í stjórnarráðinu uppkast að frv. um breyt. á hegningarlögunum. Það sýnir a. m. k., að Jón heit. Magnússon hefir haft hug á því að lagfæra þessa löggjöf. Mjer var líka fast í huga að skipa n. manna í þessu skyni, en það fórst fyrir af því að svo mörg verkefni kölluðu að. Þar á meðal kom jeg með till. til þess að draga úr embættabákninu, gera það einfaldara og óbrotnara og kostnaðarminna, og þó þær till. fengju ekki nægilegt fylgi í þinginu, þá var þó mikil vinna lögð í þær. Jeg ræddi nokkuð á síðasta þingi við dómsmrh. um undirbúning hegningarlaganna. Lögfræðingum mun hafa verið falinn undirbúningurinn, en spursmál er, hvort ekki hefði verið rjett að hafa einnig ólöglærðan mann með í þeim undirbúningi.

Um hitt, sem hæstv. dómsmrh. dró inn í umr. um þetta mál, er hann vildi krefjast þess, að fráfarandi forsrh. hefði jafnan skriflegt yfirlit yfir alt, sem stj. hefði látið gera á meðan hún fór með völdin, ætla jeg ekki að eyða mörgum orðum til að svara, enda er hæstv. forseti að minna mig á, að 5 mínútumar sjeu tæmdar. Jeg skal aðeins taka fram, að það er mesti misskilningur að draga slíka fjarstæðu inn í umr. sem þessar.

Mjer er ekki markaður lengri ræðutími, en áður en jeg setst niður vil jeg taka fram, að jeg tel sannað, að frv., eins og hv. frsm. meiri hl. skilur það, sje gagnslaust með öllu, en með þeim skilningi, sem hæstv. dómsmrh. og hv. 2. þm. Árn. leggja í það, þá er frv. beinlínis hættulegt, því að þá er með því gengið inn á einkasvið löggjafanna, en í báðum tilfellum er mikill kostnaður samfara þessu frv.

Hæstv. dómsmrh. hjelt því fram, að mótstaðan gegn frv. stafaði af því, að hann hefði borið það fram; en því fer fjarri. Rökin, sem færð hafa verið gegn frv., sýna, að andstaðan gegn því er ekki persónuleg. En frv., sem miða að því að rýra það vald, sem þjóðin hefir ætlað löggjafarsamkomunni, hljóta í lifandi þingi jafnan að mæta sterkri andstöðu.